Þess vegna ættir þú að vita sannleikann um sykur
Sykur hefur verið sakaður um of mikið og fyrir vikið hafa margar mýtur komið fram eins og:
Sykur er meira ávanabindandi en fíkniefni.
Ávaxtasykur fitar alveg eins og venjulegur sykur.
Sykur leiðir af sér sykursýki.
En hvað er rangt og hvað ekki? Við svörum þessu hér.
SYKUR ER MEIRA VANABINDANDI EN EITURLYF - NEI
Ástæðan er fólgin í hitaeiningaþéttninni. Ekki sykur.
Þetta segja að minnsta kosti vísindamenn við Maastricht háskólann í Hollandi sem hafa kannað þann eiginleika fæðutegunda að framkalla það sem líkist fíkn í mönnum.
Alls 95% þeirra 1.500 einstaklinga sem þátt tóku í rannsókninni fundu fyrir minnst einu einkenni matarfíknar, t.d. ofáti eða því að fólk kaus að borða umfram það að leggja stund á félagslegt samneyti en þetta tengdist sjaldnast sykri.
Alls 30% upplifðu vanda tengdan söltum, feitum mat en 25% fundu fyrir fíkn í sæta og fituríka fæðu. Sykurrík fæða sem fól í sér litla fitu, olli hins vegar einungis vanda meðal fimm prósenta þátttakendanna.
Sykur sendir sælutilfinningu út í frumurnar
Bæði sykur og kókaín leysa úr læðingi dópamín sem verðlaunar frumurnar, en ólíkt kókaíni eru áhrif sykurs mun minni og tryggir að dópamínið nái jafnvægi aftur.
Þrjár heilastöðvar að störfum
Verðlaunabraut heilans ber ábyrgð á því að kynlíf, matur og félagslegt samneyti færir okkur vellíðan. Kerfi þetta samanstendur af undirslæðunni, safnkjarnanum og forennisberki.
Matur leysir úr læðingi dópamín
Matur gerir það að verkum að taugafrumur í undirslæðunni leysa úr læðingi dópamín sem sendir boð um vellíðan og umbun áfram í kerfinu. Mikið magn dópamíns berst til baka til taugafrumnanna, m.a. þegar við hættum að borða.
Kókaín heftir brautirnar
Kókaín kemur í veg fyrir að dópamín streymi til baka með því að hefta flutningsbrautirnar en um er að ræða brautir sem að öllu jöfnu taka aftur upp dópamín. Fyrir bragðið verður mikil þéttni í dópamíninu, víman verður mikil og hamingjutilfinning fæst.
Sú tilgáta að sykur væri meira vanabindandi en kókaín fékk byr undir báða vængi eftir tilraun eina sem gerð var með rottur.
Þessi tilraun var gerð við háskólann í Bordeaux í Frakklandi og leiddi hún í ljós að nagdýrin kusu frekar reyrsykur en kókaín. Mjög margir vísindamenn hika engu að síður við að flokka sykur með kókaíni, ekki hvað síst sökum þess að eiturlyfjaneytendur fá mjög slæm fráhvarfseinkenni þegar þeir fara í afvötnun.
Þetta á ekki við um fólk sem hættir að neyta sykurs.
Þess má einnig geta að rotturnar í tilrauninni fengu hreinan sykur en slíkt á sjaldnast við um fólk og þetta kann að hafa haft áhrif á virkni sykursins, m.a. vegna þess að hitaeiningaþéttnin verður miklu meiri þegar sykurs er neytt í hreinu formi.
ÁVAXTASYKUR ER JAFN FITANDI OG VENJULEGUR SYKUR - NEI
Vísindamenn birtu rannsókn í breska tímaritinu The Journal of Nutrition sem gekk út á það hvort okkur bæri að forðast ávexti sökum sykurmagnsins í þeim.
Fylgst var með þyngd og matarvenjum rösklega 18.000 kvenna í 16 ár og niðurstöðurnar leiddu í ljós að ávaxtaát minnkaði hættuna á offitu og þyngdaraukningu sem nam 13 hundraðshlutum.
Sykri í ávöxtum fylgja trefjar, vatn, andoxunarefni og önnur næringarefni sem hafa áhrif á meltinguna. Í ávöxtum eru tiltölulega mikil mettunaráhrif á hverja hitaeiningu en afurðir sem innihalda mikið magn af viðbættum sykri seðja á hinn bóginn slælegar og gera það að verkum að við borðum meira.
Hreinn sykur
- Lítil mettunaráhrif
- Engin næringaráhrif
- Auðvelt er að borða ofgnótt af viðbættum sykri
Sykur í ávöxtum
- Seður vel
- Felur í sér vítamín og steinefni
- Inniheldur trefjar sem tryggja hægari upptöku sykursins
Þá benda rannsóknir jafnframt til þess að trefjar og andoxunarefni í ávöxtum ýti undir jákvæða þarmaflóru sem felur í sér gerla sem hafa víxlverkandi áhrif á efnaskiptin og geta gagnast okkur við að halda líkamsþyngdinni í skefjum.
SÆT FÆÐA LEIÐIR AF SÉR SYKURSÝKI - SUMPART NEI
Hár líkamsþyngdarstuðull, hár blóðþrýstingur, mikið kólesterólmagn og fjölskyldusaga um sykursýki auka hættuna á sykursýki.
Í rannsókn einni sem gerð var á árinu 2017, þar sem safnað var saman vitneskju úr fyrri rannsóknum, kom í ljós að engin sýnileg vensl væru á milli sykurneyslu annars vegar og sykursýki hins vegar, þó svo að sykurneysla geti haft óbein áhrif á þróun áunninnar sykursýki.
Sykursýki veikir getu líkamans til að framleiða insúlín og að hafa hemil á blóðsykrinum og þetta leiðir oft af sér of háan blóðsykur. Sykursýki er einkar flókið fyrirbæri og þó svo að sykur kunni að eiga hluta af vandanum stafar of hár blóðsykur ekki endilega af of miklu sykurmagni í fæðunni.
Sökudólgurinn er fyrst og fremst óheilbrigðir lifnaðarhættir en sem dæmi má nefna að þeim sem eru með fjölskyldusögu um sykursýki tekst oft að halda sjúkdóminum í skefjum með því að leggja stund á heilsusamlegt líferni og að forðast neyslu aukalegra hitaeininga sem safnast fyrir sem fita.
Sykurríkir ávextir geta beinlínis minnkað hættuna á sykursýki
Í einni rannsókninni kom fram að sykurbættir drykkir auka hættuna á sykursýki um allt að 30 af hundraði en vísindamennirnir veittu því athygli að hættan minnkaði til muna þegar líkamsþyngdarstuðullinn var tekinn til greina og þetta styður einmitt tilgátuna um að það séu öðru fremur offita og ofþyngd sem eigi sök á sykursýki, umfram sjálfan sykurinn.
Kínversk rannsókn leiddi enn fremur í ljós að sykurríkir ávextir gætu beinlínis minnkað hættuna á sykursýki. Fylgst var grannt með hálfri milljón einstaklinga yfir sjö ára tímabil og rannsóknin leiddi í ljós að dagleg neysla ávaxta hafði í för með sér 12 prósent minni hættu á sykursýki.
Þátttakendum tilraunarinnar sem voru með sykursýki í upphafi tilraunarinnar, var jafnframt 13-28% síður hætt við að þróa með sér ýmsa sykursýkistengda kvilla ef þeir snæddu ávexti minnst þrisvar í viku.