Heilasérfræðingar og sálfræðingar standa frammi fyrir áberandi mótsögn: Í fjölmörgum löndum fer tíðni manndrápa lækkandi, stríð verða sjaldgæfari og velferð fer vaxandi, færri þurfa að fara soltnir að sofa, sjúkdómar hrjá fólk í minna mæli en nokkru sinni fyrr og lífaldur hefur aldrei verið hærri.
Áhyggjuefnin ættu sem sagt að vera orðin mun færri en engu að síður þjást æ fleiri af kvíða.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO metur það svo að greindum kvíðaröskunartilvikum hafi fjölgað um 15% á síðustu tíu árum.
Talið er að á heimsvísu þjáist 264 milljónir manna af kvíða og um þriðji hver muni þróa með sér sjúklega kvíðaröskun einhvern tíma á ævinni.
Kvíði hjálpar okkur við að halda uppi viðbúnaði þannig að við séum reiðubúin til aðgerða ef hættur verða á vegi okkar.
Í litlum skömmtum og við réttar aðstæður er kvíðinn sem sagt heppilegt viðbragð sem kemur í veg fyrir að við styttum okkur leið um dimm húsasund eða tökum of glæfralega áhættu í fjármálum.
En í sumum tilvikum verður kvíðinn sjúklegur og gegnsýrir hugsunina svo mikið að hann kemur í veg fyrir að fólk geti lifað eðlilegu lífi.
Fleiri þjást af kvíða
Hjá WHO segja menn vaxandi hlutfall fólks búa við stöðugan kvíða og harðast bitnar þróunin á ungu fólki. Í rannsókn sem náði til 22 milljóna barna og unglinga sem heimsóttu bandaríska heilbrigðiskerfið á árunum 2013-2017 reyndist hlutfall þeirra sem þjáðust af kvíða hafa meira en tvöfaldast á tímabilinu.
Af þessum sökum leita vísindamenn nú inn í heila kvíðasjúklinga til að finna orsakir þessa ástands.
Með heilaskönnun hafa þeir fundið þær heilastöðvar sem auka eða draga úr kvíða og borið kennsl á genabreytingar sem verða af völdum alvarlegra áfalla.
Með þessa nýju þekkingu að vopni hafa menn svo þróað meðferðarúrræði sem leiðrétta þessar genabreytingar og eiga á endanum að bólusetja okkur við því að þróa kvíðaröskun.
Samfélagsmiðlar auka á kvíða
Ein af ástæðum vaxandi kvíða er trúlega sú að umræða um geðræna kvilla er nú opinskárri en áður og þess vegna snúa fleiri sér til læknis, þar sem kvíðaröskunin er greind.
Það magnar upp þessa þróun að læknisfræðilegar skilgreiningar á kvíðaröskun hafa líka breyst. Félagslegur kvíði var þannig ekki viðurkenndur sem sjúkdómsástand fyrr en á síðasta áratug 20. aldar. Þess í stað var litið á kvíða sem hluta persónugerðarinnar.
Flestir vísindamenn eru þó sammála um að æ stærri hluti fólks þjáist af kvíða.
Margir vísindamenn benda á að samfélagsmiðlar setji aukinn þrýsting á fólk varðandi það að standa undir bæði eigin væntingum og annarra og telja þetta eina af sennilegustu skýringunum.
Önnur möguleg skýring er sú að fólk sofi almennt minna en áður var og svefnleysið hafi óheppileg áhrif á heilann.
Heilinn eykur og minnkar kvíða
Þegar við uppgötvum mögulega ógn leysir það sjálfkrafa úr læðingi ótta í möndlungi heilans (amygdala). Vitundin einbeitir sér að ógninni og eykur þannig á óttann en skynsemi heilans ákvarðar svo hvort hættan sé raunveruleg.
Ógn virkjar möndlunginn
Þegar skynfærin greina t.d. ógnvænlega sjón, berast taugaboð til möndlungsins sem meðhöndlar neikvæðar tilfinningar. Telji þessi heilastöð hættu á ferðum sendir hún líkamanum boð um að framleiða streituhormón.
Hjá fólki með kvíðaröskun er möndlungurinn oft stærri og virkari en í öðrum.
Vitundin beinist að hættunni
Heilastöðin ACC í heilaberki í ennisblaði beinir athyglinni að því sem mikilvægast er að athuga. Heilastöðin bregst við ógnum og sendir möndlungnum boð sem auka enn á óttann.
Hjá fólki með kvíðaröskun er ACC-heilastöðin bæði stærri og virkari en í öðrum.
Skynsemin tekur í taumana
Heilastöðin PFC í fremsta og neðsta hluta ennisblaðsins á þátt í sjálfstjórn og skynsamlegri ákvarðanatöku. Meti þessi heilastöð hættuna sem óverulega berast möndlungnum boð sem draga úr óttanum.
Hjá fólki með kvíðaröskun er PFC-heilastöðin ekki jafn virk og í öðrum.
Heilinn eykur og minnkar kvíða
Þegar við uppgötvum mögulega ógn leysir það sjálfkrafa úr læðingi ótta í möndlungi heilans (amygdala). Vitundin einbeitir sér að ógninni og eykur þannig á óttann en skynsemi heilans ákvarðar svo hvort hættan sé raunveruleg.
Ógn virkjar möndlunginn
Þegar skynfærin greina t.d. ógnvænlega sjón, berast taugaboð til möndlungsins sem meðhöndlar neikvæðar tilfinningar. Telji þessi heilastöð hættu á ferðum sendir hún líkamanum boð um að framleiða streituhormón.
Hjá fólki með kvíðaröskun er möndlungurinn oft stærri og virkari en í öðrum.
Vitundin beinist að hættunni
Heilastöðin ACC í heilaberki í ennisblaði beinir athyglinni að því sem mikilvægast er að athuga. Heilastöðin bregst við ógnum og sendir möndlungnum boð sem auka enn á óttann.
Hjá fólki með kvíðaröskun er ACC-heilastöðin bæði stærri og virkari en í öðrum.
Skynsemin tekur í taumana
Heilastöðin PFC í fremsta og neðsta hluta ennisblaðsins á þátt í sjálfstjórn og skynsamlegri ákvarðanatöku. Meti þessi heilastöð hættuna sem óverulega berast möndlungnum boð sem draga úr óttanum.
Hjá fólki með kvíðaröskun er PFC-heilastöðin ekki jafn virk og í öðrum.
Þótt orsakir kvíða séu umdeildar, er ákveðin tilhneiging mjög skýr: Nærri tvöfalt fleiri konur en karlar þjást af kvíðaröskun.
Að hluta til stafar þetta af því að karl- og kvenhormón hafa mismunandi áhrif á samskipti taugafrumna í þeim heilastöðvum sem eiga þátt í kvíðaviðbrögðum.
Testósterón veldur því t.d. að það þarf meira til að vekja karlmönnum ótta en estrógen og progesterón torvelda konum að venjast endurteknum kvíðavekjandi aðstæðum, jafnvel þótt þær reynist alveg hættulausar.
Frá náttúrunnar hendi er öllu fólki eðlislægt að hræðast skyndileg hljóð eða hluti sem nálgast á miklum hraða.
Kvíði eða ótti vaknar að öðru leyti hjá okkur öllum á ákveðnum æviskeiðum og af tilteknum ástæðum.
Konur eru kvíðnari á öllum aldri.
Kvíði er ámóta algengur í öllum aldurshópum en er nærri tvöfalt algengari hjá konum en körlum.
Ung börn óttast ókunnuga og að vera skilin eftir ein. Á unglingsárum kemur að því að losa tengslin við foreldrana og þá tekur við ótti við útilokun úr vinahópnum. Síðar á ævinni eru heilbrigði, efnahagur og öryggi algengustu kvíðavaldarnir.
Það er líka fyllilega eðlilegt og yfirleitt líka hollt að finna stundum fyrir kvíða og áhyggjum þegar við sjáum t.d. fréttir af hryðjuverkum.
En ef kvíðinn bítur sig fastan og þú óttast það daglega að verða fórnarlamb hryðjuverka, þá gæti verið um að ræða það fyrirbrigði sem læknar eru farnir að kalla alhæfðan kvíða.
LESTU EINNIG
Ljós kveikir og slekkur á kvíða
Möndlungurinn er í rauninni tvö lítil svæði mjög djúpt í gagnaugablöðunum og þessar heilastöðvar gegna algeru lykilhlutverki varðandi meðhöndlun heilans á ótta.
Möndlungurinn fæst við tilfinningaviðbrögð varðandi skynhrif og boð frá innri líffærum og gangsetur svonefnd „flýja-berjast-viðbrögð“ sem setja líkamann á svipstundu í viðbragðsstöðu.
Rannsóknir hafa sýnt að þegar fólk verður fyrir óttavekjandi örvun eykst virkni í möndlungnum en hjá sjúklingum með kvíðaröskun verður virknin enn meiri en hjá heilbrigðu fólki.
Á hinn bóginn bregðast bæði menn og dýr, með skaddaðan möndlung, ekki eðlilega við hættu, heldur sýna t.d. forvitni gagnvart slöngum í stað þess að forðast þær.
Veirur bólusetja heilann við kvíða
Vísindamenn hafa tekið erfðabreytta veiru og látið hana taka sér bólfestu í heilafrumum sem þá taka að mynda efni sem dregur niður í möndlungnum, sjálfri miðstöð kvíðans. Aðferðin hefur reynst vel í öpum og vísindamennirnir gera sér vonir um að með þessu móti megi í framtíðinni bólusetja fólk við kvíða.
Veira fær heilann til að mynda boðefni
Eitt gen (blátt) sem kóðar fyrir boðsameindinni NTF3 er sett í alveg skaðlausa veiru (gul). Veirunni er sprautað inn í möndlunginn þar sem hún kemst inn í frumur og kemur þeim til að framleiða mikið magn þessa boðefnis.
Hamlandi taugafrumur virkjast í möndlungnum
NTF3-sameindirnar berast frá frumunum og binda sig við viðtaka sem nefnast NTRK3 á tiltekinni gerð taugafrumna. Þessar frumur hafa hamlandi áhrif á virkni möndlungsins.
Nýtt netverk dregur úr kvíða
Binding boðefnisins við viðtakana kemur taugafrumunum til að vaxa og mynda nýjar tengingar. Þannig myndast net taugafrumna sem vinna saman að því að draga úr virkni í möndlungnum og draga þar með úr kvíðanum.
Meðal fyrstu vísindamanna til að setja fram skjalfestar sannanir fyrir afgerandi hlutverki möndlungsins í kvíðatilfinningum var taugasérfræðingurinn Kay Tye hjá Stanfordháskóla í Kaliforníu.
Árið 2011 nýtti hún háþróaða tækni til að græða tvö mismunandi gen í taugafrumur í neðsta hluta möndlungsins í músum. Genin kóðuðu fyrir tveimur ljósnæmum prótínum.
Tye kom hárfínum ljósleiðaratrefjum fyrir í heila músanna og gat með þeim hætti stýrt virkni taugaboða. Blátt ljós kveikti á boðunum en gult ljós slökkti.
Tilraunirnar sýndu að þegar möndlungurinn var virkjaður sýndu mýsnar dæmigerð óttaviðbrögð og leituðust við að koma sér burt frá opnum svæðum í búrinu.
Á hinn bóginn virtist kvíðastingurinn gufa samstundis upp þegar gula ljósið slökkti á virkni möndlungsins. Þá voguðu mýsnar sér aftur út á opnari svæði.
Slöngur vekja eðlislægan ótta
Sú háþróaða tækni sem Kay Tye notaði til að stýra virkni möndlungsins og þar með kvíðatilfinningum sýnir í öllum meginatriðum það sama og gerist í heilanum við náttúrulegar aðstæður.
Litað ljós kemur hér einungis í staðinn fyrir taugabrautir frá öðrum heilasvæðum, svæðum sem annað hvort auka eða dempa virkni í möndlungnum.
Þessi heilasvæði eru í ennisblöðunum sem hýsa hæfnina til að hugsa, greina og gera áætlanir.
Með nokkurri einföldun má segja að möndlungurinn sé uppspretta hins skyndilega og stjórnlausa ótta en vitsmunastöðvar heilans reyni á móti að stilla kvíðatilfinninguna rétt þannig að hún verði í samræmi við aðstæður og fyrri reynslu.
Tilraunir sýna að óttinn kviknar í heilastöðinni möndlungnum. Með því að græða ljósnæm gen í mýs gátu vísindamenn kveikt og slökkt á virkni í möndlungnum og um leið óttatilfinningu dýranna.
Ásýnd slöngu vekur flestu fólki nánast eðlislæga óttatilfinningu en þar sem slíkar skepnur er að sjá í náttúrunni á annað borð eru flestir fljótir að átta sig á því hvort skepnan er vel þekkt og skaðlaus.
Þá þekkingu notar heilastöðin vmPFC í neðri hluta ennisblaðsins til að senda róandi boð til möndlungsins og þau boð binda enda á óttatilfinninguna. Heilastöðin ACC virkar þveröfugt, þaðan berast boð sem styrkja virkni í möndlungnum.
Skyldir þú nú hafa þekkingu á slöngum og vita að ástralska brotnaðran er eitraðasta slanga heims, verður ásýnd slíkrar slöngu að líkindum til þess að ACC-stöðin sendir örvandi boð til möndlungsins og um leið styrkjast hin fyrstu eðlislægu óttaviðbrögð.
Ótta- eða kvíðatilfinning stýrist sem sagt af heilu netverki taugaboða milli möndlungsins, vmPFC og ACC og sjúklegur kvíði getur því orðið til á margvíslegan hátt sem afleiðing afvegaleiddrar virkni í einhverri af þessum heilastöðvum.
Ítalski geðlæknirinn Paolo Brambilla hjá Mílanóháskóla fór árið 2019 í gegnum allmargar vísindagreinar eftir aðra vísindamenn sem höfðu nýtt sér mismunandi skönnunaraðferðir í þeim tilgangi að bera saman heila heilbrigðra einstaklinga og einstaklinga með alhæfðan kvíða.
Niðurstöður þessara alls 89 rannsókna reyndust eiga það sameiginlegt að hjá kvíðasjúklingunum voru báðar kvíðaaukandi heilastöðvarnar, möndlungurinn og ACC, stærri en hjá hinum heilbrigðu og jafnframt var hin kvíðadempandi heilastöð vmPFC bæði smærri og sýndi minni virkni.
Hræddir apar bólusettir
Stærð og þroski tiltekinna heilastöðva ásamt virkni þeirra ráða sem sagt miklu um það hversu auðveldlega við fyllumst kvíða.
Taugasálfræðingurinn Andrew Fox hjá Kaliforníuháskóla í Davis nýtti sér þetta í tilraun árið 2019 en þá má segja að hann hafi bólusett apa þannig að þeir hættu að finna til ótta
Óttinn á sér mörg andlit
Þetta merkilega fyrirbrigði sem við köllum kvíða eða ótta eftir atvikum, nær yfir allt frá fælni, þar sem orsök ógnarinnar er fólgin í tilteknum aðstæðum ofsahræðslu og síðbúinnar áfallastreituröskunar en í þeim tilvikum getur óttatilfinningin valdið skyndilegum hjartslætti, svitakasti og aðsvifstilfinningu. Þetta getur gerst fyrirvaralaust og jafnast á við fötlun. Læknar greina milli fimm gerða ótta og kvíða:
Alhæfður kvíði
- Orsök: Alltaf til staðar.
- Einkenni: Óeðlilega miklar áhyggjur og kvíði vegna atriða á borð við heilbrigði, öryggi, efnahag o.s.frv.
- Útbreiðsla: Um 2% fólks, tvöfalt fleiri konur en karlar. Verður oft fyrst vart á þrítugsaldri.
- Algeng meðferð: Samtalsmeðferð.
Fælni
- Orsök: Ákveðnar aðstæður.
- Einkenni: Skyndilegur ótti við tiltekin atriði. Hér flokkast t.d. loft- og flughræðsla, innilokunarkennd, ótti við nálar eða jafnvel trúða.
- Útbreiðsla: Um 15% fólks. Verður oft fyrst vart á unglingsárum.
- Algeng meðferð: Ímyndar- og skynjunarmeðferð, t.d. í sýndarveruleika. Fólk er látið ná valdi á óttanum í hægum skrefum.
Félagsfælni
- Orsök: Félagsskapur annarra.
- Einkenni: Sjúkleg feimni og ótti við ranga hegðun og gagnrýni.
- Útbreiðsla: Um 5% fólks, einkum konur. Verður oft fyrst vart á unglingsárum.
- Algeng meðferð: Kvíðastillandi og þunglyndislyf.
Ofsahræðsla
- Orsök: Kemur skyndilega.
- Einkenni: Skyndilegur ótti. Órökstudd hræðsla við að eitthvað hræðilegt sé yfirvofandi.
- Útbreiðsla: Um 5% fólks, einkum konur. Verður oft fyrst vart á þrítugsaldri.
- Algeng meðferð: Samtalsmeðferð.
Áfallastreituröskun
- Orsök: Minningar úr fortíð.
- Einkenni: Skyndileg endurupplifun mikils áfalls, t.d. nauðgunar, árásar eða slyss.
- Útbreiðsla: Um 1% fólks en 10-30% fórnarlamba nauðgana eða líkamsárása og fyrrum hermanna sem tekið hafa þátt í stríði.
- Algeng meðferð: Kvíðastillandi og þunglyndislyf og samtalsmeðferð.
Andrew Fox byrjaði á því að valda 46 ungum resusöpum óttatilfinningu með því að láta fólk fara inn í búr þeirra án þess að aparnir fengju að ná augnsambandi við viðkomandi.
Kvíðaviðbrögð hvers og eins voru metin og Fox notaði síðan ýmsar lífefnafræðilegar aðferðir til að finna út til hvaða gena mætti rekja viðbragðavirkni í möndlungnum.
Eitt þessara gena var NTF3 sem kóðar fyrir boðefni. Því virkara sem þetta gen var í möndlungnum, því líklegra var að apinn héldi ró sinni við kvíðvænlegar aðstæður.
Andrew Fox kom þessu geni fyrir í skaðlausri veiru og sprautaði henni inn í möndlunginn í heila fimm af tíu öpum sem allir höfðu sýnt sams konar og miðlungssterk óttaviðbrögð.
Aðferðin samsvarar þeim sem notaðar eru við tilraunabóluefni, bæði DNA- og RNA-bóluefni, t.d. gegn Covid-19.
Í þessu tilviki var hugmyndin sú að veiran kæmist inn í taugafrumur í möndlungnum og koma þeim til að framleiða mikið af boðefninu, rétt eins og gerðist í þeim öpum sem í fyrstu tilrauninni höfðu sýnt minnst óttamerki.
Þegar síðan var farið inn í klefa apanna án þess að þeir næðu augnsambandi við viðkomandi, sýndu bólusettu aparnir fimm mun minni kvíðamerki en þeir fimm sem ekki voru bólusettir.
Enn vita Andrew Fox og samstarfsmenn hans ekki með vissu hvernig NTF3 heldur kvíðanum í skefjum en þeim þykir sennilegast að boðefnið örvi myndun tauganetverks frumna sem dempi virkni í möndlungnum.
Þetta á nú að rannsaka nánar og vonir standa til að þessi aðferð geti orðið upphafið að alveg nýrri aðferð til að meðhöndla og fyrirbyggja sjúklegan kvíða í fólki.
„NTF3 er fyrsta sameindin sem hefur reynst sýna orsakasamband við kvíða í öpum. Slíkar sameindir gætu þó skipt hundruðum eða jafnvel þúsundum,“ segir Andrew Fox.
Fælni er ótti við eitthvað ákveðið, t.d. mikla hæð, opin svæði, flug, nálar – eða jafnvel trúða.
Misnotkun breytir barnsheila
Eitt af þeim óttaviðbrögðum sem rannsakað hefur verið af gríðarmiklum ákafa er svonefnd „áfallastreituröskun“ eða „Post-traumatic stress disorder“, skammstafað PTSD. Þessi gerð kvíðakasta felur í sér að fólk endurlifir skelfinguna sem fylgdi tilteknum atburði aftur og aftur.
Í langflestum tilvikum geta læknar og sálfræðingar komist að því nákvæmlega hvaða atburður það var sem var undirrótin að þessari sjúklegu röskun.
Algengustu fórnarlömb þeirra eftirkasta áfalla sem kallast PTSD eru fyrrum hermenn sem hafa orðið vitni að skelfilegum atburðum á vígvelli og svo börn sem hafa orðið fyrir misþyrmingum eða alvarlegri misnotkun.
Í yfirlitsgrein frá á árinu 2020 lýsti barnageðlæknirinn Charlotte Cecil hjá Ersamus-læknisfræðistofnuninni í Rotterdam hvernig kynferðisleg misnotkun getur breytt genum barna, þannig að heilinn tekur að hegða sér óeðlilega og það ástand verður viðvarandi.
Einkum eru breytingar í tveimur genum vel skjalfestar, NR3C1 og SLC6A4. Bæði genin eiga þátt í samskiptum taugafrumna, m.a. í möndlungnum, með boðefninu serótóníni.
Kynferðisleg misneyting gangsetur lífefnaferli í taugafrumunum og í ferlinu tengjast tilteknar sameindir, svonefndar metylsameindir, þessum tveimur genum.
Þetta breytir ekki hlutverki genanna en virkni þeirra verður óeðlilega lítil og sú breyting helst til frambúðar.
Þetta merkir að líkindum að serótónín getur ekki lengur haldið uppi samskiptum milli taugafrumna í möndlungnum og það gæti verið orsök þess að allt að þriðja hvert barn sem orðið hefur fyrir kynferðislegri misneytingu, þróar með sér PTSD.
Nýjar lukkupillur laga genagalla
Það þykir styrkja þessa kenningu að flestar gerðir ótta og kvíða einkennast einmitt af slakri virkni serótóníns, m.a. í möndlungnum.
Þau lyf sem mest eru notuð við kvíða eru svonefnd SSRI-lyf eða „lukkupillur“ og verkun þessara lyfja felst einmitt í því að endurvekja hæfni taugafrumna til boðskipta með serótóníni.
Meðferð virkar lítið betur en lyfleysa
Stór kvíðarannsókn sýnir að samtalsmeðferð hefur örlítið betri áhrif en meðferð með lyfleysu. Meðferðaráhrifin eru þó misjöfn eftir því um hvers konar kvíða er að ræða.
En nú kynnu börn sem þjást af PTSD eftir misneytingu, kannski geta fengið meðferð sem upprætir ástæðuna fyrir þessum sjúkleika.
Árið 2017 sýndu kínverskir vísindamenn hjá Xi‘an Jioatongháskóla fram á að unnt væri að fjarlægja metylsameindirnar úr erfðaefni í heilanum og fá genin þannig til að virka eðlilega á ný.
Vísindamennirnir notuðu efnið 5-Aza-dc sem vitað er að byggir sig inn í litningana og kemur í veg fyrir að metylsameindir nái fótfestu.
Niðurstöður þessarar tilraunar bentu til að efnið fjarlægði af NTF3-geninu þær metylsameindir sem höfðu orsakað kvíða í músum sem gerðar höfðu verið að áfengissjúklingum.
Vísindamenn láta sig nú dreyma um að með ísprautun þessa efnis verði líka unnt að fjarlægja metylsameindir af þeim tveimur genum sem orðið hafa fyrir áhrifum í börnum eftir kynferðislega misneytingu.
Verði sá draumur að veruleika gæti þetta orðið sú meðferð sem í eitt skipti fyrir öll læknar börnin af PTSD (áfallastreituröskun).
Vísindamenn vita enn ekki hvers vegna æ fleiri þjást af ýmis konar kvíðaröskunum en aftur á móti eru óttavirknikerfi heilans orðin nægilega vel þekkt til að hægt sé að beita meðferð sem hrífur.
Og eftir nokkur ár til viðbótar gætu erfðabreytt efni og bóluefni kannski loksins sannfært heilann um að í rauninni sé óþarfi að hafa mjög miklar áhyggjur í heimi sem orðinn er svo miklu öruggari en fyrrum.