Kjarnorkusprengjur leysa ekki aðeins úr læðingi gríðarmikla sprengingu og sjóðheitt hitastig, heldur einnig mikla geislavirkni. Í raun réttri á geislunin þátt í 15% af orkulosuninni sem orsakast af völdum kjarnorkusprengju.
Geislavirkni getur haft ýmiss konar skaðleg áhrif á líkamann, háð styrknum – allt frá hárlosi og slælegu ónæmiskerfi, yfir í skemmdir á erfðaefni, frumum, æðum og líffærum.
Geislunin felur m.a. í sér geislavirkt joð sem gerir það að verkum að skjaldkirtlinum stafar sérlega mikil ógn af. Kirtillinn tekur í sífellu upp joð fyrir framleiðslu á mikilvægum hormónum en getur hins vegar ekki greint á milli joðs á stöðugu formi og geislavirkra afbrigða.
Ef líkaminn fær í sig geislavirkt joð fær það þess vegna upptöku í skjaldkirtlinum sem m.a. eykur hættuna á krabbameinsmyndun.
Töflur halda geisluninni frá líkamanum
Hægt er að halda geislavirka joðinu undan með töflum. Stórir skammtar af joðtöflum sem fela minnst í sér 50 mg, innihalda stöðugt joð í formi kalíumjoðs sem mettar skjaldkirtilinn með joði. Með þessu má koma í veg fyrir að líkaminn taki í sig geislavirka afbrigðið sem þess í stað er losað úr líkamanum gegnum nýrun.
Joðtöflur veita hins vegar ekki vörn gegn öðrum geislavirkum efnum af völdum geislavirks úrfellis, svo sem eins og sesín-137 og strontín-90 og töflurnar myndu því ekki veita fullkomna vörn ef til kjarnorkuleka kæmi.