Japanskir vísindamenn hjá Tokyoháskóla hafa skapað öflugasta segulsvið sem nokkru sinni hefur sést í innanhússtilraun.
Segulsviðið var svo sterkt að það sprengdi tækjabúnað vísindamannanna.
Styrkurinn fór langt fram úr væntingum vísindamannanna og náði upp í 1.200 tesla. Þeir höfðu aðeins gert ráð fyrir 700 tesla.
Rafsegullinn myndaði ótrúlega kraftmikið segulsvið upp á 1.200 tesla og fyrir bragðið brunnu tæki vísindamannanna yfir.
Segulsvið upp á 1.200 tesla er 50 milljón sinnum öflugra en segulsvið jarðar eins og við upplifum það – og um leið 120.000 sinnum sterkara en venjulegur ískápssegull.
Þrýstu saman 4 milljónum ampera í rafsegul
Í tilrauninni sendu vísindamennirnir straum upp á 4 milljónir ampera – sem er mörghundruðfaldur straumur eldingar – í gegnum rafsegul með litlum kjarna sem þrýstist æ meira saman.
Segulsviðið í kjarnanum þrýstist þannig saman í æ smærra rými þar til styrkurinn náði 1.200 tesla.
1.200 tesla er 50 milljón sinnum öflugra en segulsvið jarðar eins og við upplifum það.
Kröftugra segulsvið hefur einungis verið skapað utandyra, þegar m.a. rússneskir vísindamenn notuðu sprengiefni til að pressa kjarna rafseguls saman. Slíkar tilraunir hafa skapað segulsvið upp á 2.800 tesla en þetta er óhugsandi innandyra.
Þótt segulsviðið entist ekki nema í innan við einn þúsundasta úr sekúndu er það samt lengri tími en þekkist úr samsvarandi tilraunum.
Eðlisfræðingar hyggjast nýta svo öflugt segulsvið til að rannsaka öreindir. Til viðbótar er hægt að nýta það í samrunaorkuverum þar sem mjög öflug segulsvið eru notuð til að halda eldsneyti svífandi í samrunaofni.