Endalok sprengistjörnu (Supernova) eru meðal kraftmestu fyrirbrigða sem við þekkjum.
Þegar stjarna hefur brennt upp öllum vetnisbirgðum sínum, skortir hana afl til að hamla gegn eigin þyngd. Hún fellur þess vegna saman og springur síðan. Sprengingin losar ofboðslega orku.
Eftir sprenginguna er aðeins kjarni stjörnunnar eftir og hann ummyndast annað hvort í tifstjörnu eða svarthol. Annar efnismassi stjörnunnar þeytist út í geiminn og myndar gríðarlegt ryk- og gasský.
Sprengingin getur verið svo öflug að hún lýsi upp heila stjörnuþoku. Einkum eru það sprengingar svonefndra heitkjarna-sprengistjarna sem eru öflugar og eyðileggjandi. Það hefur alla vega verið álit stjörnufræðinga – þar til nú.
Sprengistjarnan SN 2012Z fannst í stjörnuþokunni NGC 1309 árið 2012.
Stjarnan sem lifði af sprenginuna
Hópur stjörnufræðinga hafði beðið spenntur eftir gögnum Hubble-sjónaukans frá sprengingu heitsprengistjörnunnar SN 2012Z en þegar gögnin birtust í tölvum stjörnufræðinganna urðu þeir alveg forviða.
Stjarnan reyndist hafa lifað sprenginguna af og nú lýsti hún meira að segja bjartar en fyrir sprenginguna.
„Við áttum von á að sjá annað hvort af tvennu, þegar við fengum síðustu gögnin frá Hubble,“ segir stjarneðlisfræðingurinn Curtis McCully. „Annað hvort yrði stjarnan horfin eða hún væri enn á sínum stað sem hefði þýtt að hún hefði ekki sprungið, heldur einhver önnur stjarna. Engum datt í hug að við myndum sjá stjörnu sem hefði lifað af og væri nú orðin ljóssterkari en fyrr. Þetta var afar torleyst ráðgáta.“
Heitkjarna-sprengistjörnur nefnast líka sprengistjörnur af gerð 1a og teljast til mikilvægustu viðmiða við fjarlægðarútreikninga í geimnum. Stjarneðlisfræðingar vita þó ekki með vissu hvað veldur því að þessar heitkjarnastjörnur springa. Menn eru þó sammála um að þetta séu hvítar dvergstjörnur, á stærð við jörðina en með massa á við sólina og þær eyðist í sprengingunni.
Til vinstri: Litmynd af stjörnuþokunni NGC 1309 fyrir sprengingu stjörnunnar 2012Z. Efsta miðmynd: SN 2012Z fyrir sprenginguna árið 2012. Efst til hægri: SN 2012Z árið 2013 við sprenginguna. Neðri miðmynd: SN 2012Z árið 2016 hefur lifað af. Neðst til hægri: SN 2012Z skín skærar en fyrir sprenginguna.
,,Misheppnuð sprengistjarna”
Ein kenningin er sú að heitkjarnastjörnur sogi til sín efni frá móðurstjörnu sinni og þegar hún verður of þung leiði hitavirkni í kjarnanum til sprengingar.
SN 2012Z telst til undirflokksins 1ax en þær stjörnur eru veikbyggðari en stjörnur af gerð 1a sem líka eru algengari.
Þar eð þessar stjörnur eru kraftminni og sprengingin hægari, hafa vísindamenn velt fyrir sér hvort þetta geti verið einhvers konar „misheppnaðar“ sprengistjörnur. Sú tilgáta gæti nú hafa verið staðfest.
Stjörnufræðingarnir álíta að ástæða þess að stjarnan er nú bjartari en áður sé sú að hún sé orðin þéttari. Þar eð sprengingin var ekki nógu öflug til að þeyta öllu efni burtu hefur hluti þess sogast aftur inn að stjörnunni.
Með tímanum vænta stjörnufræðingarnir þess að stjarnan muni smám saman komast aftur í fyrra ástand en verði þó stærri um sig og jafnframt massaminni. Þótt það virðist mótsagnakennt verða hvítir dvergar því stærri um sig sem efnismassinn er minni.
Eftir þessa uppgötvun munu stjörnufræðingar þurfa að endurskilgreina skilning sinn á sprengistjörnu og ástæður þess að þær springa eða gera það ekki.