Birtan frá nærri fullu tungli auðveldar mönnum að sjá sporin í snjónum. Þessi slóð er eftir þýska bændur sem hafa farið yfir ísinn á Oderfljóti til að leita sér að eldiviði á austurbakkanum.
Þessari slóð fylgja nú sovéskir hermenn og sneiða þannig hjá vökum og þynnri ís. Síðan er ekki annað en að vippa sér upp á fljótsbakkann. Greinilega hafa Þjóðverjar ekki gert sér neina grein fyrir að fremstu sveitir Rauða hersins séu komnar svona langt.
Snemma morguns þann 31. janúar hertaka sovéskar sveitir, undir stjórn Kharitons Esipenko ofursta, smábæinn Klenitz.
Einungis bakarinn og bakaraneminn eru komnir á fætur en lestarstjóri og aðrir starfsmenn þýskrar járnbrautarlestar með loftvarnafallbyssum eru enn í fastasvefni.
Vélvirkjar í Rauða hernum þurftu að fara niður í ískalt vatnið til að festa brúarhlutana saman.
Um leið og stöðvarstjórinn á brautarstöðinni er kominn í fötin, gengur hann mynduglega til Esipenkos ofursta.
„Hyggist þér leyfa brottför lestarinnar til Berlínar?“ spyr þessi embættismaður. Það er nógu bölvað að sjá sovéska hermenn á götunum en í augum embættismanns við járnbrautirnar eru það þó smámunir í samanburði við það að lestir gangi ekki á áætlun.
„Því miður, hr. stöðvarstjóri. En af því getur ekki orðið,“ svarar ofurstinn. „Það verður stutt hlé á lestarsamgöngum til Berlínar – fram til loka stríðsins, skulum við segja.“
Síðar um daginn nær Rauði herinn líka vestur yfir Oder nokkru sunnar og þar með hafa Sovétmenn náð fótfestu á tveimur stöðum á vesturbakka fljótsins sem átti að skapa Þjóðverjum óvinnandi vígstöðu.
Höfuðborg Hitlers er nú einungis í 67 km fjarlægð og þar með er sviðið fullbúið fyrir dauðastríð Þriðja ríkisins. Það er nú fyrst sem þýskir hershöfðingjar taka að yfirvega hvort þeim þyki ásættanlegt að fórna mönnum sínum í orrustum sem ekki geta endað nema á einn veg.
Blóðugur eftirleikur samsæris
Hátt settir foringjar í þýska hernum höfðu lengi horft vondaufum augum á stöðuna og margir bölvuðu fyrirskipunum Foringjans í hljóði, enda voru þær í sívaxandi ósamræmi við raunveruleikann.
Þeir hlýddu engu að síður, enda gat andstaða verið lífshættuleg í Þýskalandi nasismans:
Foringinn hafði hvorki gleymt né fyrirgefið samsærið í júlí 1944 þegar von Stauffenberg reyndi að sprengja hann í loft upp í Úlfabyrginu.
„Þið skulið sjá að við hlið Berlínar bíður Rússa mesti ósigur í sögu þeirra.“
Adolf Hitler, meðan hann heldur enn að SS-hershöfðinginn Felix Steiner muni bjarga Berlín.
Eins og fyrir kraftaverk slapp Hitler úr sprengingunni með smávægilegar skrámur. Raunveruleg fórnarlömb samsærisins urðu þess í stað æðstu yfirmenn þýska hersins:
Fyrir tilræðið höfðu hershöfðingjarnir nefnilega notið ákveðins frjálsræðis þegar að því kom að framfylgja fyrirskipunum foringjans á vígvellinum. En með sprengju von Stauffenbergs fauk það traust út í veður og vind.
„Hópurinn í kringum þessa svikara er mjög þröngur,“ fullyrti Hitler í útvarpsávarpi eftir tilræðið. „Þetta er lítill hópur glæpamanna sem nú verður útrýmt án nokkurrar miskunnar.“
Þótt Foringinn léti það ósagt þá treysti hann ekki lengur herforingjum sínum og Gestapo fínkembdi raðir þeirra í leit að meðsekum. Aðrir áttuðu sig á boðskapnum:
Framvegis skyldi hverri skipun Foringjans framfylgt í minnstu smáatriðum. Annað hefði afar slæmar afleiðingar.
En vorið 1945 þurftu Þjóðverjar á að halda hershöfðingja sem væri fær um að spila eftir hendinni og ná þannig sem mestu út úr hernum sem nú hafði glatað mestu af styrk sínum.
Fyrir valinu varð hinn 58 ára Gotthard Heinrici, jafnvel þótt Hitler hefði takmarkaða trú á þessum trúaða hershöfðingja sem lét reglulega halda guðsþjónustu fyrir hermenn sína. En Heinrici var vel að sér í varnarhernaði og fékk nú yfirumsjón með Weichsel-hernum sem var til varnar meðfram Oderfljóti.
Rauði herinn byggði brýr á flothylkjum til flutninga yfir Oderfljót.
Á meðan á þessu stóð, safnaði Rauði herinn upp gríðarlegum herstyrk á þeim tveimur stöðum vestan við fljótið, þar sem hann hafði náð fótfestu. Til að komast síðasta spölinn til Berlínar þurftu skriðdrekarnir þó fyrst að komast yfir Seelow-hæðardragið þar sem þýski herinn hafði grafið skotgrafir.
Götuvígjum var líka komið upp inni í sjálfri höfuðborginni. Þau átti að manna með hermönnum úr Weichselhernum ef Rússum tækist að ryðja sér braut gegnum varnarlínuna við Seelow.
Þess vegna fór sendinefnd austur að vígstöðvunum til að ræða sameiginlega varnaráætlun.
„Það væri réttast að steikja brjálæðingana í Berlín upp úr eigin fitu,“ sagði næstráðandi Heinricis við sendinefndina.
Hún var send áfram til Seelow þar sem yfirmenn 9. hersins tóku á móti henni með slagorðum nasista:
„9. herinn verður við Oder. Ef illa fer, föllum við hér en við hörfum ekki.“ Þessi orð hljómuðu að vísu ekki sannfærandi en voru eins og klippt úr einni af ræðum Hitlers þannig að enginn vogaði sér að andmæla.
Heinrici hershöfðingi ætlaði sér að halda hæðardraginu eins lengi og mögulegt væri en að líkindum hefur hann strax verið farinn að yfirvega hve harkalega hann ætti að reyna að verjast í tilgangsleysinu og til þess eins að viðhalda Hitler og nasistastjórninni.
Flugmenn í sjálfsmorðsferðum
Luftwaffe beitti öllum ráðum til að eyðileggja brýrnar yfir Oderfljót. Kamikaze-flugferðir áttu að skera á flutningaleiðir Rauða hersins.
Eftir því sem á leið þróaði flugherinn „Luftwaffe“ æ hæpnari aðferðir til að beita á mjög mikilvæg skotmörk. Fljúgandi sprengjur voru meðal aðferðanna:
Orrustuflugvél var tengd ofan á fullhlaðna sprengjuflugvél.
Þetta klunnalega vopn var mannað flugmönnum úr flugsveitinni Kampfgescwader 200 en flugmenn sveitarinnar höfðu samþykkt að taka að sér verkefni sem ólíklegt var að menn lifðu af.
Þann 27. apríl tóku sjö slík farartæki stefnuna á brýrnar á Oderfljóti á austurvígstöðvunum en þeim tókst ekki að valda teljandi skaða.
Í vikunni á undan hafði flugsveit reynt hreinar sjálfsmorðsárásir eða „kamikazeflug“:
Flugmennirnir settust upp í orrustuflugvélar, hlaðnar sprengiefni. Þá var gumað af því að sveitinni hefði tekist að eyðileggja 17 brýr.
Að líkindum tókst þó einungis að skadda eina járnbrautarbrú tímabundið. Þessar aðgerðir kostuðu 35 flugmenn lífið.
Dýrkeypt framrás
Árásin á Seelow hófst snemma að morgni 16. apríl. Kúlnahríð frá 15.000 fallbyssum dundi á varnarmannvirkjum Þjóðverja.
„Allur Oder-dalurinn nötraði,“ sagði ungur, þýskur liðsforingi. „Það var engu líkara en jörðin teygði sig til himins í einum voldugum vegg.
Allt lauslegt hoppaði og skoppaði allt í kringum okkur. Enginn okkar hafði upplifað neitt þessu líkt áður eða einu sinni gert sér í hugarlund að slíkt gæti gerst.“
Svo þögnuðu fallbyssurnar og gríðarstór bylgja 700.000 brúnklæddra hermanna geystist fram með heróp á vörum: „Til Berlínar!“
Heinrici og Theodor Busse sem var hershöfðingi yfir 9. hernum, höfðu með leynd fært þýsku hermennina frá fremstu varnarlínunni.
Skothríð Rauða hersins olli Þjóðverjum þess vegna takmörkuðu tjóni en þegar sovésku hersveitirnar ruddust síðan fram yfir sundurtætt landið urðu þær fyrir mikilli skothríð Þjóðverja.
Jafnframt beindi Luftwaffe (þýski flugherinn) síðustu kröftum sínum að brúnum yfir Oder en þær mynduðu líftaug sovésku framrásarinnar. Nokkrir flugmenn fórnuðu meira að segja sjálfum sér í „kamikaze“-árásum að japanskri fyrirmynd.
Sigurreifar yfirlýsingar Þjóðverja um 17 sundursprengdar brýr voru þó stórlega orðum auknar. Samkvæmt sovéskum heimildum var það einungis ein brú sem laskaðist.
Ekkert fékk stöðvað Rauða herinn sem ruddist fram yfir Seelow-hæðadragið og áfram. Eftir þriggja daga ákafa bardaga, þar sem 30.000 sovéthermenn féllu, var leiðin til Berlínar opin.
Framrásin við Seelow klauf herstyrk Heinricis í miðju.
Sjálfur var hann nú staddur norðan við skarðið í varnarlínunni en Busse hershöfðingi og það sem eftir var af 9. hernum hörfuðu til suðurs. Hluti hermannanna tilheyrði SS-herdeildinni Nordland en í henni voru margir sjálfboðaliðar frá Danmörku og Noregi.
Þann 20. apríl tilkynnti Busse yfir talstöðina að hann hyggðist mynda nýja varnarlínu í Spreewald, suðaustan Berlínar.
Heinrici hvatti hann fremur til að hörfa áfram áður en Rauði herinn næði að króa hann af frá Berlín. Hættan var sú að 9. herinn yrði umkringdur en Busse vogaði sér ekki að hörfa til Berlínar.
Hann hafði einu sinni þurft að þola skammir í Foringjabyrginu og annað bræðiskast Hitlers hefði sem best getað reynst honum lífshættulegt.
Heinrici mat nú stöðuna svo að 9. herinn væri tapaður. Hann neyddist til að einbeita sér að víglínunni norðan Berlínar þar sem sovéskir skriðdrekar ruddust líka fram.
Til að bægja þeirri ógn frá tók hann að safna varaliði undir stjórn Felix Steiner SS-Obergruppenanführer (hershöfðingja) en það uppgötvaði Hitler og gerði sínar eigin áætlanir varðandi þá hermenn.
Steiner virtist beinlínis himnasending á neyðarstundu. Hann hafði á fjórða áratugnum átt þátt í að stofna hernaðararm SS, Waffen-SS.
Foringinn treysti honum mun betur en leiðtogum hersins sem hann grunaði um græsku og ekki reyndust þess umkomnir að skapa sigur úr fyrirætlunum hans.
Gotthard Heinrici
Tign: Generalofursti, æðsti yfirmaður leifanna af Veichselhernum.
Staður: Við Prenzlau, norður af Berlín
Felix Steiner
Tign: SS-hershöfðingi, yfirmaður Steiner-herdeildarinnar.
Staða: Við Oranienburg, norður af Berlín.
Herlið: Örfá þúsund.
Walther Wenck
Tign: Hershöfðingi, yfirmaður 12.hers
Staða: Við Elbu, vestan Berlínar.
Herlið: Allt að 100.000 manns
Theodor Busse
Tign: Hershöfðingi,yfirmaður 9.hers
Staða: Umkringdur í Halbe, sunnan Berlínar.
Herlið: 80.000 manns
Hitler krafðist þessn að Berlín yrði varin
Þegar hersveitir Stalíns umkringdu Berlín, fékk Hitler hugmynd að snjöllu uppgjöri. Hershöfðingjar hans skyldu brjótast út úr umsátrinu og salla niður rússnesku hermennina. Á einu augabragði myndi stríðsgæfan snúast – áleit Hitler. En nú hlýða hershöfðingjarnir honum ekki lengur
Orrustan verður um Berlín
Rauði herinn nálgast borgina
Orrustan við Seelow-hæðardragið var frá 16-19 apríl. Eftir bardaganna var leið Rauða hersins til Berlína opin.
1. Endurskipulagning Heinricis
19. apríl 1945:
Framrás Rauða hersins við Seelow klýfur Wechselherinn í tvennt. Æðsti hershöfðinginn Heinrici lendir norðan við Berlín en 9. herinn hörfar til suðurs. Heinrici flytur hersveitir til Steiners SS-hershöfðingja – og það uppgötvar Hitler.
1 – Svik Heinricis:
Þessi kristni hershöfðingi vill ekki fórna fleiri hermönnum í töpuðu stríði. Hann sendir Hitler upplognar skýrslur, meðan her hans fer til móts við Breta og gefst upp. Sjálfur flýr Heinrici til Flensborgar þar sem Dönitz yfirflotaforingi tekur við sem ríkiskanslari eftir dauða Hitlers.
2. Felix Steiner á að gera kraftaverk
22. apríl 1945:
Hitler hefur frétt að Steiner ráði yfir nothæfum her. Hann skipar Steiner að bjarga Berlín ásamt 9. hernum. Steiner situr sem fastast með lið sitt.
2 . Steiner segir stopp:
SS-hershöfðinginn veit að það er honum vonlaust verk að komast til Berlínar og verja borgina. Þess í stað skipar hann mönnum sínum norður – frá Berlín, til að komast hjá því að lenda í fangabúðum Rússa. 3. maí 1945 gefst Steiner-herdeildin upp við Elbu.
3. Wenck er síðasta vonin
23. apríl 1945:
12. her Wencks er við Elbu til að halda Bandaríkjamönnum á mottunni. Hitler skipar Wenck að sameinast 9. her Busses og koma til höfuðborgarinnar. Wenck hlýðir einungis að hluta.
3. Einleikur Wencks:
Hitler skipar 12. hernum til Berlínar en í stað þess að gera vonlausa tilraun til að bjarga höfuðborginni hjálpar Wenck Busse hershöfðingja að brjótast úr herkvínni. Hann flytur líka burtu 3.000 særða hermenn af sjúkrahúsinu í Belitz. Síðan flýja allir til Elbu til móts við Bandaríkjamenn.
4. Busse á að brjótast út úr umsátrinu
25. apríl 1945:
9. herinn er umkringdur. Hitler krefst þess að Busse brjótist út úr umsátrinu og hjálpi mönnum Wencks við að hrekja Rússa frá Berlín. Þess í stað ákveður Busse að stefna beint í vestur.
4 – Ákvörðun Busses:
9. herinn er króaður inni í skógi við þorpið Halbe. Rauði herinn lætur sprengjum rigna yfir herinn en Þjóðverjarnir reyna að brjóta sér leið út. 40.000 þýskir hermenn falla. Wenck bjargar óþekktum fjölda en aðrir lenda í sovéskum fangabúðum.
Hitler krafðist þessn að Berlín yrði varin
Þegar hersveitir Stalíns umkringdu Berlín, fékk Hitler hugmynd að snjöllu uppgjöri. Hershöfðingjar hans skyldu brjótast út úr umsátrinu og salla niður rússnesku hermennina. Á einu augabragði myndi stríðsgæfan snúast – áleit Hitler. En nú hlýða hershöfðingjarnir honum ekki lengur
Orrustan er um Berlín
Rauði herinn nálgast borgina
Orrustan við Seelow-hæðardragið var frá 16-19 apríl. Eftir bardaganna var leið Rauða hersins til Berlínar opin.
1. Endurskipulagning Heinricis
19. apríl 1945:
Framrás Rauða hersins við Seelow klýfur Wechselherinn í tvennt. Æðsti hershöfðinginn Heinrici lendir norðan við Berlín en 9. herinn hörfar til suðurs. Heinrici flytur hersveitir til Steiners SS-hershöfðingja – og það uppgötvar Hitler.
1. Svik Heinricis:
Þessi kristni hershöfðingi vill ekki fórna fleiri hermönnum í töpuðu stríði. Hann sendir Hitler upplognar skýrslur, meðan her hans fer til móts við Breta og gefst upp. Sjálfur flýr Heinrici til Flensborgar þar sem Dönitz yfirflotaforingi tekur við sem ríkiskanslari eftir dauða Hitlers.
2. Felix Steiner á að gera kraftaverk
22. apríl 1945:
Hitler hefur frétt að Steiner ráði yfir nothæfum her. Hann skipar Steiner að bjarga Berlín ásamt 9. hernum. Steiner situr sem fastast með lið sitt.
2. Steiner segir stopp:
SS-hershöfðinginn veit að það er honum vonlaust verk að komast til Berlínar og verja borgina. Þess í stað skipar hann mönnum sínum norður – frá Berlín, til að komast hjá því að lenda í fangabúðum Rússa. 3. maí 1945 gefst Steiner-herdeildin upp við Elbu.
3. Wenck er síðasta vonin
23. apríl 1945:
12. her Wencks er við Elbu til að halda Bandaríkjamönnum á mottunni. Hitler skipar Wenck að sameinast 9. her Busses og koma til höfuðborgarinnar. Wenck hlýðir einungis að hluta.
3. Einleikur Wencks:
Hitler skipar 12. hernum til Berlínar en í stað þess að gera vonlausa tilraun til að bjarga höfuðborginni hjálpar Wenck Busse hershöfðingja að brjótast úr herkvínni. Hann flytur líka burtu 3.000 særða hermenn af sjúkrahúsinu í Belitz. Síðan flýja allir til Elbu til móts við Bandaríkjamenn.
4. Busse á að brjótast út úr umsátrinu
25. apríl 1945:
9. herinn er umkringdur. Hitler krefst þess að Busse brjótist út úr umsátrinu og hjálpi mönnum Wencks við að hrekja Rússa frá Berlín. Þess í stað ákveður Busse að stefna beint í vestur.
4. Ákvörðun Busses:
9. herinn er króaður inni í skógi við þorpið Halbe. Rauði herinn lætur sprengjum rigna yfir herinn en Þjóðverjarnir reyna að brjóta sér leið út. 40.000 þýskir hermenn falla. Wenck bjargar óþekktum fjölda en aðrir lenda í sovéskum fangabúðum.
Sjálfsmorðsleiðangur
Þann 22. apríl skipaði Hitler Steiner að ráðast á sovésku hersveitirnar norður af Berlín.
Þessi langi framrásararmur óvinarins var veikur fyrir og Hitler áleit að herdeild Steiners gæti auðveldlega brotið sér leið í gegn og komist til Berlínar.
Hitler misnotaði hugtakið „herdeild“ í samhenginu, þar eð menn Steiners voru tiltölulega fáir.
„Það er algerlega bannað að hörfa til vesturs,“ var skipun Hitlers. „Þér, Steiner, berið að viðlögðu höfði yðar, ábyrgð á framfylgd þessarar skipunar.
Örlög höfuðborgar ríkisins ráðast af því að þessi leiðangur takist.“
Á landakorti virtist áætlunin skynsamleg og Hitler var afar ánægður með sjálfan sig. Herforingjarnir sem voru hjá honum í Foringjabyrginu höfðu ekki séð hann svo bjartsýnan lengi.
„Þið skulið sjá að við hlið Berlínar bíður Rússa mesti ósigur í sögu þeirra,“ spáði Hitler.
En reyndar var það hann sjálfur sem átti ein verstu vonbrigði ævinnar í vændum. Rauði herinn gat nú óhindrað dælt hersveitum sínum um Seelow og bestu hersveitir Steiners voru þegar uppteknar í bardögum.
Að þeim mönnum undanskildum var herdeild hans aðeins til á pappírnum.
„Ég hef nánast ekkert stórskotalið, aðeins örfáa skriðdreka og sárafáar loftvarnabyssur,“ tilkynnti hann Heinrici mæðulega.
Til árásarinnar hafði hann í rauninni aðeins tvö þúsund léttvopnaða SS-hermenn og alveg óþjálfaða flugdeildarmenn. Steiner neitaði að senda þessa menn út í opinn dauðann.
Hinn bitri sannleikur
Í Foringjabyrginu gekk lífið sinn vanagang þann 22. apríl.
Hitler fór að venju seint á fætur en síðan fóru klukkutímar í fundi og starfsfólkið tók höndum saman um að koma í veg fyrir að Heinrici næði að tala við Hitler í síma.
Stund sannleikans rann loks upp kl. 15, þegar Hitler hélt fund með æðstu yfirmönnum hersins.
Nú neyddust Wilhelm Keitel og aðrir já-menn í Foringjabyrginu til að viðurkenna að SS-hershöfðinginn Felix Steiner hefði ekki framfylgt skipuninni. Hitler trylltist.
„Hann hoppaði upp og niður og öskraði og skrækti,“ sagði einn yfirforinginn. „Hann var ýmist náhvítur eða eldrauður í framan og titraði allur”.
Röddin brast hvað eftir annað þegar hann skrækti orð á borð við svik, hugleysi, landráð og óhlýðni.“
Að lokum sór Hitler þess eið að vera kyrr í Berlín og berjast þar. Allir aðrir máttu stinga af ef þeir vildu. Að endingu lét hann fallast niður í stól og tautaði:
„Þetta er búið! Stríðið er tapað! Ég ætla að skjóta mig!“
Áður höfðu hershöfðingar verið sviptir embætti með skömm fyrir að láta slíkt út úr sér en nú heyrðu menn þessi orð af vörum Foringjans sjálfs! Í örvæntingu tóku Keitel og hans menn að leita að einhverju sem gæti hresst Foringjann við.
Og á kortinu ráku þeir augun í 12. herinn undir stjórn Walthers Wenck sem ætlað var að halda Bandaríkjamönnum vestan við Elbu.
Ekkert benti til þess að Bandaríkjamenn hygðust gera tilraun til að ráðast austur yfir fljótið og því mátti hugsa sér að Wenck leiddi herinn til Berlínar og kæmi höfuðborginni til bjargar!
Hugmyndin hreif Hitler upp úr uppgjöfinni og ný áætlun tók á sig form á landakortinu.
Síðasti maður skal sigra
Hitler hafði lengi haft mikið álit á skriðdrekaforingjanum Walther Wenck sem hafði aðeins 44 ára verið dubbaður upp í yngsta hershöfðingjann í þýska hernum.
Nú fékk hann nýtt hlutverk sem frelsari Þriðja ríkisins.
„Til hermannanna í her Wencks!“ hóf Hitler ávarp sitt 23. apríl. Þrátt fyrir orðanna hljóðan var skipunin ekki ætluð hermönnum Wencks heldur átti að vera til hugljómunar innirkróuðum íbúum Berlínar.
„Foringinn hefur kallað ykkur til og þið hafið brugðist við kallinu eins og á hinum sigursælu tímum. Berlín bíður ykkar,“ sagði í þessari tilskipun.
Wenck hafði þó ekki hreyft sig spönn frá rassi enn sem komið var, því það tekur sinn tíma að snúa heilum her um 180 gráður án nokkurs eldsneytis. Það var ekki fyrr en síðla daginn eftir sem loks komst hreyfing á hermennina.
Hitler hafði skipað svo fyrir að Wenck skyldi marsera með her sinn til Berlínar og sameinast Busse og 9. hernum á leiðinni.
Þegar Steiner gerði svo loksins árás sína norðan frá yrði framrás Sovétmanna brotin á bak aftur. Þannig sá Hitler þetta fyrir sér.
„Hann hoppaði upp og niður og öskraði og skrækti,“ sagði einn yfirforinginn. „Hann var ýmist náhvítur eða eldrauður í framan og titraði allur”.
Hermennirnir í 12. her Wencks voru reiðubúnir að fylgja foringja sínum „Papi Wenck“ til helvítis og baka aftur ef hann bæði um það. Og það var einmitt það sem hann hafði hugsað sér.
„Piltar, þið þurfið að ganga í gegnum eldskírn einu sinni enn,“ sagði Wenck við menn sína. „En þetta snýst ekki framar um Berlín og það snýst ekki framar um Þriðja ríkið!“
Hershöfðinginn hafði gert sína eigin leynilegu áætlun: Hann vissi að stríðið var tapað og vildi frekar lenda í fangabúðum Bandaríkjamanna.
En fyrst hugðist Wenck opna flóttaleið fyrir Busse hershöfðingja sem var í háska staddur.
Busse hafði ráðleggingar Heinricis að engu en hafði hins vegar hlýðnast foringjanum og myndað nýja varnarlínu fyrir suðaustan Berlín með þeim afleiðingum að 80.000 manna lið hans var nú umkringt.
Þann 25. apríl fékk Busse skipun frá Hitler. Hann átti að brjótast úr umsátrinu, sameinast 12. her Wencks og koma svo höfuðborginni til bjargar.
Fáeinum dögum fyrr gæti þetta hafa verið gerlegt en nú þurftu hermennirnir að berjast um hvern metra á leið sinni.
Busse ákvað að hlýða ekki fleiri skipunum frá Hitler. Nú var eina markmið hans að komast með 9. herinn til Elbu og Bandaríkjamanna.
Hermenn hans fengu strangar fyrirskipanir um að eyða ekki kröftum sínum í að hjálpa þeim hundruðum þúsunda óbreyttra borgara sem höfðu leitað skjóls hjá 9. hernum til að komast undan þeim hryllingi sem sögur gengu af ef menn lentu í höndum Rússa.
„En konurnar?“ andmælti einn hermaðurinn. „Eigum við bara að skilja þær eftir fyrir rauðliðana til að nauðga og drepa?“
„Við getum ekki hjálpað þeim.“
Slökkt á talstöðinni
Allur agi fauk út í veður og vind þegar 9. herinn hóf sókn sína út úr herkvínni til vesturs.
Mörk milli eininga á borð við herdeildir eða hersveitir þurrkuðust út en hermennirnir brutu sér leið í litlum hópum sem stundum slógu sér saman í bardaga.
Brynsveitarliðþjálfinn Wolfgang Faust lýsti hópi hermanna sem bjó sig undir að komast fram hjá sovésku vígi í myrkri.
Auk tveggja skriðdreka úr sveit hans var einn brynvagn frá SS og tvær fallbyssur.
Í fótgönguliðinu í kringum þá voru ekki annað en fallhlífasveitarmenn, óbreyttir borgarar úr Volksturm og nokkrir langþreyttir hermenn sem beinlínis þurfti að reka áfram.
„Þeir tóku einn hinna óviljugu – um 18 ára gamlan strák – og tóku hann af lífi með skoti í höfuðið. Þá fyrst bitu hinir á jaxlinn og bjuggust til bardaga.
Í skjóli myrkur tókst Þjóðverjunum að komast fram hjá eða stökkva yfir varnarvirkið en strax að því loknu tvístruðust þeir aftur.
Meðan 9. herinn mjakaðist í vesturátt bárust örvæntingarfullar talstöðvarskipanir frá Berlín.
Ásamt 100.000 hermönnum komst nærri hálf milljón flóttamanna yfir Elbu við Tangenmünde. Flest af þessu fólki var svo hrakið til baka til hernámssvæðis Sovétmanna í samræmi við samninga sem bandamenn höfðu gert sín á milli.
Busse var hættur að svara talstöðinni en eftirlitsflugvélar herstjórnarinnar höfðu uppgötvað að her hans stefndi beint í vestur – ekki í átt til Berlínar.
„Foringinn væntir þess að herirnir geri skyldu sína!“ Þannig hljóðuðu biturleg boð frá Foringjabyrginu í Berlín.
„Sagan mun minnast með fyrirlitningu hvers þess manns sem við þessar aðstæður gerir ekki sitt ýtrasta til að bjarga föðurlandinu og Foringjanum.“
En þetta lét Busse sem vind um eyru þjóta eins og allt annað.
Meðan Wenck reyndi að koma undan sem flestum hermönnum og óbreyttum borgurum sunnan við Berlín, var her Heinricis á leið til móts við breskar sveitir í norðri.
Hitler var grunlaus um svikin því Heinrici var nú tekinn að senda honum fölsuð boð um að hann héldi enn stöðu sinni.
„Ég get ekki lengur tekið þá ábyrgð að framfylgja þessum brjálæðislegu sjálfsmorðsfyrirskipunum,“ útskýrði Heinrici. „Ekki svo mikið sem einum þýskum hermanni til viðbótar verður fórnað að ástæðulausu.
Ég er ábyrgur gagnvart mönnum mínum, þjóðinni og æðri máttarvöldum en Hitler.“
Svikin uppgötvuðust ekki fyrr en 28. apríl, þegar sjálfur yfirmaður herráðsins, Keitel birtist bálreiður í búðum Heinricis.
Nánustu samstarfsmenn hans óttuðust um líf hans og biðu í felum með vélbyssur í höndum meðan á fundinum stóð.
Ef illa færi voru þeir reiðubúnir að skjóta Keitel og menn hans í tætlur.
Almenningi til viðvörunar voru hengd skilti um háls þeirra sem teknir voru af lífi: „Ég starfaði með bolsévikum!“.
SS kvað upp mörg þúsund dauðadóma
Árið 1945 varð Hitler æ örvæntingarfyllri og notaði öll ráð til að þvinga þýska hermenn til að berjast áfram.
Hann lét setja verði á allar leiðir frá vígstöðvunum og þeir áttu að handtaka hvern þann sem fór í ranga átt án gildrar ástæðu.
„Herréttur á að beita ströngustu viðurlögum á grundvelli þeirrar meginreglu að þeir sem óttast ærlega dauðdaga í orrustu eiga skilið dauðdaga hugleysingjans,“ sagði í tilskipun Foringjans.
Í mars 1945 fyrirskipaði hann „hraðréttarhöld“ með þrjá foringja í hernum sem dómara, skrifstofumenn til að sinna skjalagerðinni og svo aftökusveit.
Dæmdir áttu engan áfrýjunarrétt. Þegar þýski herinn tók að hrynja saman í apríl fóru harðir nasistar sjálfir að taka af lífi hvern þann sem ekki sýndi rétta baráttuandann.
15.000 þýskir hermenn voru teknir af lífi sem liðhlaupar og 50.000 til viðbótar voru dæmdir til dauða fyrir smærri yfirsjónir, t.d. óhlýðni.
Hitler sviptir sig lífi
En Keitel lét sér nægja að svipta Heinrici hershöfðingjatign og skipa honum að mæta í Foringjabyrgið daginn eftir til að skýra mál sitt fyrir Hitler.
Í byrginu þrammaði Foringinn eirðarlaus fram og til baka og beið eftir 12. hernum:
„Hvað varð af Wenck?“ spurði hann.
Daginn eftir settist Heinrici inn í bíl sinn en tók ekki stefnu á Berlín. Hann vildi komast til Slésvíkur-Holtsetalands en hermenn hans gáfust upp fyrir Bretum.
Hitler svipti sig lífi 30. apríl en stríðið hélt áfram. Leifarnar af 9. hernum marseruðu áfram þar til þeir fremstu komu auga á vel þekkta hjálma og skriðdreka fyrir framan sig þann 1. maí.
„Það voru þýskir hermenn sem við komum að,“ sagði brynsveitarliðþjálfinn Wolfgang Faust. „Þeir gáfu okkur merki um að halda áfram og sögðu að 12. herinn væri skammt undan.
Ekki er vitað hve marga hermenn Busse átti eftir. Sagnfræðingar hafa giskað á allt frá 5.000 upp í 25.000. En þessir hermenn náðu til 12. hersins og síðan að Elbu.
Flutningar yfir illfærar brúarhenglur hófust 4. maí og samkvæmt útreikningum Wencks náðu meira en 100.000 hermenn og 400.000 óbreyttir borgarar vestur yfir fljótið þar sem hermennirnir gáfust upp fyrir Bandaríkjamönnum.
SS-hershöfðinginn Steiner gafst upp fyrir Bretum.
Uppreisn hershöfðingjanna hafði tekist. Á síðustu augnablikum stríðsins höfðu þeir náð að forða hermönnum sínum undan hrömmum Stalíns. Uppreisnin kom þó allt of seint.
Vegna hlýðni þýskra hershöfðingja létu milljónir þýskra hermanna lífið og sprengjuregn bandamanna hafði lagt landið í rúst.
Lestu meira um síðustu daga stríðsins
Tony Le Tissier: With Our Backs to Berlin – The German Army in Retreat, Sutton, 2001