Rafálar veiða í hópum eins og úlfar.

Samvinna skilar afli. Fyrir rafmagnaða ála þýðir það að rafstuðið verður tífalt sterkara og lamaðir fiskar margfalt fleiri.

BIRT: 11/10/2023

LESTÍMI:

2 mínútur

Rafmagnaðir álar gefa frá sér sterkustu rafstuð dýraríkisins með allt að 860 volta spennu sem er meira en nóg til að lama litla fiska sem álarnir geta því næst innbyrt í ró og næði.

 

Þótt þessi veiðiaðferð sé ein og sér nokkuð háþróuð er henni beitt á enn þróaðri hátt sums staðar í Amazonfljóti í Suður-Ameríku. Dýrafræðingar hafa uppgötvað að hópar rafála veiða saman og ná þannig enn betri árangri.

 

Myndband: Sjáðu sameiginlegt rafstuð gefa meira afla

Rafmagnaðir álar leggja saman krafta sína þannig að rafstuðið verður miklu sterkara. Eftir rafstuðið rignir lömuðum fiskum sem álarnir háma í sig.

Þegar lítið vatn er í fljótinu reka stórir hópar ála, allt upp í hundrað, mikið af smáfiskum upp á grynningar við fljótsbakkana.

8.600 volt er spennumunurinn að baki rafstuða sem álar skapa þegar þeir veiða í hópum við bakka Amazonfljóts.

Þar taka um tíu álar sig út úr hópnum og lauma sér inn í smáfiskaþvöguna þar sem þeir gefa frá sér rafstuð allir í senn. Þannig ná þeir að skapa allt upp í 8.600 volt.

 

Þetta rafstuð er svo öflugt að það þeytir mikilli dembu smáfiska upp úr vatnsborðinu. Þegar þessum fiskum rignir svo aftur niður í vatnið vita hinir álarnir að máltíðin er til reiðu, synda inn á grynningarnar og taka til matar síns.

 

Að átveislunni lokinni taka álarnir til við að smala saman nýrri hjörð smáfiska. Þannig geta þeir haldið áfram jafnvel klukkustundum saman og taldar hafa verið allt upp í sjö árásir.

Rafálar fyrirfinnast aðeins í Suður-Ameríku. Þeir geta orðið rúmlega tveir metrar að lengd og allt að 20 kg að þyngd. Raflíffærin taka fjóra fimmtu hluta af aftasta hluta líkamans.

Dýrafræðingar hjá Amazonrannsóknastofnun Brasilíu uppgötvuðu þessa veiðiaðferð fyrst hjá tegundinni Electrophus voltal en síðan hafa birst frásagnir af því að Electrophus electricus nýti sér hana líka.

 

Dýrarfræðingarnir hyggjast nú rannsaka erfðamengi álanna í leit að genum sem kynnu að tengjast þessum hópveiðum og reyna að bera slík gen saman við samsvarandi gen annarra dýra sem veiða í hópum, t.d. hvala.

 

Á sviði dýrafræðinnar eru þetta stórtíðindi því skipuleg hópveiði er afar sjaldséð hjá öðrum dýrum en spendýrum.

BIRT: 11/10/2023

HÖFUNDUR: Jens E. Matthiesen

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.