Hvalháfurinn er sagður geta orðið 18 metra langur og hátt í 30 tonn. En nú er hann í útrýmingarhættu.
Þrátt fyrir stærð sína og stöðu sem stærsti fiskur heimshafanna hefur stofnstærðin minnkað um 50% síðustu 75 árin. Árið 2016 var þessi gæflyndi risasfiskur opinberlega settur á listann yfir hákarlategundir í útrýmingarhættu.
Nú afhjúpar ný rannsókn áður hulda dánarorsök sem leynist skammt undir yfirborði sjávar: Stór flutningaskip gætu sem sé verið hvalháfunum mun hættulegri en talið hefur verið.
Kjölurinn plægir niður í sjóinn
Hvalháfar lifa á svifdýrum og smáfiskum, sem þeir sía úr sjónum í stórum kjafti. Af því leiðir auðvitað að þessir stóru fiskar verja nærri helmingnum af tíma sínum rétt undir yfirborðinu, þar sem mikið af þessu smádýrum heldur sig í sólarljósinu.
Fyrir vikið stafar hvalháfum mikil hætta af kjölum flutningaskipa sem geta verið nokkur hundruð metra löng og plægja sig í gegnum sjóinn á mikilli ferð, oft tífalt hraðar en fiskar ná að synda.
Vísindamennirnir segja árekstur skipa og hvalháfa miklu algengari en talið hefur verið.
En það er erfitt að greina árekstur stóru fraktskipanna og hvalháfanna. Vísindamennirnir segja að þessir stóru fiskar forði sér trúlega niður í djúpið eftir að hafa orðið fyrir barðinu á kili mörg þúsund tonna flutningaskips.
Misstu samband við 24% háfanna
Vísindamennirnir settu rafræna senda á nærri 350 hvalháfa til að fylgjast með ferðum þeirra í hitabeltishöfunum.
Svo báru þeir ferðaleiðir hvalháfanna saman við viðtækt net farleiða, sem átti upphaflega að koma í veg fyrir árekstur skipa. Þannig fengust upplýsingar um farleiðir allra skipa, sem eru nægilega stór til að geta banað svo stórum fiskum.
Rafrænir sendar gerðu kleift að fylgjast með ferðum hvalháfanna gegnum gervihnetti.
Í ljós kom að stór hluti ferða hvalháfanna var einmitt á siglingaleiðum stóru fraktskipanna. Mestu hættusvæði reyndust vera Mexíkóflói, Persaflói og Rauðahafið en um þessi svæði eru skipaferðir mjög tíðar.
Á þessum slóðum misstu menn sambandið við heil 24% af þeim hvalháfum sem báru sendana. Líklegustu ástæðuna segja vísindamennirnir vera þá að háfarnir hafi orðið fyrir skipi, beðið bana og síðan sokkið til botns.