Gervigreindartölvur geta leyst æ fleiri verkefni fyrir okkur og bráðum getum við látið þær stjórna bílunum okkar.
Markmiðið er að þessi sjálfstjórnarkerfi verði betri og traustari bílstjórar en menn og það er komið vel á veg.
Tölvurnar geta fylgt umferðarreglum, virt hámarkshraða og fylgst með umhverfinu.
Hjá Microsoft telja menn tölvurnar þó enn skorta mikilvægan eiginleika. Þær verða nefnilega ekki hræddar.
Þá hæfni hyggjast vísindamenn nú kenna tölvunum.
Í tilraun einni var tölva látin fylgjast með þátttakendum sem fóru í ökutúr í umferðarhermi.
Til að fylgjast með ótta fólksins var notaður púlsmælir, enda gefur púlsinn einfalda mælingu á viðbragðsstöðu líkamans.
Gervigreindartölvan gat nú tengt ákveðna atburði í ökuferðinni við óttaviðbrögð bílstjórans, m.a. í þeim tilvikum sem eitthvað fór úrskeiðis.
Sjálflærandi kerfi eru mikið notuð í gervigreind, þar sem tölvur læra af eigin reynslu.
Á eftir var tölvan sjálf látin aka sömu leið og hún reyndist nú fara gætilegar á þeim stöðum þar sem mannverurnar höfðu sýnt óttamerki.
Tölva í sjálfkeyrandi bíl verður varfærnari þegar hún hefur lært hvaða aðstæður hækka púlsinn hjá mönnum.
Færri óhöpp
Vísindamennirnir báru því næst saman þessa gervigreindartölvu og aðra sem einvörðungu hafði lært af sínum eigin mistökum.
Í ljós kom að tölvan sem hafði lært af mannlegum mistökum var miklu fljótari að ná upp öryggi í akstri og hún hafði 25% færri óhöpp að baki þegar báðar höfðu náð sömu færni.