Lifandi Saga

Særður storkur leysti ráðgátuna um ferðir farfugla

Íbúar Evrópu veltu því fyrir sér í þúsundir ára hvað yrði um fuglana á veturna. Sváfu þeir vetrarsvefni eða tóku þeir búsetu í öðrum líkama? Skýringin kom fljúgandi með storki árið 1822.

BIRT: 10/12/2023

Þann 21. maí árið 1822, þegar þýski ríkisgreifinn Christian Ludwig von Bothmer skaut niður hvítan stork í grennd við þorpið Klütz í héraðinu Mecklenburg, sá hann sér til mikillar furðu að annar veiðimaður hlyti að hafa reynt sig við áður langfættan fuglinn.

 

Örmjó ör, alls 80 cm löng, hafði stungist gegnum háls fuglsins. Örin hafði gengið inn í öxlina og stungist út úr hálsinum, langleiðina upp við höfuðið. Von Bothmer furðaði sig á þessari sérkennilegu bráð og afhenti fuglinn manni sem sérhæfði sig í uppstoppun dýra.

 

Ríkisgreifann óraði á þessari stundu alls ekki fyrir að hann, þennan fallega vordag, hefði átt stóran þátt í að leysa eina af helstu ráðgátum náttúruvísindanna, þ.e. spurninguna um það hvar storkar og aðrir farfuglar dvelja vetrarlangt þegar þeir hverfa af norðurhveli jarðar á haustin.

„Hvert ættu þeir annars að vera að fara, ef ekki til tunglsins?“

Breski fræðimaðurinn Charles Morton (1627-1698).

Segja má að lausnin hafi fallið af himnum ofan með særða storkinum, lausn sem hafði verið leitað að í þúsundir ára.

 

Í dag vitum við að margar tegundir fugla fljúga til hlýrri vetrarheimkynna sinna sunnar á hnettinum á haustin og snúa aftur að vori. Allt fram yfir aldamótin 1800 vissi enginn fyrir víst hvert fuglarnir héldu.

 

Svölur koma sofandi til tunglsins

Frá upphafi vega höfðu fræðimenn velt vöngum yfir því hvað yrði um fuglana þegar þeir hurfu sjónum manna á haustin – og hvernig á því stóð að þeir sneru aftur á vorin.

 

Tilgáturnar voru margar og með augum okkar nútímamanna voru þær iðulega býsna langsóttar: Í fræðiritgerð frá árinu 1684 reyndi enski fræðimaðurinn Charles Morton til dæmis að færa rök fyrir því að svölur flygju til tunglsins og dveldu þar vetrarlangt.

 

„Hvert ættu þær annars að fara, ef ekki til tunglsins?“ spurði hinn orðhagi Morton.

 

Englendingurinn hafði meira að segja lagt á sig að reikna út hversu löngum tíma fuglarnir þyrftu að verja í mörg hundruð þúsund kílómetra leiðina til næsta nágranna jarðar, þ.e. tunglsins: Ef gert væri ráð fyrir að fuglarnir gætu flogið 200 km á klukkustund tæki flugferðin 60 daga hvora leið, að hans mati.

Fuglar breyttu sér í aðrar tegundir

Aristóteles var sannfærður um að sumir fuglar breyttu sér í aðrar dýrategundir á haustin. Aðrir voru þeirrar skoðunar að fuglarnir legðust í híði eða berðust við dverga.

Aristóteles: Fuglar breytast í aðrar tegundir

Forngríski vísindamaðurinn Aristóteles sagði garðaskottu breytast í glóbrysting á veturna. Á sama hátt taldi hann garðsöngvarann breytast í hettusöngvara, fugl með gráleitt fjaðraskraut.

Hómer: Fuglarnir börðust við dverga

Skáldið Hómer kynnti í fornöld kenningu sína þess eðlis að trönur flygju til Afríku á haustin þar sem þær berðu á dvergmönnum. Bardagarnir voru þá sagðir eiga upptök sín í því að trönurnar herjuðu á akurlönd dvergmannanna og rændu uppskerunni.

Magnus: Fuglarnir dvelja vetrarlangt í stöðuvötnum

Í ritverki sínu um sögu Norðurlanda frá 16. öld, staðhæfði erkibiskupinn Olaus Magnus frá Svíþjóð að svölur legðust í vetrardvala undir yfirborði stöðuvatna á haustin. Fuglarnir áttu að hvíla í leirnum á botninum þar til voraði og hlýnaði á nýjan leik.

Morton: Fuglar fljúga til tunglsins

Þessi lærði Englendingur fullyrti á 17. öld að svölurnar dveldu vetrarlangt á tunglinu. Ferðalagið þangað átti að taka svölurnar um 60 daga á um 200 km hraða á klukkustund, taldi hann.

Morton taldi fuglana geta náð þessum gífurlega hraða fyrir þær sakir að þessar löngu vegalengdir væru flognar í þunnu lofti án nokkurs loftviðnáms. Hann taldi að fuglarnir flygju langleiðina sofandi og vöknuðu svo þegar þeir skynjuðu kuldann sem stafaði af tunglinu.

 

Kenningin um að svölur flygju til tunglsins var í fullu samræmi við hugmynd sem var allsráðandi á dögum Mortons. Samkvæmt henni áttu allar plánetur sólkerfisins, svo og önnur himintungl, jafnvel sólin, að vera grösugar og sneisafullar af dýrum, með freyðandi vatnsföll og víðáttumikla skóga.

 

Algóður guð hefði tæplega verið að ómaka sig við það að skapa framandi hnetti í því eina skyni að hafa hnettina eyðilega og allslausa, hljóðuðu rökin.

 

Fuglar fella fjaðrir

Þar sem Morton benti á tunglið sem sennilegan vetrardvalarstað svalanna hafði gríski heimspekingurinn og vísindamaðurinn Aristóteles þegar á 4. öld fyrir Krist látið sér detta í hug aðra skýringu. Í tíu binda verki sínu „Historia animalium“ (Rannsóknir á dýrum) sem álitið var vera fremsta ritverk um náttúruna allt fram á miðaldir, lýsti Grikkinn hartnær 140 fuglategundum.

 

Aristóteles sagði storkinn leggjast í híði á veturna. Þegar svölurnar bar á góma taldi Grikkinn skýringuna vera eilítið flóknari: Á veturna sagði hann þær fella fjaðrirnar og dvelja vetrarlangt inni í múrum eða trjám undir vatnsborði.

Nú á dögum eru þúsundir friðaðra storka skotnir niður á leið þessara farfugla frá Afríku til Evrópu.

Aristóteles sagði reyndar allt öðru máli gegna um garðaskottu og glóbrysting en hann áleit þá fyrrnefndu skipta um fjaðurham á veturna og breytast í síðargreindu fuglategundina. Á sama hátt taldi hann garðsöngvarann breytast í hettusöngvara á veturna, annan söngfugl sem þyldi betur vetrarkuldann á norðurslóðum.

 

Í dag velkjast fuglafræðingar ekki í vafa um að garðaskottan sé farfugl og fljúgi einkar langar vegalengdir, alla leiðina til Nílar, suður af Saharaeyðimörkinni í Afríku. Glóbrystingurinn ver köldu vetrarmánuðunum á hinn bóginn í Vestur- og Suður-Evrópu, svo hugmyndir Aristótelesar hafa ekki verið algerlega úr lausu lofti gripnar.

 

Gæsir vaxa á trjánum

Sú hugmynd, að fuglar gætu tekið á sig aðra mynd, lifði áfram með mönnum svo öldum skipti. Í ritverki sínu „Ornithologia“ frá árinu 1603 segir ítalski náttúruvísindamaðurinn Ulisse Aldrovandi frá stórfurðulegu „gæsatré“ sem fæðir af sér helsingjanef, þ.e. lítil krabbadýr sem sjást oft í þéttum þyrpingum á rekaviði og skipsflökum.

 

Ítalinn taldi helsingjanefin vera helsingja- og margæsaunga sem breyttust í fullvaxta gæsir þegar liði á sumarið og hausta tæki. Helsingjar og margæsir eru farfuglar sem verpa á norðlægum slóðum sem Ulisse þekkti ekkert til á þessum tíma og fyrir vikið hafði hann enga þekkingu á eggjum gæsanna og ungum þeirra.

 

Ef helsingjanef væri ávöxtur, hlaut gæsin, eðli málsins samkvæmt, einnig að vera ávöxtur. Þetta hentaði kaþólikkum samtímans afar vel, því kristnir menn máttu ekki leggja sér kjöt til munns á föstunni en gæsir mættu þeir þá mæta vel snæða.

Ef storkurinn gerir sér hreiður á þaki húss, segir þjóðtrúin það koma í veg fyrir að eldingu slái niður í húsið.

Storkurinn kemur með ungabörnin

Samkvæmt þjóðtrúnni færir storkurinn okkur hamingju og einnig barnalán. Allt fram á 20. öld tíðkaðist að útskýra fyrir börnum tilurð hvítvoðunga á þann veg að storkurinn kæmi með þau, umfram það að segja börnum sannleikann.

 

Árið 1907 var innleitt bann gegn því að kenna skólabörnum í Kaupmannahöfn að storkurinn kæmi með ungabörnin. Þess í stað var kennurunum uppálagt að leiða nemendur sína í allan sannleikann um það hvernig börnin yrðu til.

 

Bann þetta fór fyrir brjóstið á mörgum, því goðsögnin um storkinn hafði leyst mörg viðkvæm vandamál öldum saman og sleppt kennurum við að nefna staðreyndir fjölgunarinnar og að ræða við ungviðið um blómin og býflugurnar. Allt frá því á 15. öld gengu sögusagnir í París um að storkurinn kæmi fljúgandi með hvítvoðungana og léti þá síga niður gegnum skorsteininn, líkt og við átti um jólasveininn og jólagjafirnar.

 

Goðsögnin um að storkurinn sæi okkur fyrir börnum á hugsanlega rætur í Eddukvæðinu „Spádómur völvunnar“. Þar var maðurinn gerður úr aski og konan úr elrisviði en hins vegar var það storkur sem sá fyrir sálinni.

 

Í ýmsum trúarbrögðum, þjóðsögum og ævintýrum er storkurinn sagður boða hamingju og er hann m.a. talinn tengjast komu vorsins, spá fyrir um langlífi og góða atburði.

Svölur sofa á botni vatna

Kenning Aristótelesar um svölurnar sem leggjast í híði undir vatnsborðinu átti eftir að verða lífseig. Í ritverkinu „Historia de gentibus septentrionalibus“ (Saga norrænna þjóða) frá árinu 1555 ritaði erkibiskupinn Olaus Magnus, hvernig þyrpingar af svölum söfnuðust saman á haustin yfir fljótum og stöðuvötnum. Þar þyrptust fuglarnir saman í einum hnapp, vængur mót væng og köfuðu síðan undir vatnsborðið í einni samofinni kös.

 

Þar sofnuðu þeir svo og dveldu sofandi á botninum fram til næsta vors. Ef marka má erkibiskupinn lentu veiðimenn nefnilega oft í því að fá svölur í net sín. Óreyndir fiskimenn áttu það til að taka svölurnar með sér í land í von um að þær lifnuðu þar við en þeir reynslumeiri skildu fuglana aftur á móti eftir í vatninu, því öðruvísi vissu þeir að þær kæmust ekki lífs af.

 

Tilraun kostaði 20 fugla lífið

Landi erkibiskupsins, sænski náttúruvísindamaðurinn Carl von Linné, var einnig þeirrar skoðunar að svölurnar legðust í dvala á botni stöðuvatns. Þessi sænski vísindamaður hlaut alþjóðlega viðurkenningu sem ungur maður, á árunum upp úr 1730, fyrir flokkunarkerfi sitt á plöntum, dýrum og steinum.

 

Í fyrirlestrum sínum hafði hann mikla unun af að segja söguna af því þegar hann hafði eitt sinn barið augum landsvölur í reyrþykkni. Þar sátu svörtu fuglarnir með langa hálsinn og oddhvössu vængina sína á sefi sem bylgjaðist undir þeim og hurfu því næst undir vatnsyfirborðið.

Storkur með spjót gegnum hálsinn leysti ráðgátuna um ferðir fuglanna á veturna.

Þegar forvitnar sálir ákváðu að hafa endaskipti á nokkrum stöðuvötnum án þess svo mikið sem að rekast á eina svölu gaf von Linné þessa hugmynd sína hins vegar upp á bátinn. Skoski vísindamaðurinn John Hunter átti einnig þátt í að hrekja kenninguna um fuglana í stöðuvötnunum en hann gerði tilraun undir lok 18. aldar sem afsannaði tilgátuna með öllu.

 

Hann hleypti heilum hópi af svölum inn í lokað rými að hausti til, þar sem þær höfðu aðgang að nægilegri fæðu og vatnsbaði sem átti að geta enst fuglunum allan veturinn. Eftir því sem leið á tímabilið hurfu fuglarnir hins vegar hver á fætur öðrum, allir nema einn sem Hunter að lokum sleppti úr prísundinni. Tilraunin hafði í raun engu svarað.

 

Hvernig Carl von Linné og áður Aristóteles fengu þá hugmynd að svölur legðust í dvala undir vatnsborðinu, veit enginn. Sennilega hefur skýringin falist í því að fyrstu svölur vorsins sjást gjarnan við stöðuvötn, þar sem þær fljúga lágt yfir vatnsborðinu í leit að skordýrum.

 

Haldbærar sannanir fást í Þýskalandi

Leyndardómurinn um fuglana sem hverfa sporlaust á vorin fór smám saman að upplýsast árið 1797. Í ritverkinu „A History of British Birds“ (Saga fugla í Bretlandi) upplýsti enski náttúruvísindamaðurinn Thomas Bewick, að skipstjóri nokkur hefði eitt sinn sagt sér að hann hefði eitt vorið séð risastóran hóp af svölum fljúga í norðurátt, á stað milli spænsku eyjanna Menorca og Mallorca.

 

Sökum þessarar frásagnar, svo og sagna annarra sjónarvotta, dró Bewick þá ályktun að fuglarnir „yfirgefi okkur á veturna þegar land okkar getur ekki lengur séð þeim fyrir réttu, náttúrulegu fæðunni“.

 

Ýmsir aðrir fræðimenn tóku undir þetta og staðhæfðu, líkt og Bewick, að tilteknar fuglategundir fljúgi suður á bóginn og dvelji veturlangt í hlýrra loftslagi í Afríku þar sem þeir hafi aðgang að ríkulegri fæðu. Á vorin snúi fuglarnir svo aftur til baka, samkvæmt farfuglakenningunni sem þó hafði ekki verið rökstudd með haldbærum sönnunargögnum.

Náttúrusagnfræðingurinn Thomas Bewick lýsti því í riti sínu að sumir fuglar á Bretlandi flygju suður á bóginn á veturna.

Í maímánuði árið 1822 féll endanlega sönnunin svo af himnum ofan í Þýskalandi. Ríkisgreifinn Christian Ludwig von Bothmer skaut hvíta storkinn sem ör hafði þá þegar verið skotið í gegnum hálsinn á. Við nánari eftirgrennslan við háskólann í Rostock kom í ljós að örin ætti rætur að rekja til miðbiks Afríku.

 

Fuglinum ólánsama hafði tekist að fljúga rösklega 5.000 km leið frá meginlandi Afríku með 80 cm langa ör í hálsinum og falla svo beint inn í vísindasöguna. Þessi særði storkur sem Þjóðverjarnir nefndu „Pfeilstorch“ (örvarstork), sá fyrir sönnunargögnum á árstíðabundnum flutningum fuglanna. Í ágúst árið 1822 var fuglinum svo komið fyrir í dýrafræðisafninu í háskólanum í Rostock, uppstoppuðum og enn með örina í hálsinum.

 

Það sem eftir lifði 18. aldar áttu 24 aðrir „örvastorkar“ eftir að finnast í Þýskalandi og allt tal um vetrarhíði, töfrabrögð og mánaflug stöðvaðist líkt og fuglasöngur að hausti.

Lestu meira um sögu fuglafræðinnar

Peter Bircham: A History of Ornithology, William Collins, 2014

 

Tim Birkhead: The Wisdom of Birds: An Illustrated History of Ornithology, Walker Books, 2008

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Stine Overbye

© Ludovisi Collection/Jastrow & Shutterstock,© Marie-Lan Nguyen & Shutterstock,© World History Archive/Imageselect & Shutterstock,© Shutterstock,© Birdlife.org,© Zoologische Sammlung der Universität Rostock & Shutterstock,© Thomas Bewick & Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

Lifandi Saga

Hvers vegna brann Hindenburg? 

Náttúran

Gætu hvítabirnir lifað af á Suðurskautslandinu?

Lifandi Saga

Hvað voru fyrsta og annað ríkið?

Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Lifandi Saga

Hvers vegna geta kosningar verið svona ótrúlega jafnar?

Náttúran

Hvers vegna hafa dýr svona mismunandi augu?

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Náttúran

Geta hvalir gleypt fólk?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is