Þegar farþegaskipið Titanic rakst á ísjaka árið 1912 tók yfirbakarinn Charles Joughin til óspilltra málanna.
Hann sendi 50 brauð upp á þilfar til ískaldra farþeganna og hélt svo niður í káetu sína til að fá sér viskíglas. Þessu næst hélt hinn 33 ára gamli bakari aftur upp á þilfar og tók að hjálpa konum og börnum niður í björgunarbáta.
Þegar röðin var komin að honum veitti hann öðrum farþega pláss sitt og snéri aftur til káetunnar til að drekka meira viskí.
Myndskeið – Sjáðu bakarann í ,,Titanic”
Fyrst þegar þilfarið var nánast autt og sjórinn farinn að renna yfir gólfið í káetunni, klöngraðist Joughin upp á ný og tók að varpa þilfarsstólum út yfir borðstokkinn til að aðstoða þá sem syntu um í sjónum.
Eftir enn eina heimsókn í káetuna klifraði Joughin loksins út á borðstokkinn á stefninu.
Þegar Titanic brotnaði í tvennt skömmu síðar sökk Joughin á bólakaf niður í sjóinn með skipinu. Þegar honum skaut upp, synti hann rólegur í tvo tíma í ísköldum sjónum, þar til honum var bjargað upp í björgunarbát.
Samkvæmt sérfræðingum lifði Joughin trúlega þessa þrekraun af vegna þess að hann var svo drukkinn að hann örvænti ekki og missti minni varma og orku fyrir vikið.