Nasistar börðu miskunnarlaust alla mótspyrnu heima fyrir og skipuleg andspyrnuhreyfing – eins og var starfandi í t.a.m. Póllandi og Frakklandi – fyrirfannst aldrei í Þýskalandi Hitlers.
Nokkrir smærri andspyrnuhópar unnu þó gegn nasistum með mikilli leynd.
Sú kunnasta er vísast Weiße Rose eða Hvíta rósin sem hópur háskólanema í München stofnaði árið 1942.
Á þessum tíma átti þýski herinn í miklu basli við Stalíngrad og fjölmargir Þjóðverjar farnir að efast um ágæti hernaðarstefnu nasista.
Myndband: Horfðu á brot af harðri gagnrýni Weiße Rose.
Þegar orðrómur um nauðungarflutninga pólskra Gyðinga í útrýmingarbúðir tók að kvisast út, skipulögðu systkinin Hans og Sophie Scholl hópa háskólanema sem náðu m.a. til Hamborgar, Berlínar og Vínar.
Hóparnir prentuðu og dreifðu flugritum sem voru í algerri andstöðu við stefnu nasista og hvöttu önnur ungmenni til að gera uppreisn gegn Hitler og hergagnaiðnaði með skemmdarverkum.
Samkvæmt Weiße Rose var markmiðið að ná „innri endurnýjun á hinni særðu þýsku þjóðarsál“.
Fyrir framan háskólann í München hefur verið lagður minnisvarði um Weiße Rose og Sophie og Hans Scholl í gagnstéttina.
Í febrúar 1943 bar húsvörður við háskólann kennsl á Hans og Sophie Scholl og tilkynnti leyniþjónustunni Gestapo.
Í kjölfarið voru margir meðlimir handteknir og pyntaðir. Systkinin voru dæmd fyrir landráð í sýndarréttarhöldum og tekin af lífi í fallöxi 22. febrúar 1943.