Tækni

Peningarnir hverfa

Peningar borga sig ekki! Greiðslukort og símgreiðslur hafa leyst af hólmi kostnaðarsama peningaseðla, svo og mynt. Brátt getum við yfirfært greiðslur með líkamanum eða látið kæliskápinn um að borga. Í framtíðinni má leiða getum að því að gjaldmiðill okkar verði skammtaagnir.

BIRT: 05/04/2023

Reynið að sjá fyrir ykkur aðreinina að „lúguveitingastað“ í framtíðinni. Þú pantar morgunverð og keyrir að næstu lúgu.

 

Þar færðu matinn afhentan í poka inn í bílinn og keyrir svo áfram í vinnuna.

 

Æ, nei, gleymdir þú ekki að borga? Nei, því það gerðist sjálfkrafa. Greiðslukort og greiðslu-öpp verða orðin óþörf.

 

Þess í stað er skynjari í segulmögnuðu geisluninni sem bifreiðin gefur frá sér sem auðkennir bifreiðina og þetta leysir úr læðingi greiðslu af reikningi þínum sem tengdur er bílnum.

 

Þetta gæti verið raunveruleikinn eftir nokkur ár, því við munum áreiðanlega kveðja bæði seðla og klink, svo og peningaveski og greiðslukort.

 

Þess í stað munum við inna greiðslur af hendi með líkama okkar, hlutum okkar eða tíma.

 

Þegar fram í sækir gæti meira að segja orðið erfitt að greina peninga sem tölur á bankareikningi, því gert er ráð fyrir að vísindamenn eigi eftir að skapa nýja „peninga“ úr skammtaástandi.

 

Hvaða raunverulegu verðmæti eru í krónum og aurum? Sjáðu sögu peninga hér:

Hvernig geta seðlar, myntir - og tölur á bankareikningi - haft það gildi sem þeir hafa? The Open University fer yfir sögu peninga í 10 þrepum - frá vöruskiptahagkerfi til fjármálakreppunnar og svo er einnig horft inn í framtíðina.

Reiðuféð hverfur

Klink og krumpaðir peningaseðlar eru í þann veginn að hverfa af sjónarsviðinu. Þetta á einkum við um Ísland, Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð sem eru í fremstu röð hvað varðar þessa stafrænu breytingu en þess má geta að alls 92 prósent íbúa Norðurlandanna nota snjallsíma.

 

Á Spáni er reiðufé notað við 87 prósent allra kaupa en í Svíþjóð nemur hlutfallið aðeins 20% og vísindamenn við Konunglega tækniháskólann í Svíþjóð spá því að Svíar verði hættir að nota reiðufé árið 2023.

 

Á sama tíma fer stafrænum innskráningum í banka stöðugt fjölgandi. Í Noregi nota alls 74 prósent viðskiptavinanna rafræn skilríki og alls 87 prósent Finna.

 

Snertilausar greiðslur með greiðslukorti, svo og smáforrit í líkingu við Apple Pay, leysa af hólmi reiðuféð.

 

Og þá má ekki gleyma því að rafmiðlar í líkingu við „bitcoin“ hafa leitt af sér gjaldmiðlakerfi jafnfætis kerfum seðlabankanna um gjörvallan heiminn.

 

Líkaminn verður nýja greiðslukortið

Brátt getum við losað okkur við bæði greiðslukort og lykilorð og beitt þess í stað líkamanum sem greiðslumiðli. Hugbúnaður verður notaður til að greina einstaklinga að, með hliðsjón af einstaklingsbundnum augum, fingrum, lófum og göngulagi.

Örhreyfingar augans auðkenna greiðandann

Augun kippast stöðugt til með örstuttum hreyfingum sem nefnast augnstökk og standa yfir í 6-30 millísekúndur. Augnstökk okkar eru einstaklingsbundin og ekki eins hjá neinum tveimur einstaklingum og vísindamenn við Potsdam háskóla hafa komist að raun um að bera megi kennsl á fólk með því að skanna augu þess þúsund sinnum á sekúndu. Með því að nota skanna og rétta hugbúnaðinn gætum við í framtíðinni heimilað greiðslur, með öruggari hætti en þegar notaðir eru lithimnuskannar, því þá er hægt að gabba með fölskum augnlinsum.

Fingur á snertiskjá leiða í ljós notendur

Tveir einstaklingar sem teikna sama mynstur á snertiskjá til þess að taka læsingu af síma hreyfa fingurinn ekki nákvæmlega eins, jafnvel þótt kóðinn sé í grófum dráttum sá sami. Nýr hugbúnaður frá framleiðandanum BehavioSec getur borið fingurhreyfingarnar saman við þær sem að öllu jöfnu eru notaðar í tengslum við tiltekinn síma. Tækni þessi getur greint hvort greiðandinn er sá sami og venjulega og ekki til dæmis einhver sem stolið hefur símanum.

Skanninn greinir lögun æðanna í hendinni

Mörg fyrirtæki á sviði upplýsingatækni, t.d. japanska stórfyrirtækið Fujitsu, hafa hannað skanna sem lýsa upp hendur með innrauðu ljósi, þannig að úr verður stafræn mynd þar sem örfínar háræðar í lófum og fingrum sjást sem dökkar kvíslir. Æðarnar verða sýnilegar sökum þess að blóðið drekkur í sig meira af innrauðu ljósi en vefurinn umhverfis. Ef mynstur æðanna samsvarar því sem er að finna í gagnasafninu er greiðslan heimiluð.

Göngulag segir til um notandann

Vísindamenn við Michigan State háskólann hafa þróað hugbúnað sem getur greint sundur ólíkt göngulag. Með þessu móti er unnt að bera kennsl á fólk úr þó nokkurri fjarlægð og heimila greiðslur í matvörubúðum o.fl. Forritið teiknar upp línur á mynd sem sýnir 25 liðamót í „stafrænni beinagrind“. Síðan er staðsetning liðamótanna mæld, svo og afstaða til annarra liðamóta og hugbúnaðurinn sannreynir auðkenni einstaklingsins.

 

Hvarf reiðufjárins gerir það einfaldlega ódýrara að greiða. Ástæðan er sú að öll meðhöndlun fólks á seðlum og mynt er tímafrek, m.a. sökum þess að gera þarf upp kassann í lok dags og flytja síðan peningana í banka.

 

Þá þarf að sama skapi að greiða fyrir öryggiskerfi og vaktþjónustu. Í Danmörku hefur danski seðlabankinn látið reikna út að hver greiðsla með reiðufé kostar að meðaltali það sem samsvarar eitt hundrað íslenskum krónum en helmingi minna þegar greitt er með greiðslukorti.

 

Reiðufjárlausa samfélagið er þó bara rétt byrjunin. Líkt og Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í fyrirlestri árið 2018: „Sjálfir peningarnir breytast“.

 

Brátt hverfur allt sem við erum vön að tengja við peninga og seðlaveskið og greiðslukortið hverfa fyrst.

 

Göngulag heimilar greiðslu

Bæði peningar og greiðslukort gætu sem best horfið úr matvörubúðunum. Þar er yfirleitt að finna sömu innanstokksmunina: Vöruhillur, innkaupavagna og greiðslukassa, þar sem við borgum.

 

Matvöruverslanir víðs vegar um heim eru þó í óðaönn að losa sig við kassana. Samt er enn greitt með fé en allt fer fram sjálfkrafa og aurinn fyrir vikið ekki lengur sóttur í vasann.

 

Til dæmis hefur Internet-risinn Amazon sett á laggirnar kjörbúðir sem þeir kalla Amazon Go en þar skanna viðskiptavinirnir snjallsímana sína við innganginn að versluninni.

 

Vörurnar sem fólk setur ofan í innkaupakörfuna eru skannaðar með myndavélum. Greiðslan er að lokum dregin sjálfkrafa af reikningi viðskiptavinarins en reikningurinn var skráður við upphaflega skönnun snjallsímans.

 

Kæliskápurinn þekkir fyrningardagsetningu matvælanna

Mjólkin er við það að súrna og kjötáleggið að þorna upp. Þegar fram í sækir getur kæliskápurinn sjálfur séð sér fyrir nýjum vörum. Netrisinn Amazon hefur fengið einkaleyfi fyrir kæliskáp sem uppgötvar sjálfur hvenær matvælin skemmast, t.d. þegar kjöt og fiskur losa frá sér sameindina Kadaverín. Efnaskynjarar munu mæla magn sameindarinnar og myndavélar fylgjast stöðugt með útliti t.d. ávaxta og bera saman við myndir af ferskum og skemmdum matvælum í gagnasafni. Markmið fyrirtækisins er að forrita kerfið á þann veg að kæliskápurinn panti sjálfkrafa nýjar matvörur. Við getum því hlakkað til að eignast ísskáp einn góðan veðurdag sem pantar sjálfkrafa ný matvæli þegar þörf krefur.

 

Þá er einnig unnt að staðfesta greiðsluna án þess svo mikið sem að taka snjallsímann upp úr vasanum, þ.e. með sjálfum líkamanum.

 

Þessi tækni sem felst í staðfestingu með líkamanum, kallast lífmælingar og er í örum vexti.

 

Þess má t.d. geta að rösklega helmingur snjallsímanotenda á Norðurlöndunum notar í dag fingrafar til að skrá sig inn á smáforrit og til að heimila greiðslur.

 

Líftækni felur í sér annað og meira en fingur og andlit, því unnt er að beita öllum líkamanum, t.d. í því sem kallast „göngulagsauðkenni“, þar sem hugbúnaður er notaður til að sannreyna persónuauðkenni fólks út frá göngulagi þess.

 

Vísindamenn við IIUM-háskólann í Malasíu hafa t.d. þróað tækni sem byggir á útlínumynd fólks. Fyrst er tekin mynd af útlínum einstaklinganna þegar þeir ganga og fæturnir eru langt hvor frá öðrum.

 

Þá er tekin önnur mynd þegar fæturnir eru alveg upp við hvorn annan. Útlínumyndirnar tvær marka upphaf og endi á heilum ferli.

 

Teknar eru alls ellefu myndir í einni lotu og þegar útlínumyndunum er safnað í eina mynd sýna þær líkamsstöðu einstaklings þegar hann gengur.

 

Hver „gönguútlínumynd“ er alveg einstök og getur fyrir vikið staðfest hver viðkomandi er, á sama hátt og hægt er að gera með andlitsdráttum eða fingrafari en þó með enn öruggari hætti því erfiðara er að líkja eftir göngulagi en fingrafari eða t.d. andliti með grímu.

LESTU EINNIG

Hjá fyrirtækinu Watrix sem hefur sérhæft sig í að bera kennsl á göngulag, hefur tekist að bera kennsl á göngulag fólks úr 50 metra fjarlægð.

 

Þetta gerir göngulagsauðkenni öruggara en t.d. andlitsauðkenni, því nauðsynlegt er að koma mjög nálægt myndavélinni eigi að bera kennsl á andlitið.

 

Greiðslukortarisinn MasterCard á fyrir vikið í samstarfi við samgöngufyrirtæki í því skyni að setja upp göngulagsskynjara sem „aðgöngumiða“ þegar fólk t.d. stígur um borð í lest í stað þess að skanna kort eða stimpla miða.

 

Bifreiðin greiðir sjálf

Eitt er að greiða með símanum eða einstökum sérkennum líkamans, annað að láta hlutum eftir að greiða fyrir okkur.

 

Fleiri og fleiri hlutir sem hvorki eru símar, spjaldtölvur né tölvur, eiga eftir að tengjast netinu og eiga í samskiptum hver við annan.

 

Greiningarfyrirtækið Gartner gerir ráð fyrir að árið 2021 verði til alls 25 milljarðar nettengdra hluta. Þetta á við um allt mögulegt, frá úrum yfir í kæliskápa og bíla.

Geislun segir til um auðkenni bifreiða

Allar bifreiðar gefa frá sér rafsegulgeislun sem nota má til að auðkenna þær. Geislunina er því unnt að nota á sama hátt og lykilorð eða fingrafar.

1 – Loftnet mælir geislun

Bifreiðar fela í sér marga ólíka rafmagnsíhluti, allt frá leiðslum yfir í stjórnborð og tölvur. Allar þessar einingar gefa frá sér rafsegulgeislun og samanlagt myndar geislunin einstakt snið. Geislun allra eininga er greind með loftneti og til verður línurit út frá styrkleika geislunarinnar á tíðni hinna ýmsu eininga.

2 – Tíðni leiðir í ljós auðkenni

Tölvuforrit er „þjálfað“ í að fara yfir mörg geislunargröf ólíkra bifreiða. Forritið ber síðan saman graf einnar bifreiðar við gröf annarra og finnur auðkennið með hliðsjón af þessu. Örlítið frávik í rafmagnsleiðslum og straumrásum í tölvueiningum gerir það að verkum að tvær bifreiðar sömu tegundar og árgerðar eru aldrei með nákvæmlega eins gröf.

3 – Bíllinn greiðir

Tölvan gengur úr skugga um hvort bíllinn er tengdur greiðslukorti með nægilegri heimild til að ganga frá greiðslu. Rafgeislunarauðkenni eru ódýrari og öruggari lausn en t.d. RFID en það kerfi er notað við greiðslu vegatolla, brúartolla o.þ.h. Í því kerfi er stuðst við einingu sem er ekki hluti af bifreiðinni og fyrir vikið unnt að stela, andstætt við innbyggða straumrás bílsins.

 

Bílar eru einmitt gott dæmi um hluti sem greitt geta sjálfkrafa þegar t.d. verið er að hlaða í þeim geyminn þar sem þeim er lagt.

 

Teymi vísindamanna birti grein í samstarfi við rafeindafyrirtækið IEEE, þar sem lýst er tækni sem gengur undir heitinu EMID (rafsegulmögnuð auðkenni) sem byggir á því að skynja rafsegulgeislun sem rafeindahlutar bifreiða senda frá sér, t.d. allar leiðslurnar sem liggja í gegnum vagngrindina.

 

Loftnet nemur geislana og mælir styrk þeirra við mismikla tíðni. Línurit er myndað úr styrknum og tíðninni.

 

Þó svo að tvær Volvo-bifreiðar af sömu árgerð og tegund yfirgæfu verksmiðjuna samtímis myndi vera smávægilegur munur í línuritum þeirra yfir rafsegulgeislunina sem bílarnir senda frá sér.

 

Fyrir vikið væri unnt að bera kennsl á einstaka bifreiðar með því að styðjast við geislun en henni má í raun réttri líkja við fingraför sem aðgreina einstaklinga. Tæknin er þeim eiginleikum gædd að ekki er þörf fyrir aukalegan útbúnað í bílnum, andstætt við svonefnd RFID-merki sem samanstanda af örflögu og loftneti sem t.d. geta auðkennt bifreið þegar RFID-lesari skannar merkið þegar ekið er yfir greiðslubrú.

 

Tæknilega séð er hægt að stela RFID-merkinu og setja í aðra bifreið en rafeindageislunin er hins vegar innbyggð í bílinn og er þannig sjálfur lykillinn sem sannreynir hver viðskiptavinurinn er og samþykkir peningagreiðslurnar.

 

Smáforrit breytir lifuðu lífi í rafræna peninga

Að einni mínútu liðinni hefur þú unnið þér inn 1 „nim“ en þannig hljóðar hugmyndin að baki smáforritinu Nimses, þar sem tíma notendanna er breytt í rafræna mynt sem kallast nims.

Smáforrit breytir tíma í rafræna peninga

Um leið og notandi hefur verið skilgreindur vinnur hann sér inn á hverri mínútu svonefnt nim sem geymt er í stafrænu „peningaveski“. Þegar nims hafa verið mynduð geta þau ekki horfið aftur og heildarfjöldinn af nims eykst stöðugt. Alls 525.960 nims kallast dominim og fjöldinn samsvarar þeim fjölda af nims sem verða til á einu ári. Í heimi smáforritsins eru nims notuð sem eins konar félagslegur gjaldmiðill sem m.a. er unnt að nota til að deila með eða gera athugasemdir við myndir.

Efnaðir Nimses-notendur verða musteriseigendur

Í smáforritinu Nimses er yfirborði jarðar skipt upp í 538.560 landfræðileg svæði sem hvert um sig nefnist musteri. Hafi einhver notendanna yfir að ráða heilu dominims, getur sá hinn sami fest kaup á musteri og kallast eftir það musterisherra. Hvert musteri hefur yfir að ráða eigin banka sem meistarinn stjórnar. Allir Nimses-notendur sem dvelja á sama landfræðilega svæðinu leggja bankanum í musterinu til 100 nims daglega.

Tímagjaldmiðil til að kaupa vörur í raunheimum

Nimses er tengt markaðstorgi þar sem kaupa má „alvöru“ vörur, svo sem eins og kaffi á kaffihúsum sem taka við nims sem greiðslumiðli. Kaffihúsin geta síðan skipt nims sem deila má á samfélagsmiðli Nimses smáforritsins. Þegar fram í sækir munu forritarar hjá Nimses einnig setja á laggirnar gjaldmiðlamarkað þar sem m.a. verður unnt að skipta infinim – þ.e. þeim fjölda af nims sem samsvarar 120 lifuðum árum, í um u.þ.b. 15.000 evrur.

 

Viðvörun: Smáforrit sætir gagnrýni vegna öryggis

Nimses hefur verið gagnrýnt fyrir að minna á pýramídasvindl því notendur geta unnið sér inn nims með því að fá aðra notendur til að taka þátt. Smáforritið hefur enn fremur verið gagnrýnt fyrir að vernda ekki einkalíf notenda sinna. Forritssmiðirnir hafa tekið gagnrýnina til sín og bætt öryggi einkalífsins, ef marka má öryggisfyrirtækið Kaspersky en smáforritið tekur hins vegar sífelldum breytingum og ógerningur að tryggja hvernig það lítur út í dag.

 

Tími verður að peningum

Stafrænu greiðsluleiðirnar sem færast í aukana nú á dögum, byggja enn sem komið er á því að fyrir hendi sé innistæða á bankareikningi. Verðmæti peninganna eru í rauninni óhlutbundin upphæð.

 

Allar götur síðan Bandaríkjadalurinn hætti að vera tengdur beint við gullforða hafa peningar einungis verðgildi sökum þess að þjóðlöndin hafa ákveðið að það skuli þeir hafa.

 

Í dag gera frumkvöðlar og vísindamenn tilraunir með að þróa nýja gjaldmiðla sem einungis krefjast þess að nægilega margir einstaklingar séu sammála um verðgildi miðlanna og gildistíma.

 

Þetta á t.d. við um tíma. Hugtakið „tímabankar“ er t.d. hugsað þannig: Þú býður fram nokkurra klukkustunda iðnaðarmannavinnu á svæðinu þar sem þú býrð.

 

Í svæðisbundna tímabankanum vinnur þú þér inn inneign sem þú getur notað til að greiða fyrir aðstoð sem aðrir inna af hendi. Þú gætir t.d. breytt inneign þinni í miða á fótboltaleik þar sem þú býrð.

 

Peningar breytast í skammtaeindir

Vísindamenn eru í óða önn að gjörbylta því hvernig við greiðum. Meðal annars gætu hlutir – eins og bíllinn eða ísskápurinn – hugsanlega samþykkt greiðslur fyrir hleðslu eða mat. Þetta er hægt að gera með því að nota EMID tækni, sem byggir á einstöku mynstri rafsegulgeislunar hvers hlutar. Og ef við horfum til enn lengri framtíðar gætu peningar eins og við þekkjum þá horfið með öllu. Vísindamaðurinn Adrian Kent við Cambridgeháskóla leggur til S-peningakerfið, þar sem greiðsla er byggð á skammtaögnum.

 

Tímabankar í þessari mynd fyrirfinnast að takmörkuðu leyti hér og þar en nú hyggjast hugbúnaðarframleiðendur í Úkraínu kynna hugtakið „tími sem gjaldmiðill“ fyrir gjörvöllum heiminum með smáforritinu Nimses.

 

Þar vinna notendur sér inn gjaldmiðil sem gengur undir heitinu nims fyrir hverja mínútu sem þeir taka þátt.

 

Nims er sem dæmi unnt að nota til að hlaða niður myndum sem aðrir notendur á sama landfræðilega svæði svo geta nýtt sér, líkt og við á um aðra samfélagsmiðla.

 

Nims er enn fremur hægt að nota til að greiða fyrir kaffi á kaffihúsum, ef kaffihúsið tekur við þessum nýja gjaldmiðli og tískuhúsin geta selt fatnað fyrir nims og ágóðanum geta þau t.d. varið í auglýsingar á samfélagsmiðli sem tengist smáforritinu.

 

Tilgangurinn með nims er að fá nægilega marga notendur til að skapa peningakerfi þar sem tími leysir af hólmi krónur og aura sem greiðslumiðil.

LESTU EINNIG

Nimses er ekki eina smáforritið sem stefnir að því að nota nýjar tegundir gjaldmiðla. Hér nægir að nefna eina sérlega tegund tækni sem ógnar háþróuðustu aðferðum sem notaðar eru til að dulkóða peningareikninga og að halda tölvurefum í skefjum: skammtatölvur.

 

Bæði Google og IBM hafa greint frá því að skammtatölvur eigi á næstu tíu árum eftir að geta leyst verkefni sem sé ógerlegt að inna af hendi með venjulegum tölvum í dag.

 

Sérfræðingar á sviði öryggismála vara þess vegna við því að jafnvel svonefnd bitakeðjukerfi sem engin leið hafi átt að vera að brjótast inn í, séu í rauninni ekki örugg.

 

Skammtafræði býr til peninga framtíðar

Vísindamenn róa að því öllum árum að þróa skammtapeninga, splunkunýja tegund rafmiðils sem ekki er unnt að falsa. Eðlisfræðingurinn Stephen Wiesner lýsti fyrst hugmynd þessari sem snýst um það að röð agna með tilteknu skammtaástandi geti táknað ákveðna fjárupphæð. „Kóðann“ að skammtaástandi er ekki unnt að afrita, þar sem ástandið breytist um leið og hugsanlegur peningafalsari reynir að fylgjast með því. Þess vegna eru bundnar vonir við að skammtafé geti orðið ný, fullkomlega örugg tegund peninga, þ.e. takist vísindamönnum að útbúa skammtatölvurnar sem þarf til að móta og yfirfæra skammtaástandið.

 

Sérfræðingar vinna fyrir vikið að því hörðum höndum að þróa greiðslukerfi sem byggja á því framandlega fyrirbæri sem kallast skammtaástand. Í þessu sambandi nægir að nefna Adrian Kent við háskólann í Cambridge sem þróað hefur kenningu um svonefnda S-peninga.

Þessum S-peningum er ekki unnt að safna á reikning og yfirfæra til annarra, heldur er um að ræða upplýsingabrot sem mynduð eru á tilteknum tíma og stað sem svar við fyrirspurnum sem berast á öðrum stað og stund.

 

S-peningar eru fyrir bragðið ekki geymdir inni á reikningi heldur myndast þeir á sömu stundu og greitt er. S-peningar samanstanda af „skammtakóða“ úr mörgum ögnum af tilteknu skammtaástandi.

 

Ekki er hægt að reikna út skammtaástand með hundrað prósent öryggi, því ástandið breytist jafnframt því sem fylgst er með ögnunum. Þetta þýðir að engin leið er að framleiða falska S-peninga.

 

Skammtakapphlaupið mun ekki einvörðungu leiða af sér tölvur með þúsundfalt meiri reiknigetu en þekkist í dag, heldur getur það jafnframt leitt til þess að peningar, hvort heldur um er að ræða áþreifanlega peninga eða upphæðir á reikningum, eigi eftir að hverfa og að skammtaagnir komi í þeirra stað.

 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Mikkel Meister

© Shutterstock & Ken Ikeda Madsen

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Köngulóin er sköpuð til að myrða

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is