Tímatalið sem við notum í dag er vonlausar leifar frá miðöldum.
Vinnuveitendur og endurskoðendur bölva reglulega yfir einkennilegri og órökréttri uppbyggingu gamla tímatalsins sem krefst sífelldra leiðréttinga á vinnuskipulagi, svo og reikningsskilum.
Nú hafa stjarneðlisfræðingurinn Richard Henry og hagfræðingurinn Steve Hanke, við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum, í hyggju að kynna til sögunnar hentugt tímatal sem kemur reglu á óregluna og sparar milljarða á heimsvísu.
Nýja tímatalið hefst ætíð á mánudegi og allir ársfjórðungar verða nákvæmlega jafnlangir.
Ef draumur þeirra rætist getum við séð fram á rökréttari uppbyggingu áranna sem muni endurtaka sig í það óendanlega.
Tvímenningar byggja upp rökrétt ár
Nýja tímatalið byggir líkt og hið gamla á tólf mánuðum og 52 vikum sem hver telur sjö daga. En í því skyni að hefja megi hvert ár á mánudegi og enda á sunnudegi hefur eðlilega verið þörf fyrir að láta dagafjölda ársins vera deilanlegan með tölunni sjö.
Aukalegur örmánuður fær tímatalið til að ganga upp
Eigi tímatalið að passa við gang jarðar kringum sólu hafa vísindamennirnir bætt inn hlaupársviku sem meira að segja hlýtur eigið mánaðarheiti, Xtr. Hlaupársvikan bætist við á fimm eða sex ára fresti.
Vísindamennirnir hafa því stytt árið niður í 364 daga, andstætt við þá 365 sem við höfum vanist í tímatalinu okkar. Jörðin er að meðaltali 365,24 daga á göngu sinni umhverfis sólu og fyrir vikið hafa vísindamennirnir neyðst til að bæta fleiri dögum á tímatalið.
Að öðrum kosti myndi dagatalsárið smám saman hliðrast sífellt meira miðað við árstíðirnar og aðfangadagskvöld að lokum bera upp á mitt sumar. Lausn tvímenninganna er fólgin í hlaupársviku sem skotið verður inn fimmta til sjötta hvert ár.
Með því að bæta inn heilli viku segjast vísindamennirnir geta tryggt að lengd ársins verði ætíð deilanleg með sjö.
Hanke og Henry hafa enn fremur ákvarðað lengd einstakra mánaða á þann veg að skipta megi árinu í fjóra jafnlanga ársfjórðunga sem hver feli í sér 30 daga, þó einn með 31 dag.
Þeir Henry og Hanke segja að þessi reglulega uppbygging muni auðvelda reikningsskil fyrirtækja, svo og aðra efnahagsútreikninga.
Ójafnir ársfjórðungar tímatalsins, eins og við þekkjum, þvinga nefnilega hagfræðinga til að vera með óhentugar klasturslausnir sem skaða allt samfélagið í raun.
Nýtt tímatal væri gulls ígildi
Útreikningar á vöxtum af lánum og arði af hlutabréfum eru í dag einfaldaðir með því að gera ráð fyrir að allir mánuðir samanstandi af 30 dögum.
Þessi einföldun gerir útreikninginn hins vegar ónákvæman og stöðugar skekkjurnar geta orðið dýrkeyptar fyrir ríki, fyrirtæki og einstaka þegna samfélagsins.
Afmælisdagurinn verður ætíð á þriðjudegi
Í framtíðinni eiga öll ár að verða eins, ef marka má bandarísku vísindamennina Richard Henry og Steve Hanke sem gert hafa tillögu um nýtt, rökrétt tímatal þar sem hver dagsetning lendir ætíð á sama vikudegi ár eftir ár. Þeir sem eiga afmæli þann 21. ágúst, svo dæmi sé tekið, myndu því eiga afmæli á þriðjudegi það sem þeir eiga ólifað.
Vísindamennirnir benda hins vegar á að fólki sé vitaskuld heimilt að halda upp á afmæli sitt hvenær sem hverjum og einum hentar og þeir vonast til að þeim muni fyrirgefast leiðinlegir afmælisdagar þegar gífurlegur fjárhagslegur ávinningurinn er hafður í huga.
Vísindamennirnir tveir, sem eru sérfræðingar á sviði stjörnufræði og hagfræði, hafa varið mörgum árum í útreikning á þessu nýja, betrumbætta tímatali sem álitið er að myndi spara samfélaginu rösklega hundrað milljarða Bandaríkjadala í Bandaríkjunum einum.
Tímatalið sem við notum í dag hafði alvarlegar afleiðingar á hlutabréfamarkaði árið 2012, þegar í ljós kom að verðið á hlutabréfum í rafeindarisanum Apple hafði lækkað um tíu af hundraði miðað við ársfjórðungsuppgjör ársins á undan.
Þennan gífurlega tekjumun mátti hins vegar alfarið rekja til þess að ársfjórðungurinn 2011 hafði verið einni viku lengri en ársfjórðungurinn 2012. Þessari aukalegu viku hafði verið skotið inn í reikningsárið 2011 til að leiðrétta hliðrun í tímatalinu.
Nýja tímatalið sem Hanke og Henry vilja innleiða skiptir árinu í jafna hluta sem gerir kleift að framkvæma einfalda útreikninga villulaust.
Tvímenningarnir sjá fyrir sér ár sem verður auðveldara í allri skipulagningu. Gamla tímatalið krefst þess að við verjum miklum tíma og mikilli orku ár hvert í skipulagningu vinnuáætlana.
Skólastjórar þurfa t.d. að leggja sig alla fram ár hvert til að flókið samspil prófa, námsáætlana og frídaga gangi upp. Ef öll ár verða eins verður hins vegar unnt að leysa þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll.
Árin okkar stafa frá fornöld
Í rás tímans hafa verið gerðar margar tilraunir til að endurbæta tímatalið og allar umbæturnar hafa byggt á ósk um að gera öll árin eins.
Tímatalið sem við þekkjum og notum hefur hins vegar verið svo fastmótað og vinsælt að engin leið hefur verið að losa sig við það. Fyrir vikið sitjum við uppi með tímatal sem er orðið rösklega 2.000 ára gamalt en það fylgir enn að miklu leyti tímaútreikningi sem rómverski keisarinn Júlíus Sesar innleiddi árið 45 fyrir Krist.
Núverandi ringulreið sem einkennist af tímabeltum, sumartíma og sveiflum í tímatalinu, ár eftir ár, verður upprætt í eitt skipti fyrir öll.
Steve Hanke og Richard Henry // Vísindamennirnir að baki nýja tímatalinu
Upphaflega fylgdi tímatal Rómverja kvartilaskiptum og árið fól aðeins í sér 355 dægur. Þetta stutta almanaksár var hins vegar fljótt komið á skjön við árstíðirnar og verulegra breytinga varð þörf. Árið 46 fyrir Krist, ári áður en tímatal Sesars tók gildi, bætti keisarinn inn 67 hlaupársdögum til að rétta árið af áður en nýja kerfið hans öðlaðist gildi.
Í júlíanska tímatalinu öðluðust mánuðirnir þann dagafjölda sem stuðst er við í dag og fjórða hvert ár fékk aukalegan hlaupársdag. Þrátt fyrir að útreikningurinn á lengd ársins væri ótrúlega nákvæmur komst engu að síður ruglingur á tímatal Sesars þegar frá leið.
Árin voru að meðaltali ellefu mínútum of löng og þetta leiddi af sér að árið hafði hliðrast sem nam einum degi á 128 ára fresti, miðað við gang jarðar umhverfis sólu.
Gregoríus 13. páfi uppfærði tímatalskerfið árið 1582 og útkoman varð það tímatal sem við þekkjum í dag. Í gregoríanska tímatalinu er ekki hlaupár þau ár sem eru deilanleg með 100 en hins vegar er hlaupár sé ártalið deilanlegt með 400.
Árið 2000 var fyrir vikið hlaupár en hins vegar verður ekki hlaupár árið 2100, ef við þá höfum ekki skipt yfir í Hanke-Henry tímatalið fyrir þann tíma.
Þrátt fyrir breytinguna skeikar gregoríanska tímatalinu enn frá sólárinu sem nemur þremur dægrum á tíu þúsund ára fresti og fyrir vikið mun aftur verða skekkja í tímatalinu.
Tímatal getur orðið að veruleika
Henry og Hanke eru alls ekki þeir fyrstu sem gert hafa tillögu um nýtt, endurbætt tímatal. Árið 1930 hóf Bandaríkjakonan Elisabeth Achelis að þróa nýtt, rökrétt heimstímatal.
Líkt og tímatal tvímenninganna Hanke-Henry skiptist árið hjá henni í fjóra jafnlanga ársfjórðunga og 1. janúar bar ætíð upp á sama vikudag. Í því skyni að heimstímatalið gæti fylgst sólárinu innleiddi Elisabeth svonefnda heimsdaga.
Þessum sérlegu dögum kom hún fyrir milli laugardaga og sunnudaga í tilteknum vikum og skyldu þeir vera frídagar.
Heimstímatalið naut mikilla vinsælda meðal þeirra sem aðhylltust rökrétt tímatöl og minnstu munaði að það yrði innleitt um gjörvallan heim.
Þegar svo bandaríska ríkisstjórnin tilkynnti Sameinuðu þjóðunum árið 1955 að Bandaríkjastjórn hygðist ekki styðja innleiðingu nýja tímatalsins var hætt við áformin.
Einn heimstími á að gilda um allan heim
Henry og Hanke dreymir ekki einvörðungu um að innleiða nýtt tímatal, heldur óska þeir þess að við breytum öll klukkunni. Sem stendur er hnettinum skipt í 24 tímabelti en tvímenningarnir hafa í hyggju að umbylta þeim og innleiða eitt alheimstímabelti.
Hugmyndin er að fastsetja alheimstímann í ofurnákvæmum atómklukkum sem stilla sig með hliðsjón af sveiflutíma rafeinda. Þessi nýi tími myndi hafa það í för með sér að klukkan væri 12 samtímis í New York og Moskvu, þrátt fyrir nótt á öðrum staðnum og dag á hinum.
Hugmyndin að baki því að samræma klukkurnar er að gera alþjóðleg viðskipti og samskipti skilvirkari, svo og að auðvelda skipulagningu ferða og ráðstefna þvert á landamæri. Mörg stórveldi, á borð við Rússland og Kína, hafa þegar stigið skref í rétta átt og lagt af nokkur tímabelti.
Þeir Henry og Hanke binda vonir við að hinir hlutar heimsins eigi eftir að læra af reynslu Rússa og Kínverja og taka þátt í verkefninu sem þeir segja að muni spara þjóðfélögum háar upphæðir.
Ein helsta ástæða mótstöðunnar var trúarlegs eðlis. Heimsdagarnir myndu nefnilega hafa í för með sér að sumar vikur teldu átta daga og samkvæmt Biblíunni eru vikudagarnir sjö talsins.
Hanke og Henry hafa forðast að lenda í sömu gryfju, því allar vikur þeirra telja sjö daga. Fyrir vikið ætti tímatal þeirra félaga að verða miklu líklegra til árangurs.
Andstaðan er nú aðallega fólgin í kostnaðinum sem það mun hafa í för með sér að innleiða tímatalsbreytingar á heimsvísu. Vísindamennirnir heita því þó að nýja tímatalið muni fljótt spara milljarða króna á heimsvísu.