862 – 1240 – 1362 – 1569 – 1648 – 1709 – 1772 – 1917 – 1991 – 2014 – 2022
Nafnið Úkraína merkir jaðar eða kantur og var í fyrsta sinn notað í merkingunni „jaðarland“ í annál frá árinu 1187.
Þar segir um nýlátinn fursta, Vladimir að nafni, að „Úkraína stundi af sorg eftir hann.“
Það var þó ekki fyrr en á 16. öld sem farið var að nota heitið Úkraína um svæðið milli Póllands og Rússlands.
Hér grípum við niður í sögu Úkraínu á 11 stöðum
862
Víkingar stofnuðu ríkið
Mynd: Kiev-ríkið náði allt frá Finnlandi og suður að Svartahafi. Stóru, rússnesku fljótin voru notuð sem flutningaleiðir.
„Land okkar er stórt og frjósamt en hrjáð af átöku. Komdu og vertu fursti okkar, ríktu yfir okkur.“
Samkvæmt úkraínskum annál báðu ættbálkar Slava norræna stríðsmenn að koma árið 862 – svo mjög voru Slavar þjáðir af innbyrðis átökum.
Á víkingaöld stækkaði ríkið og um árið 1000 náði það alla leið að Svartahafi.
1240
Mongólar leggja undir sig Úkraínu
Mongólskir riddaraherir, undir stjórn Batu sem var barnabarn Djengis Khan, þyrptust inn í Úkraínu.
6. desember 1240 hertók mongólski stríðsherrann Batu borgina Kyiv. Afi hans var sjálfur Djengis Khan.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Mongólar höfðu sigrað borgina en í þetta sinn markaði innrásin endalok yfirráða víkinganna í Úkraínu.
Í rúm 100 ár eftir þetta borguðu Úkraínumenn Mongólum skatta og fengu fyrir vikið að stjórna sér sjálfir.
1362
Litháen verður stórveldi í Austur-Evrópu
Algirdas af Litháen var stórfursti 1345-1377.
Á tíma Algirdas stórfursta luku Litháar innlimun Úkraínu í ríki sitt.
Þegar Algirdas dó 1377 náði Litháen frá Eystrasalti til Svartahafs.
1569
Samningur sem færði hluta Úkraínu undir Pólland
Lublin-sambandið teygði yfirráð Pólverja inn í Úkraínu.
Með stofnun Lublin-sambandsins 1569 varð Vestur-Úkraína hluti af ríkjasambandi Póllands og Litháen.
Eftir að hafa beðið ósigur fyrir stórfurstanum í Moskvu þurftu Litháar öfluga bandamenn og mynduðu tengsl við Pólverja.
Pólverjar fengu í sinn hlut stóran hluta af Úkraínu og urðu mjög hrifnir af frjósömum sléttum þess.
Rithöfundur einn skrifaði: „Úkraína er eins og það land sem Guð lofaði hebreum. Hér flýtur allt í mjólk og hunangi.“
1648
Kósakkar flýja undan áþján
Hinir herskáu stríðsmenn Úkraínu, kósakkarnir, spruttu upp á jaðarlandinu milli jarðeigna pólskra aðalsmanna og mongólskra hirðingja í austri.
Undir yfirráðum Litháa og Pólverja þrautpíndi aðallinn bændur í Úkraínu.
Margir flúðu út á óbyggðar steppur og gerðust kósakkar.
Frá 1648 til 1709 var ríki kósakka um helmingur af Úkraínu nútímans.
1709
Pétur mikli leggur Úkraínu undir Rússland
Pétur mikli var keisari Rússlands 1682-1725. Síðustu fjögur æviárin krafðist hann þess að vera titlaður „Keisari allra Rússa.“
Norðurlandastríð höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir Úkraínu.
Landið skiptist á þessum tíma milli Póllandskonungs, Péturs mikla Rússakeisara og súltans Ósmanaveldisins.
Óvígur her Svía braut Pólverja á bak aftur en 1709 töpuðu Svíar orrustunni við Poltova í Úkraínu fyrir herjum Péturs mikla.
Á næstu áratugum var öll Úkraína innlimuð í Rússland.
1772
Austurríki fær sneið
Pólitísk spenna milli Austurríkis, Rússlands og Prússlands breytti útliti Úkraínu á landakorti aftur árið 1772.
Þá lögðu þessi stórveldi héraðið Calicíu í vesturhluta landsins undir Austurríki með einu pennastriki.
Frá 1848 studdu Austurríkismenn drauma þessa minnihluta um Sameinaða Úkraínu – í þeim tilgangi að veikja veldi Rússa.
Fyrsta sjálfstæðishreyfing Úkraínu fullyrti sama ár: „Úkraínumenn eru sérstök þjóð, aðskilin frá Pólverjum og Rússum.
Við erum 15 milljónir manna sem tölum sama tungumál.“ Sjálfstæðið lét þó bíða eftir sér.
1917
Heimsstyrjöld skapaði skammvinnt frelsi
Úkraínumenn fögnuðu sjálfstæði sínu eftir fall rússneska keisaraveldisins.
Úkraína lýsti yfir sjálfstæði 1917 – í miðri fyrri heimsstyrjöld – en samstundis braust út borgarastyrjöld milli kommúnista og íhaldsmanna.
Kommúnistar nutu stuðnings frá Rússlandi og unnu sigur. Eftir það var Úkraína hluti Sovétríkjanna til 1990.
Á Sovéttímanum urðu talsverðar breytingar á landamærum Úkraínu, einkum í seinni heimsstyrjöld þegar Stalín lengdi þetta Sovétlýðveldi til vesturs á kostnað Póllands og núverandi Slóvakíu.
Og árið 1954 „gáfu“ Rússar Úkraínumönnum Krímskaga. Að baki þeirri gjöf stóð Nikita Krústsjov sem varð leiðtogi Sovétríkjanna eftir dauða Stalíns 1953 en hafði áður verið við stjórnvölinn í Úkraínu.
En það var ekki fyrr en með falli Sovétríkjanna að Úkraína fékk sjálfstæði á ný.
1991
Úkraína verður sjálfstætt ríki
Forseti Úkraínu, Leonid Kravchuk (2. frá vinstri) og forseti Rússlands, Boris Yeltsín (3. frá hægri) skrifuðu 1991 undir samning sem formlega leysti Sovétríkin upp.
Sumarið 1991 samþykkti úkraínska þingið sjálfstæðisyfirlýsingu sem svo var samþykkt með um 90% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember sama ár. Samtímis var kosinn fyrsti forseti Úkraínu, fyrrum kommúnistinn, Leonit Kravchuk.
Síðar í mánuðinum slitu leiðtogar Rússlands, Úkraínu og Belarus (Hvíta-Rússlands) Sovétsambandinu sem ríki og stofnuðu þess í stað Samband sjálfstæðra ríkja fyrrum Sovétlýðvelda.
2014
Rússar taka Krímskaga
Ómerktir en rússneskumælandi hermenn tóku völdin á Krímskaga en Rússar voru mjög óánægðir með þróun mála í Úkraínu.
Sumir forsetar Úkraínu á fyrsta áratug nýrrar aldar höfðu fært Úkraínu nær ESB og NATO og 2008 boðaði NATO að Úkraína gæti fengið inngöngu þegar þar að kæmi.
Ósætti milli stjórnmálamanna sem sumir vildu halla sér að Vesturveldunum en aðrir að Rússum, leiddi til mótmælanna sem kennd voru við Maiden-torg í Kyiv. Við atkvæðagreiðslu í þinginu var samþykkt að setja forsetann af en hann var hliðhollur Rússum. Forsetinn flúði til Rússlands.
Strax eftir þetta sendi Pútín Rússlandsforseti hermenn til Krímskaga og eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem stór meirihluti vildi sameinast Rússlandi, var skaginn innlimaður í rússneska ríkið.
Aðskilnaðarsinnar í tveimur austustu héruðum Úkraínu, Donetsk og Luhansk, lýsa yfir sjálfstæði og bardagar brjótast út milli þeirra og Úkraínuhers.
2022
Rússar ráðast inn í Úkraínu
Fjöldi rússneskra skriðdreka var fluttur á járnbrautarvögnum að landamærum Úkraínu.
Síðla árs 2021 hefja Rússar mikla herflutninga að landamærum Úkraínu. Rússar krefjast þess að Vesturveldin tryggi að Úkraína fái ekki aðild að NATO og hefja miklar heræfingar við landamærin.
NATO neitar að verða við þessum kröfum, þar eð ekki sé hægt að taka sjálfsákvörðunarréttinn af Úkraínumönnum.
Allar tilraunir til að leysa deiluna mistakast og aðfaranótt 24. febrúar ráðast Rússar inn í Úkraínu, úr norðri frá Belarus og Rússlandi, úr austri frá Rússlandi og að hluta gegnum yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í Luhansk og Donetsk og úr suðri gegnum Krímskaga.
Innrásin nær þannig ekki aðeins til austurhéraðanna sem Pútín hefur nú viðurkennt sem sjálfstæð lýðveldi, heldur til allrar Úkraínu. Úkraínski herinn veitir hins vegar harða mótspyrnu og innrásin hefur gengið miklu hægar en Rússar virðast hafa gert ráð fyrir.
Birt fyrst árið 2022.