Pappírarnir hrannast upp á skrifborðinu og heima fyrir bíða börnin, svöng og óþolinmóð.
Við vitum að réttast væri að narta í grænmeti en samt grípum við pylsu með öllu og súkkulaðistykki á heimleiðinni.
Við erum ekki ein um þetta. Þörfin fyrir óholla fæðu á annasömum degi á sínar eðlilegu skýringar.
Matarlystin stjórnast af hormónum
Í aðstæðum sem einkennast at streitu losnar hormónið CHR í líkamanum, sem bælir sultartilfinninguna.
Líkamanum hugnast nefnilega ekki að eyða tíma í að finna og melta fæðu, heldur einbeitir hann sér alfarið að því að ráða við gildandi aðstæður.
Eftir streituvaldandi aðstæðurnar verður hins vegar breyting sem felst í því að líkaminn framleiðir sykurstera og hungurhormónið ghrelín, sem örvar sultinn og vekur upp löngun í mat.
Þegar við höfum eytt orku í að ljúka erfiðu máli fáum við þörf fyrir að fylla líkamann af nýrri orku.
Ókosturinn er sá að þegar streitufylltu aðstæðurnar vara lengi verður sykursteramagnið stöðugt of hátt og fyrir vikið langar okkur sífellt að snæða meira.
Óhollustan freistar
Mikil þörf verður fyrir stóra máltíð með mikilli fitu og ofgnótt sykurs, því slík fæða er auðmeltanleg og virkjar fyrir vikið umbunarkerfi heilans hratt.
Máltíðin hefur róandi áhrif sem slær um stundarsakir á streitutilfinninguna.
Borðað sér til hugarhægðar
Við erum þó ekki öll steypt í sama mótið. Sumir, þó einkum karlar, missa algerlega matarlystina þegar streitan nær á þeim tökum og léttast fyrir vikið.
Öðrum, aðallega konum, er sérlega hætt við að borða of mikið þegar streita gerir vart við sig. Þetta sama fólk leitar huggunar í mat og reynir fyrir vikið að hafa stjórn á tilfinningum sínum með fæðu.