Í fyrsta sinn sjá stjörnufræðingar nú nýja plánetu verða til. Vísindamenn hjá PSL-háskóla í Frakklandi hafa notað VLT-sjónaukana til að ná myndum af tilurð nýrrar plánetu við stjörnuna AB Aurigae í um 250 ljósára fjarlægð frá jörðu.
Kringum stjörnuna er spírallaga skífa úr gasi og ryki. Vísindamennirnir segja þetta merki þess að plánetuvísar hafi myndast og plægi sig í gegnum ryk- og gasskýið, svipað því þegar bátur á siglingu myndar bylgjur út frá sér á yfirborði vatns.
Hnútur afhjúpar upphafið
Innarlega í spíralnum hafa vísindamennirnir greint lítinn hnút þar sem rykið er mjög þétt og þarna telja þeir að nýr vísir að plánetu sé að verða til.
Í rykspíralnum kringum stjörnuna AB Aurigae má greina lítinn hnút (í hringnum) nálægt miðjunni. Hér er ný pláneta að myndast
Fjarlægðin frá stjörnunni er um 4,5 milljarðar kílómetra eða svipuð og frá sólinni út til Neptúnusar.
Eykur skilning á sólkerfinu okkar
Þessi nýja uppgötvun getur aukið skilning manna á því hvernig ryk og gas þéttist í plánetur og jafnframt hvernig plánetur sem þegar hafa myndast geta átt þátt í myndun nýrra. Því fylgir einnig aukin vitneskja um hvernig pláneturnar í sólkerfi okkar urðu til.
Nú hlakka vísindamennirnir til að skoða þennan plánetuvísi í ELT (Extra Large Telescope) sem ESO er nú að reisa í Chile og á að komast í gagnið 2025. Þá munu sjást fleiri smáatriði en unnt er að greina með VLT.