Leiðin að lausn verkefna kann að vera vörðuð flóttaleiðum og verkfrestunum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að skrifstofufólk eyðir að meðaltali tveimur klukkustundum á dag í flóttaleiðir og verkfrestanir og þið getið verið viss um að þið eruð ekki ein um að rabba við vinnufélagana stóran hluta dags.
Ef marka má Mikkel Wallentin, prófessor í vitrænum vísindum við háskólann í Árósum, getur verkfrestun, á borð við það að fara í bað á miðjum degi eða að horfa á kattamyndbönd á Youtube, í raun verið gagnlegur hluti af því ferli að leysa verkefni.
Þá gefa breskar rannsóknir jafnframt til kynna að afar mikilvægt sé að gera sér grein fyrir að verkfrestun sé ekki vel til þess fallin að vinna bug á kvíða eða örvæntingu sem verkefni kunna að hafa í för með sér.
Frestun myndar rými fyrir nýjar hugmyndir
Fyrst og fremst er brýnt að leggja áherslu á að frestun getur í raun haft ýmislegt gott í för með sér. Þetta útskýrir Mikkel Wallentin.
„Hægt er að rannsaka verkfrestun með hliðsjón af mörgum sviðum innan vitsmunavísinda, m.a. þess sviðs sem tengist lausn vandamála,“ segir hann í viðtali við Lifandi vísindi.
„Í ljós hefur komið að það að salta vandamál getur í raun greitt fyrir úrlausn þess. Þegar við tökum hlé frá úrlausn verkefnis, kunna að myndast svokölluð gerjunaráhrif,“ segir hann.
Vitræn gerjunaráhrif tákna það að undirmeðvitundin vinni enn að vandanum og að lausn hans sé áfram að gerjast, jafnvel þó svo að við séum úti í gönguferð eða að horfa á kisumyndband.
Mikkel Wallentin skýrir þetta á þann veg að verkfrestun geti gagnast þannig að rými myndist í undirmeðvitundinni fyrir aðra og jafnvel betri lausn, sökum þess að við hverfum frá verkefninu um stundarsakir.
„Þetta er í raun og veru jákvæðasta túlkunin á því hvað verkfrestun hefur í för með sér,“ segir hann.
Staðreyndir: Hvernig er hægt að ná stjórn á frestunaráráttu og því sem hún felur í sér?
Ef söltun og frestun ná yfirhöndinni mæla Fuschia Sirois og Tim Pychyl sem bæði stunda rannsóknir á sviði flóttaleiða og verkfrestunar, með því að við gerum eftirfarandi:
1. Þau mæla með að við gerum okkur grein fyrir að verkfrestun helgist af tilfinningalegum viðbrögðum okkar gagnvart verkefninu sem við þurfum að leysa. Frestunin sé í raun og veru leið okkar til að kæta okkur og gleðja en að við drögum einfaldlega á langinn lausn verkefnisins og fyrir vikið geri neikvæðu tilfinningarnar vart við sig á nýjan leik.
2. Þau mæla jafnframt með að við hlutum verkefni niður í smærri skammta. Með því að greina verkefnin og komast að raun um hvað við þurfum að inna af hendi fyrst til að stuðla að lausn þeirra, beinum við athyglinni frá neikvæðu tilfinningunum.
3. Vísindamenn telja það vera mikilvægast að uppræta flóttaleiðirnar, til þess einfaldlega að komast áfram.
4. Rannsóknir hafa leitt í ljós að við söltum hlutina frekar ef önnur dægradvöl er innan seilingar. Því skyldum við leggja símann frá okkur, slökkva á sjónvarpinu og komast að raun um hvaða þáttur verkefnisins sé næstur á dagskrá til þess að unnt sé að halda áfram með það.
Frestunarárátta á rætur að rekja til tilfinninga okkar
Í rannsókn einni sem unnin var við fjölmiðlunardeildina við Indiana háskóla, þar sem rösklega 7.000 þátttakendur voru spurðir út í netvenjur sínar, kom í ljós að verkfrestun kætir hugann aðeins í skamma stund.
Vísindamennirnir spurðu m.a. hvers vegna þátttakendurnir veldu að horfa á kisumyndbönd á netinu umfram það að leysa verkefni sem þeim væri ætlað að leysa. Meirihluti þátttakendanna sagðist horfa á myndböndin til að kæta sig.
Þátttakendurnir lýstu því jafnframt að lundin léttist einungis um stundarsakir eftir dægradvölina, því verkefnið sem beið þeirra væri eftir sem áður enn óleyst. Neikvæðu hugsanirnar sem tengdust verkefninu sem skotið var á frest, létu aftur á sér kræla.
Það er einmitt þessi skammvinna upplyfting hugans sem fær okkur til að skjóta hlutum á frest og taka okkur annað fyrir hendur.
Þetta er ályktun Fuschia Sirois sem rannsakað hefur verkfrestun við Bishop’s College í Kanada og Sheffield háskóla í Englandi.
Rannsóknir hennar gefa til kynna að sú vanlíðan sem við mannfólkið tengjum við óleyst verkefni leiði af sér eðlilega ósk um að gleðja okkur sjálf og veita okkur meiri vellíðan.
Ef verkefnið er svo brýnt að langvarandi gleði er fólgin í lausn þess, gerum við okkur bjarnargreiða með því að einblína á skammvinna ánægju, segir Fuschia Sirois.
Skiptið verkefninu í litla skammta
Starfsbróðir hennar, vísindamaðurinn Tim Pychyl við Carleton háskóla í Kanada, segir í viðtali við BBC að fyrsta stigið í að komast hjá verkfrestun sé að gera sér grein fyrir að um sé að ræða eðlileg viðbrögð en engu að síður röng, þegar við veljum að gera eitthvað annað í stað þess að ljúka við verkefni.
„Þegar við gerum okkur grein fyrir þessu, er hægt að notast við vænlegustu ráðlegginguna mína. Næst þegar þú ert í þann veginn að fresta einhverju og gera annað í staðinn skaltu reyna að beina athyglinni að þrengra sviði, segir hann.
„Hvert væri næsta aðgerð ef ég ætti að leysa verkefnið undir eins?“
Með því að sjá fyrir sér einfaldan verkefnishluta er unnt að beina huganum frá þeirri óþægilegu tilfinningu sem tengist verkefninu í heild sinni og þar með verður auðveldara að hefjast handa.
„Og rannsóknir okkar sýna að þegar við fyrst erum komin í gang eigum við auðveldara með að halda áfram. Bara það að vera byrjaður skiptir sköpum.“
Gerum dægradvöl síður aðgengilega
Ein fyrsta tilraunin sem gaf til kynna að við söltuðum verkefni og tækjum til við aðra starfsemi í því skyni að kæta okkur, var unnin við Case Western Reserve University í Ohio.
Í þeirri tilraun gerðu vísindamennirnir þátttakendurna dapra með því að láta þá lesa sorglegar frásagnir.
Þetta gerði þátttakendurna betur færa um að leysa púsluspil eða spila tölvuleiki í stað þess að búa sig undir greindarprófið sem ætlað var sem liður í tilrauninni.
Í annarri rannsókn sem sömu vísindamenn stóðu fyrir, kom í ljós að við frestum frekar og tökum okkur annað fyrir hendur ef við höfum úr nægilegri dægradvöl að moða.