1. Viagra veldur sársauka við reisn
RÉTT Til allrar hamingju er þetta þó ekki algengt. Þetta ástand stafar af því að blóðið nær ekki að streyma til baka úr limnum og það getur haft skaðvænleg áhrif á þennan viðkvæma vef.
Körlum til hughreystingar má þó taka fram að Viagra felur í sér mikla framför frá eldri aðferðum sem byggðust á því að sprauta æðavíkkandi efnum beint í liminn en því gat fylgt langvinn standpína með miklum sársauka.
2. Viagra veldur sjálfkrafa holdrisi
RANGT Flestir karlmenn þurfa eftir sem áður kynferðislega örvun til að heilinn setji af stað þau taugaboð sem auka blóðstreymi fram í liminn.
Eftir það getur Viagra svo séð til þess að halda streyminu gangandi og að halda fullri reisn.
3. Viagra gerir karlmenn óstöðvandi í rúminu
RANGT Viagra veldur holdrisi en hefur ekki bein áhrif á hve lengi það stendur yfir og ekki heldur nein áhrif á almenna frammistöðu í rúminu.
Líffræðilega er ekkert sem styður það að Viagra hindri of brátt sáðfall.
4. Viagra og áfengi fara illa saman
Viagra og áfengi er ekki góður kokteill.
RÉTT Þótt Viagra gæti virst alveg upplagt til að rífa upp getnaðarlim sem er latur og ófús af drykkju, þá fara áfengi og rislyf ekki vel saman.
Áfengi er blóðþynnandi og almennt er mönnum ráðið frá því að taka Viagra með blóðþynnandi lyfjum.
Til viðbótar getur höfuðverkur sem er fylgikvilli bæði áfengis og Viagra, versnað ef þessu er blandað saman.
5. Þú sérð blátt af Viagra
RÉTT Það er reyndar nokkuð til í þessu en Viagra getur í örfáum tilvikum breytt skynjun manns á bláum og grænum litbrigðum.
Verkun Viagra felst í að hamla tilteknu ensími í getnaðarlimnum. Sama ensím er að finna í augunum og ofskammtur af Viagra getur þess vegna valdið þessari breytingu á litaskyni.
6. Viagra eykur kynlöngun
RANGT Það virðist vissulega rökrétt að holdris auki kynlöngun en það er ekki þar með endilega rétt.
Með því að taka Viagra hleypur karlmaður yfir þá hefðbundnu skynjun sem veldur örvun og fer beint í blóðstreymi fram í getnaðarliminn en það leiðir ekki sjálfkrafa til kynlöngunar.
Almennt er það hin kynræna nautn sem leiðir af sér blóðstreymi, ekki öfugt.