Spænskir vísindamenn hafa rannsakað hvernig trefjaríkt jurtafæði hefur áhrif á heilbrigði þarmanna – þar með talið gasframleiðslu.
Í rannsókninni var 18 karlmönnum á aldrinum 18-38 ára úthlutað annaðhvort hefðbundnu vestrænu mataræði eða mataræði sem samanstóð aðallega af jurtafæðu. Eftir eitt tímabil á öðru mataræðinu skiptu hóparnir yfir í hitt mataræðið.
Mennirnir skráðu svo hversu oft þeir prumpuðu dag hvern. Þegar þátttakendurnir fengu plöntumiðað mataræði prumpuðu þeir u.þ.b. 17 sinnum á dag en á kjötmataræðinu prumpuðu þeir u.þ.b. 10 sinnum á dag.
Plöntuprumpin voru ekki aðeins tíðari heldur innihéldu þær einnig allt að 50 prósent meira gas.
Hamingjusamir þarmar prumpa
Að sögn vísindamannanna er prump merki um góða heilsu. Mikið magn trefja úr ávöxtum, grænmeti og baunum nærir heilsueflandi bakteríur í þörmum og í tengslum við niðurbrot bakteríanna á trefjunum myndast lofttegundir eins og vetni, koltvísýringur og metan. Lofttegundirnar byggja upp þrýsting í þörmum og valda vindgangi.
Vetni, koltvísýringur og metan eru að mestu lyktarlaus og þess vegna lyktar prump grænmetisæta minna en hjá kjötætum. Illa lyktandi vindgangur stafar af brennisteinslofttegundum sem myndast fyrst og fremst í tengslum við meltingu brennisteinsinnihaldsefna í kjöti.