Hópur vísindamanna frá McMaster University í Kanada ályktaði í rannsókn sinni að plágan í ensku höfuðborginni London hafi breiðst út um fjórum sinnum hraðar á 17. öld en á 14. öld, þegar plágan kom fyrst til Englands.
Þetta teymi vísindamanna sem samanstóð af tölfræðingum, líffræðingum og erfðafræðingum rannsakaði þrjár gerðir skriflegra heimilda:
Persónulegar erfðaskrár, kirkjubækur og opinberar dánartölur sem yfirvöld í Lundúnum skráðu niður.
Erfðaskrár sýna hraðari smitdreifingu
Opinberar dánartölur voru ekki skráðar í stórborginni fyrir 1538. Til að komast að því hve hratt sjúkdómurinn dreifðist á 14. öld báru sérfræðingarnir saman skráð andlát við fjölda ritaðra erfðaskráa meðan á pestinni stóð á 17. öld.
Tölurnar úr hvoru tveggja fylgdust að og vísindamenn litu því næst á aukningu í erfðaskrám frá 14. öld og niðurstaðan var greinileg: Á 14. öld í London tvöfaldaðist fjöldi smitaðra á 43 dögum, meðan tvöföldun smita á 17. öld var einungis 11 dagar.
Vísindamennirnir telja að meira þéttbýli í Lundúnum, verri lífsskilyrði og kaldara loftslag hafi skipt verulegu máli í þessari hröðu dreifingu smita.
Svartidauði barst tvisvar sinnum til Íslands á 15. öld, árin 1402 og 1495. Þetta var angi pestarinnar í Evrópu. Afleiðingar reyndust hræðilegar og talið er að um helmingur þjóðarinnar hafi látið lífið í farsóttunum.