Vísindamenn vinna baki brotnu við að finna mögulegar lausnir á þeim sorpvandamálum sem nú þrúga alla jörðina. Nú gætu þeir mögulega fengið aðstoð zophobas-lirfunnar sem stundum er nefnd ofurormurinn og er m.a. notuð til að fóðra sum gæludýr.
Hópur vísindamanna hjá Queenslandháskóla í Ástralíu hefur komist að því að þessar lirfur lifa kóngalífi á eintómu polystyreni, plastefni sem við þekkjum í formi frauðplasts sem m.a. er notað í einangrun, pökkun og fiskikassa.
Eins og annað plast brotnar polystyren seint niður og að auki molnar það auðveldlega og getur þannig valdið mengun bæði á landi og sjó, auk þess sem það hrannast upp á ruslahaugum.
Zophobas-lirfan framleiðir sérstakt ensím til að brjóta niður plastefnið polystyren. Það á nú að reyna að verksmiðjuframleiða.
Eitt markmið í lífinu
Það má kalla heppilegt að zophobas-lirfan skuli lifa fyrir það eitt að éta og þyngjast nógu mikið til að geta púpað sig og skriðið síðan úr púpunni sem bjallan zophorbas morio.
Í rannsóknastofutilraunum komust áströlsku vísindamennirnir að því að hamskiptin takast fullkomlega hjá tveimur af hverjum þremur lirfum sem einungis hafa nærst á polystyreni.
Þetta þýðir að lirfan gæti orðið einstæð ruslæta og veitt gríðarmikla aðstoð við að eyða úrgangi sem nú leggur mikið af mörkum til hnattrænnar hlýnunar.
Zophobas morio er bjalla og lirfur þeirra eru þekktar sem ofurormur, kóngaormur eða einfaldlega Zophobas. Ofurormar eru algengir í gæludýraiðnaði skriðdýra sem fæða, ásamt risamjölormum, sem eru mjölbjöllulirfur sem sprautaðar eru með hormóni.
Vísindamenn vilja gríðarstór lirfubú
Úti í náttúrunni lifir lirfan einkum á rotnum trjám, laufblöðum og dýraleifum.
Í tengslum við átið framleiðir lirfan sérstakt ensím í þörmunum og það virðist virka alveg jafn vel þegar hún lifir aðeins á plasti.
Meðal þeirra möguleika sem vísindamennirnir sjá fyrir sér er að koma á fót gríðarstórum lirfubúum með milljónum lirfa sem fóðraðar væru á polystyreni.
Hitt væri þó mun hagfelldara ef hægt væri að finna aðferð til að verksmiðjuframleiða hið einstaka þarmaensím lirfunnar. Þá mætti eyða þessum plastúrgangi með því að kurla hann og smyrja svo ensímblöndu yfir. Að því loknu mætti nota örverur til að umbreyta hinu niðurbrotna plasti í lífplast af annarri gerð.