Breskir vísindamenn segja öndunaræfingar geta bætt geislameðferð gegn krabbameini. Ástæðan er einföld: því kyrrari sem sjúklingurinn er því nákvæmari verður geislunin.
Geislameðferð gengur þannig fyrir sig að sjúklingurinn liggur í hraðli sem beinir geisluninni mjög nákvæmlega að æxlinu inni í líkamanum.
Tryggir nákvæma geislameðferð
Með því að beina geislun að æxlinu frá mörgum stöðum tryggja læknarnir að krabbafrumurnar fái sem mesta geislun en frískar frumur í nágrenni æxlisins sem minnstan skammt.
Þetta er því aðeins unnt að sjúklingurinn liggi alveg kyrr, einkum þó ef æxlið er í brjósti eða kviðarholi. Það er þess vegna kostur ef sjúklingurinn getur haldið niðri í sér andanum í langan tíma í einu.
Geislarnir gegn krabbaæxli verða mun nákvæmari ef sjúklingurinn heldur niðri í sér andanum.
Vísindamenn hjá Birminghamháskóla í Englandi rannsökuðu hve hratt er hægt að þjálfa fólk í að halda lengi niðri í sér andanum.
30 sjálfboðaliðar af báðum kynjum voru látnir gera öndunaræfingar og fengu síðan súrefnisríkt loft í fáeinar mínútur.
Þátttakendur héldu niðri í sér andanum í sex mínútur
Að lokum var fólkið beðið að anda mjög hratt til að hreinsa sem mest af koltvísýringi úr blóðinu. Strax eftir eins dags þjálfun gat fólk haldið niðri í sér andanum í sex mínútur og eftir nokkra viðbótardaga var fólkið fært um að endurtaka þetta með stuttu millibili.
Niðurstöðurnar sýndu að með góðri þjálfun er unnt að halda niðri í sér andanum í samtals 41 mínútu á einni klukkustund.
Þetta telja vísindamennirnir duga til að bæta geislameðferðina svo mikið að það sé ómaksins virði að prófa aðferðina í klínískri tilraun.