Winston Churchill átti sér fjölmarga óvini og að minnsta kosti tíu sinnum var reynt að ráða hann af dögum.
Að sögn Walters Thompson, lífvarðar Churchills á árunum 1921-1945 var fyrsta tilraunin gerð árið 1922, þegar þrír menn frá írsku aðskilnaðarsamtökunum IRA sáust vopnaðir skammt frá Rolls-Royce bifreið Churchills. En til þeirra sást þó nógu snemma og engum skotum var hleypt af.
Churchill var afar óvinsæll á Írlandi þar eð hann hafði sem hermálaráðherra beitt hermönnum úr fyrri heimsstyrjöldinni – þekktum sem Black and Tans – til að berja niður frelsishreyfingu Íra af mikilli grimmd.
Flest tilræðin voru gerð í seinni heimsstyrjöldinni . Hið fyrsta átti sér stað þegar nasistar voru að leggja undir sig Frakkland en þá réðist Hélene de Portes greifynja að Churchill með hníf í viðræðum um áframhaldandi stríðsþátttöku Frakka.
De Portes var ástkona Pauls Reynauds forsætisráðherra en líka stuðningsmaður fasista og bar í brjósti djúpt hatur á Churchill.
Súkkulaðisprengjan sem átti að sjá um Churchill
1: Sprengiefni
2: Þunnt súkkulaðilag
3: Málmhulstur
4: Bryti Churchill af súkkulaðinu virkjaðist sprengjan
Sjálfir voru nasistarnir afar áhugasamir um að losna við þennan breska leiðtoga og árið 1943 komu þeir fyrir sprengju í flugvél hans í heimsókn í Egyptalandi.
Leyniþjónustan komst á snoðir um tilræðið og ferðaáætlun Churchills var breytt.
Þjóðverjar reyndu líka að koma súkkulaðistykki með sprengiefni til Churchills sem gjarna vildi hafa eitthvað sætt að bíta í meðan langir fundir í herráðinu stóðu yfir.
Leyniþjónustan uppgötvaði þetta tilræði og súkkulaðið komst aldrei á leiðarenda.