Þegar krabbasjúklingar ljúka efnameðferð fá þeir yfirleitt ekki samstundis yfirlýsingu um fullan bata, þótt æxlið sjáist ekki lengur á myndum.
Sjúklingar þurfa í kjölfarið að mæta í reglubundið eftirlit til að tryggja að sjúkdómurinn taki sig ekki skyndilega upp aftur – einkum ef krabbinn hefur verið í blöðru, eitlum eða eggjastokkum.
Vísindamenn hafa lengi vitað að sumar gerðir krabbafrumna geta lagst í eins konar dvala og meinið þannig dulist árum saman áður en það birtist skyndilega aftur.
Nú hefur nýleg rannsókn leitt í ljós að eitt tiltekið einkenni á dvalarhæfninni er sameiginlegt með öllum krabbafrumum.
Uppgötvunin vekur vonir um eina samhæfða lækningaaðferð – án tillitis til gerðar krabbameinsins – sem geti útrýmt meininu í heilu lagi og í eitt skipti fyrir öll.
Tímalína: Svona myndast krabbamein
Fruma breytist
Fruman getur allt í einu farið að skipta sér óeðlilega hratt og hlýðir ekki eðlilegum vaxtarmerkjum.
Fruman verður hömlulaus
Fruman lagar ekki galla (stökkbreytingar) í genunum, sem þýðir aukna hættu á að hættulegar stökkbreytingar geti átt sér stað.
Fruman verður ódauðleg
Stökkbreyting gerir frumuna ódauðlega þ.a. líkaminn getur ekki drepið hana. Hinar stökkbreyttu frumur er nú orðnar að æxli.
Æðar myndast
Æxlið byggir nýjar æðar til að tryggja súrefnisflæði til meinsins svo það geti haldið áfram að vaxa.
Ráðast á líkamann
Krabbafrumur frá æxlinu ferðast með æðakerfinu um líkamann þar sem þær ráðast á ný líffæri og mynda meinvörp.
Krabbinn sefur eins og björn í hýði
Vísindamennirnir segja að líkja megi dvalarástandi krabbameins við eiginleika meira en 100 tegunda spendýra, svo sem bjarna, sela og músa sem eru færar um að framlengja meðgöngu.
Í þessari framlengingu fær fóstrið sína takmörkuðu næringu úr eins konar sjálfsáti en frumurnar brjóta niður sín eigin prótín sér til næringar.
Í þessari nýju rannsókn meðhöndluðu heilasérfræðingar hjá Torontoháskóla fjölmargar krabbafrumur úr ristilkrabbameini í petriskál.
Meðan á meðferðinni stóð stöðvuðu frumurnar alla þróun og þurftu sáralitla næringu. Krabbinn lagðist þannig eiginlega í dvala líkt og björn í vetrarhýði.
Þetta verður að teljast nokkuð snjöll aðferð þar eð efnameðferð ræðst einungis á þær frumur sem eru í vexti og skipta sér hratt en óvirkar frumur eru látnar í friði.
En með því að bæta einni tiltekinni sameind í krabbafrumu tókst vísindamönnunum að koma í veg fyrir dvalann. Og þá drap efnameðferðin strax allar krabbafrumur í skálinni.
Krabbafrumur vaktar af dvalanum
Rannsóknir á sjálfsáti eru nú álitnar meðal skærustu vonarstjarnanna í krabbmeinsrannsóknum framtíðarinnar.
Nýju niðurstöðurnar sýna að allar krabbafrumur eru færar um að éta sjálfar sig. Að öllu samanteknu veitir sú þekking mögulega alveg nýtt vopn í baráttunni við krabbamein.
Það sem nú þarf að gera er m.a. að yfirfæra nýju aðferðina þannig að hún nýtist í örugga og áhrifaríka meðferð sem afvirkjar dvalarástandið og vekur frumurnar þannig að hver einasta krabbafruma verði móttækileg fyrir efnameðferðinni.