12 sögulegir megrunarkúrar sem ekki er ráðlegt að fylgja

Allar götur frá dögum Vilhjálms sigurvegara fram til Elvis Presley hefur fólk reynt sig við megrunarkúra í því skyni að losna við aukakílóin og hafa sumir verið örvæntingarfyllri en aðrir. Flestir hafa megrunarkúrarnir í besta falli verið sóun á tíma en í sumum tilvikum beinlínis lífshættulegir.

BIRT: 04/03/2022

LESTÍMI:

8 mínútur

1. Drekkið frá ykkur allt vit og grennist

Árið 1000: Vilhjálmur sigurvegari á hugsanlega „heiðurinn“ af elstu þekktu tilrauninni sem gerð var til að losna hratt við aukakílóin. Árið 1086 var þessi ógnvekjandi stríðsherra orðinn svo feitur að enginn hestur gat lengur borið hann og Frakkakonungur gerði gys að honum og sagði að hann liti út fyrir að vera barnshafandi.

 

Lausn Vilhjálms á vandanum fólst í því að leggjast fyrir og innbyrða einungis vökva. Og með vökva átti hann við áfengi. Engum sögum fer af því hvort tilraunin bar árangur en þó er vitað fyrir víst að hann komst aftur á hestbak, því sögur herma að hann hafi látist í september árið 1087 eftir að hafa dottið af baki.

Stríðni franska konungsins gerði það að verkum að Vilhjálmur sigurvegari fór í megrun.

Hins vegar hafa varðveist frásagnir af því að lík Vilhjálms sigurvegara hafi ekki rúmast í kistunni, svo varla hefur hann verið orðinn grannur þegar hann lést.

 

Áfengi inniheldur heljarinnar ósköp af hitaeiningum og miðað við þá vitneskju sem við búum yfir í dag hefur Vilhjálmur tæplega lést mikið af áfengisdrykkjunni. Hafi kúrinn hins vegar borið árangur hefur ástæðan sennilega verið sú að Vilhjálmur hafi verið meðvitundarlaus af drykkju og þess vegna ekki fundið fyrir sulti.

 

2. Mýrarkúrinn

1727: Læknir að nafni Thomas Short gaf úr megrunarkennslubók þar sem hann ráðlagði öllum sem hygðust grenna sig að halda sig fjarri mýrlendi. Hann hafði nefnilega veitt því athygli að fólk á slíkum stöðum væri pattaralegra en aðrir.

 

3. Haldið vextinum í lagi með ediki og ull

19. öld: Byron lávarður og skáld, var sjúklega hræddur við að fitna og reyndi að halda sér grönnum með því að lifa á vatni og kexi eða kartöflum sem höfðu legið í ediki. Þá klæddi hann sig jafnframt í mörg lög af ullarfötum til að fitan færi út með svitanum.

 

Megrunarkúr þessi átti ekki aðeins að halda líkamanum grönnum, heldur var honum einnig ætlað að skerpa greindina, sagði Byron. Ef hann varð svangur, reykti hann vindil. Öðru hverju lagðist Byron í óhóflegt át og kastaði svo upp í kjölfarið eða tók inn magnesíum sem er hægðalosandi.

Byron lávarður var þekktur fyrir sérkennilega lifnaðarhætti. Hann lést í gríska frelsisstríðinu, þar sem hann þénaði sem sjálfboðaliði árið 1823.

Aðferðin gagnaðist, því vínsali einn sem hélt yfirlit yfir þyngd Byrons, áður en baðvogir komu til sögunnar, skráði hjá sér að hann hefði lést úr 88 kg í 57 kíló á árunum 1806 til 1811. Aðdáendur Byrons hermdu eftir honum og fylgdu megrunarráðum hans en læknar vöruðu hins vegar við hættunni sem tengdist kúrnum. Að öllum líkindum hefur Byron þjáðst af eins konar átröskun.

 

4. Herðið að maganum

19. öld: Þröngt lífstykki gagnaðist ekki aðeins til að láta mittið virðast grannt heldur tryggði það jafnframt að konur á Viktoríutímabilinu gátu ekki innbyrt mikið í einu.

 

Konur á Viktoríutímanum áttu ekki aðeins að vera grannar, heldur jafnframt fölar og veiklulegar og þá átti gjarnan að líða yfir þær reglulega. Þetta hafðist með því að konur borðuðu helst ekki meira en nauðsyn krafði og með því að herða lífstykkið þannig að varla væri rými fyrir mat, auk þess sem öndunin var torvelduð á þennan hátt og fyrir vikið leið stundum yfir konurnar, líkt og þær þráðu.

 

Skortur á fæðu hafði að sama skapi þá æskilegu aukaverkun að konurnar gátu látið sér nægja færri salernisferðir. Konur á Viktoríutímabilinu gortuðu af því að þeim nægði að ganga örna sinna einu sinni til tvisvar í viku. Þá þótti kynhvötin heldur ekki vera af hinu góða og fyrir vikið skyldu konur halda sig frá kjöti og kryddi, því það var álit manna að þessar tvær fæðutegundir hefðu kynörvandi áhrif.

Fölar, magrar og með tilhneigingu til að falla í yfirlið – þessum eiginleikum áttu konur á Viktoríutímabilinu helst að búa yfir.

Mjög algengt var að konur hefðu tilhneigingu til átröskunar sem engan veginn þótti vera sjúkleg á þessum tíma. Konur sem þjáðust af lystarstoli voru aftur á móti hylltar fyrir að vera nógu viljasterkar til að sigrast á þeim hvötum sem létu á sér kræla í kvenlegu eðli þeirra.

 

Á árunum milli 1860 og 1880 fóru sumir læknar þó að veita því athygli að megrunarárátta tiltekinna kvenna væri í raun sjúkleg. William Gull, einn af einkalæknum Viktoríu drottningar, lýsti fyrirbærinu eftir að hafa meðhöndlað nokkrar grindhoraðar ungar konur.

 

Minnst ein þessara kvenna sem vísað var til hans var svo mögur að ekki tókst að bjarga lífi hennar.

 

5. Nuddkúrinn

1830: Sænski læknirinn Gustav Zander var frumkvöðull á sviði æfingatækja. Segja má að ýmsar uppfinningar hans hafi verið undanfarar æfingatækjanna sem við sjáum í líkamsræktarstöðvum í dag. Hann útbjó meira að segja nuddtæki sem nuddað gat allan líkamann. Nuddtækinu var ætlað að láta kílóin hrynja af notanda tækisins en það hreif alls ekki.

 

6. Gleypið orm og haldið grönnu línunni

20. öld: Eruð þið of feit? Þá er ráðlegt að deila fæðunni með iðraormi. Þetta var röksemdafærslan að baki nokkrum megrunaraðferðum frá því kringum 1900. Hylki sem innihéldu svokallaða „hreinsandi bandorma“ voru seld fólki sem var svo óánægt með þyngdina að það lét sér fátt um finnast óþægindi á borð við flökurleika, niðurgang, höfuðverk og þá staðreynd að bandormar geta orðið allt að sex metrar á lengd og lifað í líkamanum svo árum skiptir.

Megrunaraðferðir í líkingu við bandorma öðluðust vinsældir í kringum aldamótin 1900.

Óljóst er hvort sníkjudýr í meltingarveginum hafi nokkur áhrif á holdafar hýsilsins og hugsanlega hefur aðferðin ekkert gagn gert.

 

Margir þekktir einstaklingar eru sagðir hafa notfært sér aðferðina en þetta hefur reyndar aldrei fengist staðfest.

 

7. Tyggið matinn 32 sinnum og ekki kyngja!

1906: Bandaríski ofstækismaðurinn á sviði heilbrigðismála, Horace Fletcher, gaf út megrunarbók árið 1906 sem öðlaðist gífurlegar vinsældir. Boðskapur hans fólst einkum í því að tyggja skyldi fæðuna 32 sinnum, einu sinni fyrir hverja tönn, halla sér síðan aftur á bak og láta fæðuna renna niður í kokið án þess beinlínis að kyngja.

 

Mat sem ekki rynni niður, skyldi skyrpa út aftur. Aðferðinni mátti beita á alla fæðu, einnig súpur og drykkjarvörur. Fletcher mælti að sama skapi með að fólk takmarkaði neyslu próteina og trefja og stundaði líkamshreyfingu að auki.

Megrunarkúr Fletchers gerði sitt gagn með því að eyða allri ánægju sem tengdist neyslu matar.

Sjálfur hafði Fletcher lést verulega og hélt líkamanum í góðu formi. Heilsu hans hefur þó sennilega verið ábótavant, því hann lést af völdum berkjubólgu aðeins 69 ára að aldri.

 

Fletcher átti sér marga aðdáendur, en í hópi þeirra nægir að nefna rithöfundinn Henry James og iðnjöfurinn John D. Rockefeller. Aðferðin hvarf þó með andláti Fletcher og þess í stað kom fram á sjónarsviðið hitaeiningaútreikningur.

 

8. Reykið til að léttast

Árið 1920-1930: Sígarettur voru markaðssettar sem kraftaverkalækning gegn hósta og tóbaksframleiðendur mæltu að sama skapi með að konur héldu sér grönnum með því að fá sér rettu í stað sælgætis.

 

Á árunum upp úr 1920 reyndu tóbaksframleiðendur að veiða nýja neytendur og fundu þá í hópi þar sem reykingar höfðu nánast þótt bannhelgar fram til þessa, þ.e. meðal kvenna.

 

Fram til þessa hafði þótt ósiðlegt að sjá konur reykja opinberlega. Ný kynslóð kvenna rauf hins vegar ýmsar siðvenjur. Þær létu klippa sig stutthærðar, losuðu sig við lífstykkin og leituðu nýrra leiða til að halda sér grönnum og smart og tóbaksframleiðendur voru ekki lengi að grípa tækifærið og beindu auglýsingum sínum að konum.

„Fáðu þér eina Lucky í staðinn fyrir sætindi“, þannig hljómaði vinsælt slagorð fyrir vindlingamerkið Lucky Strike á árunum upp úr 1920.

Árið 1925 auglýsti sígarettuframleiðandinn Lucky Strike vindlingana sína með slagorðinu „Fáðu þér eina Lucky í staðinn fyrir sætindi“. Auglýsingarnar birtust í ýmsum tískublöðum og flugkonan Amelia Earhart, fyrsta konan sem flaug ein yfir Atlantshafið, var ráðin sem talskona fyrirtækisins. Seinna komu svo fram á sjónarsviðið áþekkar auglýsingaherferðir sem beindust að körlum.

 

Herferðin féll ekki í góðan jarðveg hjá sælgætisframleiðendum sem fóru í mál við American Tobacco Company sem neyddist í kjölfarið til að hætta við auglýsingaherferðina en áður en þar til kom hafði salan á Lucky Strike þegar þrefaldast. Konur höfðu tileinkað sér tóbakið og það að sjást með sígarettu í löngu munnstykki varð að eins konar frelsistákni kvenna.

 

Nikótín dregur raunar úr matarlyst og eykur brennsluna. Á hinn bóginn vitum við að sígarettur draga fleiri til dauða en alnæmi, ólögleg vímuefni, áfengi, bílslys, sjálfsmorð og morð, allt samanlagt, auk þess að kalla fram ótímabær öldrunareinkenni á líkömum okkar.

 

9. Skrúbbið fituna af ykkur með kraftaverkasápu

1920-1930: Við þvoum af okkur fituna. Ef það gagnast á eldavélinni hlýtur það einnig að gera gagn á innanverðum lærunum.

 

Á árunum upp úr 1920 kom nýtt ofurvopn á markað sem ætlað var að vinna bug á óæskilegri fitu: Sápa sem fól í sér þara og sögð var þröngva sér inn í húðina og ráðast til atlögu við fitu.

Skellið ykkur í bað, makið sápunni á ykkur og skrúbbið fituna af. Óskhyggja? Já.

Sápan sem var auglýst undir heitinu „La-Mar” og “Fitu-burt“, skyldi borin á líkamann í baði og átti að vera gædd þeim eiginleika að leysa upp fitu, nákvæmlega þar sem þörfin var mest.

 

Áhrifin reyndust því miður vera engin, að undanskildum svolitlum ofnæmisviðbrögðum. Megrunarsápa í líkingu við þessa er engu að síður enn auglýst til sölu á netinu.

 

10. Eyðið matarlystinni með eiturlyfjum

1940: Amfetamín öðlaðist mikla útbreiðslu árunum upp úr 1940 þegar á markað kom nýtt innöndunartæki, „benzedrín“ sem ætlað var til að víkka öndunarveginn.

 

Tæki þetta fól í sér amfetamín og notendurnir voru ekki lengi að átta sig á að innihaldið hafði örvandi áhrif. Þetta leiddi til þess að farið var að framleiða „benzedrín“ í töfluformi sem m.a. voru notaðar til að halda vöku fyrir hermönnum í síðari heimsstyrjöld og Víetnamstríðinu, auk þess sem þær voru notaðar til að meðhöndla svefntruflanir fólks.

Amfetamín í töfluformi var notað til að hjálpa hermönnum í seinni heimsstyrjöld, svo og í Víetnamstríðinu, með að halda sér vakandi.

Í Danmörku gengu töflurnar undir heitinu „sumarfrístöflur“ því þær gátu haldið heimilisföðurnum vakandi þegar fjölskyldan keyrði um landið í sumarfríum.

 

Áhrifin af benzedríni sem megrunarlyfi voru þó afar takmörkuð og aukaverkanirnar oft meiri en kostirnir. Töflurnar voru ávanabindandi og notkunin leiddi af sér hjarta- og svefnvanda og í sumum tilvikum ofskynjanir og ofsóknaræði.

 

Um miðjan 7. áratuginn voru sett lög í Danmörku um notkun amfetamíns og hætt var að afgreiða það án lyfseðils.

 

11. Karlmannakúrinn

1964: Nautnaseggurinn Robert Cameron gaf út bókina „Megrunarkúr drykkjumannsins“ sem fól í sér einkar áhugaverðan megrunarkúr, að því er sumum fannst en það fól eingöngu í sér að halda inntöku kolvetna í lágmarki og að drekka sterkt áfengi eða rauðvín í stað bjórs.

 

Bókin seldist í 2,4 milljón eintökum í Bandaríkjunum áður en hún varð fyrir mikilli gagnrýni, m.a. af völdum næringarfræðingsins Jean Mayer sem taldi „að líkja mætti sölu bókarinnar til miðaldra Bandaríkjamanna við fjöldamorð“.

 

12. Þyrnirós fitnaði aldrei

Árin upp úr 1970: Sofandi fólk borðar ekki og fyrir bragðið verða þeir sem sofa mikið tággrannir. Þetta voru rökin að baki Þyrnirósarkúrnum sem kom fram á sjónarsviðið upp úr 1970 en meðal áhangenda hans var sjálfur „rokkkóngurinn“, Elvis Presley.

Elvis var á síðustu árum sínum dyggur aðdáandi svefnkúrsins.

Þar sem líkaminn hefur eðlilega takmarkaða þörf fyrir svefn þurfti Elvis að taka inn svefnlyf og þar með varð honum hættara við að taka inn ofskammt.

 

Aðrar aukaverkanir, í líkingu við flökurleika og þráláta þreytu, olli því að megrunarkúrinn öðlaðist aldrei verulegar vinsældir, auk þess sem fólki þótti augljóslega óhagkvæmt að sofa frá sér lungann úr deginum.

Lestu meira:

  • Louise Foxcroft: Calories and Corsets: A history of dieting over two thousand years, Profile Books, 2011
  •  
  • Hittel Schwartz: Never Satisfied: Social History of Diets, Fantasies and Fat, Collier MacMillan Publishers, 1986

BIRT: 04/03/2022

HÖFUNDUR: Stine Grynberg

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Polfoto,© Scanpix/Bridgeman,© Wikimedia, Shutterstock,© Library of Congress,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is