Vítamínið ræsir ónæmisfrumurnar sem ráðast gegn veirum og hjálpa líkamanum að taka til sín mikilvæg næringarefni.
D-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki varðandi margvíslega starfsemi líkamans og skortur á því hefur á síðari árum verið talinn tengjast margvíslegum ákomum, allt frá beinþynningu til sjálfsofnæmissjúkdóma.
Nú sýnir ný rannsókn frá Suður-Ástralíuháskóla að skortur á þessum smágerðu sameindum geti líka aukið hættuna á heilahrörnun og þar með elliglöpum.
Hægt að koma í veg fyrir sjúkdóma
Vísindamennirnir skoðuðu vandlega m.a. heilaskannanir og blóðsýni úr alls 294.514 einstaklingum í stórum gagnabanka í Englandi.
Þannig uppgötvaðist samhengi milli mjög lítils D-vítamíns í blóði eða undir 25 nanómólum í hverjum lítra og aukinnar hættu á bæði blóðtappa og heilahrörnun.
ATH: Stærð D-vítamínskammta er mikilvæg. Spyrðu alltaf lækninn ráða áður en þú ákveður að taka aukaskammta af D-vítamíni.
Við rannsóknina var eðlilegt D-vítamínmagn skilgreint sem meira en 50 nanómól í lítra af blóði. Og samkvæmt niðurstöðunum getur það haft afgerandi þýðingu ef mjög lágu D-vítamíninnihaldi er lyft upp í eðlileg mörk.
„Við skoðun á ensku sýnunum gátum við greint að mögulega hefði verið unnt að koma í veg fyrir allt að 17% elliglapatilvika ef magninu hefði verið lyft í eðlilega hæð,“ sagði Elina Hypponen forsvarskona rannsóknarinnar í fréttatilkynningu.
Prófessor: D-vítamín eitt af mörgu
Tölur frá WHO gefa til kynna að á heimsvísu þjáist 55 milljónir manna af elliglapasjúkdómum og sú tala er álitin fara hraðvaxandi á næstunni, þannig að um 10 milljónir bætist við árlega.
Vísindamenn um allan heim eru þess vegna að leita að lausnum sem gætu komið í veg fyrir að ólæknandi og síversnandi sjúkdómar nái að hreiðra um sig. D-vítamínskortur gæti verið einn þeirra þátta sem þyrfti að skoða í samhenginu.
Það segir Gunhild Waldemar, prófessor í taugafræði við Kaupmannahafnarháskóla og yfirmaður danska þekkingarsetursins á sviði elliglapasjúkdóma. Hún kom ekki að vinnslu þessarar nýju rannsóknar en er ekki hissa á niðurstöðunum sem hún segir „öfluga sönnun þess að D-vítamínskortur sé áhættuþáttur varðandi elliglöp.“
„Við höfum áður séð minni rannsóknir sem bentu til að samhengi væri milli skorts á D-vítamíni og hættu á elliglapasjúkdómum. En þetta er gríðarstór rannsókn sem nær til mjög margra, þannig að þetta er áhugavert,“ segir hún.
Sjáðu listann: Margir þættir hafa áhrif á áhættuna
D-vítamínskortur er aðeins af mörgum þáttum sem geta aukið áhættu á elliglöpum. Það útskýrir Gunhild Waldemar prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og yfirmaður danska þekkingarsetursins á sviði elliglapasjúkdóma. Hún segir genin líka hafa mikil áhrif á áhættuna. Auk D-vítamínskorts hafa þessir þættir líka áhrif á hættuna á þróun heilahrörnunarsjúkdóma:
- Of hátt kólesteról
- Sykursýki
- Of hár blóðþrýstingur
- Hreyfingarleysi
- Áfengi
- Reykingar
- Minnkuð heyrn
Hún undirstrikar þó að þarna sé ályktunin dregin á grundvelli mikils skorts á D-vítamíni og að þetta vítamín sé langt í frá eini áhættuþátturinn, vilji maður sjálfur gera eitthvað til að komast hjá heilahrörnun.
„Það má mæla með því að fá mælingu á D-vítamíni hjá lækni til að sjá hvort það er langt undir mörkum. En maður skyldi ekki reikna með að það sé hægt að komast hjá elliglöpum með því einu að taka D-vítamín. Þarna eru margir fleiri áhættuþættir, svo sem áfengi, reykingar og hreyfing,“ segir hún.
Jafnframt leggur hún áherslu á að sumum áhættuþáttunum getum við ekki með nokkru móti haft stjórn á.