Víðs vegar í heiminum vex tiltekinn hópur barna upp fyrir jafnaldra sína og vinnur upp hæðarmismuninn sem áður ríkti milli borgar- og sveitabarna.
Sveiflur í hæð barna víðs vegar um heiminn sæta furðu.
Þannig hljóða niðurstöður víðtækrar alheimsrannsóknar á rösklega 71 milljón barna frá nánast öllum heimshlutum.
Rannsóknin birtist í tímaritinu Nature en hún leiðir í ljós að börn og unglingar á aldrinum 5 til 19 ára stækka að meðaltali meira í sveitahéruðum en við á um borgarbörnin.
Hlutföllin hafa til þessa verið þveröfug. Þróunin hefur svo snúist við á undanförnum árum og hæðarmunurinn á börnum til sveita og í borgum hefur jafnast út, segja rösklega 1.500 vísindamenn víðs vegar að úr heiminum sem hafa sameinast um að vinna úr gagnasafninu.
Tilhneigingin er einstaklega greinileg í ríku löndunum, segja vísindamennirnir sem benda á lönd á borð við Bandaríkin, Bretland og Frakkland sem dæmi.
Árið 1990 voru borgarbörn að meðaltali hærri en börn til sveita, þó svo að munurinn hafi verið óverulegur í flestum löndum með háar meðaltekjur.
Þegar við hins vegar lítum fram til ársins 2020 höfðu bæði sveita- og borgarbörnin hækkað á heildina litið. Í sumum löndum hafði hæðarmismunurinn jafnast út en í mörgum löndum voru sveitabörnin jafnvel orðin hærri en jafnaldrar þeirra í borgum.
Sum lönd dragast aftur úr
Vísindamenn eiga raunar í mesta basli með að svara grundvallarspurningunni á ótvíræðan hátt, þ.e. hver er skýringin?
Fram til þessa hefur lífið í stærri borgum verið tengt við bætta heilsu vegna greiðari aðgangs að heilbrigðisþjónustu, menntun og betri næringu.
Hluti af skýringunni á ofangreindri umbreytingu kann að vera sá að heilsufari borgarbúa hafi farið hrakandi á undanförnum árum eða þá að heilsa meðal íbúa til sveita hafi farið batnandi.
Hæðarlínurit barna á heimsvísu
- Hæðarmunur á börnum hefur orðið ógreinilegri meðal barna í borgum og sveitahéruðum í löndum Mið- og Austur-Evrópu (Króatíu), Suður-Ameríku (Argentínu, Brasilíu, Síle og Paragvæ), Austur- og Suðaustur-Asíu (Tævan) og meðal stúlkubarna í Mið-Asíu (Kasakstan og Úsbekistan), þar sem börn til sveita hafa náð jafnöldrum sínum í borgum hvað hæðina snertir.
- Í Kína, Rúmeníu og Víetnam er hæðarmismunur milli borga og sveitasvæða á undanhaldi en börn í borgum voru engu að síður hærri en jafnaldrar þeirra í sveitum þessara landa árið 2020. Munurinn var á bilinu 1,7 til 2,5 sentímetrar, borgarbörnum í vil.
- Í austurafrískum löndum í líkingu við Eþíópíu, Rúanda og Úganda stækkuðu drengir í borgum umfram jafnaldra þeirra til sveita og nam munurinn um einum sentímetra. Hæðarmismunurinn breyttist nánast ekkert hvað stúlkur sunnan Sahara í Afríku snerti, svo og stúlkur í suðurhluta Asíu.
Önnur hugsanleg skýring kann að vera sú að fleiri hafi flust búferlum til borganna og að þessi staðreynd hafi jafnað út heilbrigðismismun milli borga og sveita. Vísindamenn leggja ekki mikinn trúnað við þessa tilgátu.
Þó svo að tilhneigingin virðist eiga við víða í heiminum er samt sem áður um nokkurn ójöfnuð að ræða í sumum löndum, segja vísindamennirnir. Þeir benda sérstaklega á svæði á borð við Afríku sunnan Sahara, Suður-Asíu, Kyrrahafssvæðið og Miðausturlönd, þar sem börn til sveita hafi ekki nálgast borgarbörnin hvað hæð snertir, heldur hafi munurinn milli þeirra sums staðar aukist.
Rannsóknin byggir á gögnum úr alls 2.325 lýðrannsóknum sem gerðar voru á árunum milli 1990 og 2020 og sem taka til alls 200 þjóðlanda og landsvæða. Vísindamennirnir hafa bæði rannsakað hæð barnanna og þyngdarstuðul þeirra í því skyni að gera sér mynd af vexti þeirra og þroska.