Lifandi Saga

10 rómversk ráð um hvernig sigra skuli í kosningum

Hinn þekkti mælskusnillingur Marcus Tullius Cicero gaf kost á sér sem ræðismaður í Róm árið 64 f.Kr. Bróðir hans, Quintus, samdi ritið „Handbók um kosningabaráttu“ honum til halds og trausts. Við höfum safnað saman tíu bestu ráðleggingum Quintusar sem allar gefa til kynna að hatursræða, svikin kosningaloforð og ímyndarsköpun hafi verið jafnstór hluti af kosningabaráttunni fyrir 2.000 árum og við á í dag.

BIRT: 07/10/2023

Cicero átti undir högg að sækja í kosningabaráttunni, því hann var „nýr maður“ í stjórnmálaheimi Rómverja.

 

Cicero fæddist hinn 3. janúar 106 f.Kr. á sveitabæ í grennd við bæinn Arpinum, u.þ.b. 100 km suðaustur af Róm.

 

Þrátt fyrir að vera kominn af efnuðum foreldrum tilheyrði hann ekki valdastétt höfuðborgarinnar, þ.e. gömlu og fínu ættunum sem upprunalega höfðu einkaleyfi á pólitískum embættum.

 

Fjölskylda Ciceros var áhrifarík innan héraðsins en enginn í fjölskyldu hans hafði komist til metorða í stjórnmálaheimi rómverska lýðveldisins.

 

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að Cicero væri álitinn einn helsti ræðumaður síns tíma og einn þekktasti lögmaðurinn við rómverska dómstóla.

 

Einstakir hæfileikar hans færðu honum stóran hóp áhangenda og þeir bættu að verulegu leyti upp þá neikvæðu stöðu sem fólst í því að vera „nýr maður“.

Cicero var þekktur fyrir að vera ötull talsmaður lýðveldisins, jafnvel eftir að Júlíus Sesar komst til valda sem einræðisherra árið 49 f.Kr.

Í rómverska lýðveldinu var alls ekki óþekkt að rjúfa þyrfti kosningar sökum slagsmála.

1. ráðlegging: „Þú skalt vingast við óviðfelldið fólk“

Heimskustu frambjóðendurnir eru þeir sem halda að fólk kjósi þá sem það þekkir ekki. Quintus, bróðir Ciceros, leggur áherslu á þetta í kosningahandbók sinni.

 

Í því skyni að tryggja næga kjósendur er því nauðsynlegt að leggja til hliðar alla viðkvæmni. Nauðsynlegt verður að umgangast skuggalegustu og óhefluðustu einstaklingana.

 

„Þetta er alveg viðurkennt í kosningabaráttu og þú verður álitinn kjáni ef þú lætur ekki sjá þig með tortryggilegu fólki sem heiðarlegt fólk að öllu jöfnu ekki léti sjá sig með!“ skrifaði Quintus.

 

Ófágaðir einstaklingar gátu jafnvel verið frambjóðandanum gagnlegir við að kaupa atkvæði, orsaka ringulreið og uppþot á fundum og kjörstöðum, ellegar þá til að lúskra á pólitískum andstæðingum og fylgismönnum þeirra.

 

Kosningar gátu orðið býsna róstursamlegar. Árið 133 f.Kr. var Tiberius Gracchus í framboði fyrir lágstéttarflokkinn en það táknar að hann bauð sig fram sem foringja fjölmennasta flokksins í gjörvallri Róm, þ.e. lágstéttarinnar.

 

Hópur andstæðinga hans á sviði skiptingar lands braust inn hjá honum meðan á kosningunum stóð og börðu hann til bana með stólfótum.

2. ráðlegging: „Lofaðu öllum öllu“

Mikilvægt var fyrir rómverska stjórnmálamenn að lofa öllu fögru sem fyllti kjósendur von og trú á að frambjóðandinn myndi tala máli þeirra.

 

Ekki þótti nauðsynlegt að standa við loforðin, því stjórnmálamenn sem lofa ekki meiru en þeir geta staðið við, verða ekki vinamargir.

 

„Skárra er að svíkja loforð og valda nokkrum hræðum á umræðufundum vonbrigðum en að fá öskuillan skrílinn heim til sín, sökum þess að frambjóðandinn neitar að lofa því sem lýðurinn vill heyra!“

 

Loforð skiptu sköpum í kosningabaráttu Rómverja, því ekki var um að ræða stjórnmálaflokka líkt og við þekkjum þá, með andstæða hugmyndafræði og pólitíska stefnuskrá.

 

Í augum frambjóðendanna var um að ræða gjaldmiðil sem gagnaðist til að bera hærri hlut í kosningunum, út frá því sem frambjóðandinn áleit kjósendur vilja heyra.

Árið 64 f.Kr., þegar kosningabarátta Ciceros stóð hvað hæst, hafði verið stöðug útþensla í rómverska lýðveldinu í heila öld.

Árið 64 f.Kr., þegar kosningabarátta Ciceros stóð hvað hæst, hafði verið stöðug útþensla í rómverska lýðveldinu í heila öld.

Allt ríkið skyldi halda til Rómar til að kjósa

Í rómverska lýðveldinu gátu frjálsir karlmenn, með full borgaraleg réttindi sem Rómverjar, kosið eftir 17 ára aldur.

 

Allir kjósendur þurftu hins vegar að koma sér til Rómar og langt því frá allir höfðu efni né áhuga á að fara til höfuðborgarinnar.

 

Vinnumenn til sveita gátu til dæmis engan veginn lagt land undir fót á miðju uppskerutímabilinu. Andstætt við það sem við átti í Aþenu til forna fengu borgararnir engan fjárhagsstyrk fyrir að verja heilum vinnudegi í kosningaþátttöku.

 

Meðal borgara utan Rómar höfðu nær eingöngu efnamenn tök á að kjósa.

 

Á alþýðuþinginu, þar sem rómverska lýðveldið skiptist í 35 landfræðileg kjördæmi, mættu stundum svo fáir frá tilteknum kjördæmum að bæta þurfti upp skortinn með þátttakendum annars staðar frá.

 

Fjöldi þeirra sem mættu á kjörstað var áreiðanlega mjög breytilegur og hefur sennilega verið allt frá örfáum þúsundum upp í 50.000 frá einu skipti til annars.

 

Til samanburðar má geta þess að alls hefur búið ein milljón frjálsra rómverskra karlmanna á Ítalíu í kringum árið 100 f.Kr.

Mælskulist Ciceros færði honum virðingu um nánast gjörvallt rómverska lýðveldið.

3. ráðlegging: „Ræðusnilld skiptir sköpum“

Cicero var mesti ræðusnillingurinn í Róm og Quintus lagði áherslu á að hann skyldi gera allt sem hann gæti til að fullnýta hæfileika sína. Ræðulistin skipti sköpum fyrir framtíð stjórnmálamanns og margir rómverskir stjórnmálaskörungar hófu feril sinn sem lögmenn fyrir rétti.

 

„Þar sem þú býrð yfir slíkri ræðusnilld sem raun ber vitni og orðspor þitt ræðst af þessari staðreynd, skaltu halda hverja einustu kosningaræðu líkt og hún væri þín síðasta“.

 

Kennslubækur í mælskulist til forna mæla svo fyrir að ræðumenn sem hyggjast vekja meðaumkun skuli beita hásri röddu og vera með grátstafinn í kverkunum til að hafa hvað mest áhrif á áheyrendurna.

 

Tækist honum einnig að bresta í grát og rífa í sundur skikkjuna gæti hann beinlínis kallað fram tár þeirra. Kennslubækurnar vöruðu þó við því að meðaumkun sem vakin er með þessu móti myndi standa afar stutt yfir, því „ekkert þorni jafn hratt og tár!“

Meðan á kosningabaráttunni stóð mátti alls staðar sjá pólitísk slagorð.

4. ráðlegging: „Dragðu andstæðinginn niður í svaðið!“

Þeir sem ekki tröðkuðu á andstæðingum sínum úr ræðustólnum og báru út sögusagnir um hann í leyni áttu nánast enga möguleika á kjöri.

 

Rómversk kosningabarátta var alger óþverraskapur, þar sem við hæfi þótti að draga andstæðinginn niður í svaðið í ræðum og væna hann um spillingu en slík orð voru oftar en ekki látin falla úr ræðustólnum.

 

„Það sakar ekki að minna á hvað andstæðingurinn er mikill óþokki og að nota hvert tækifæri til að breiða út sögusagnir um spillingu hans, svo og glæpsamlegt athæfi og kynsvall“.

 

Orðrómurinn snerist þá oftar en ekki um gífurlegar skuldir, taumlaust kynsvall, munaðarvenjur og spillingu á öllum sviðum.

 

Sannleiksgildið skipti oftar en ekki litlu máli. Engin þörf var á að sanna réttmæti sögusagnanna fyrir dómstólum til þess að þær hefðu tilætluð áhrif á kjósendurna, benti Quintus á.

 

Cicero var sjálfur sérlega leikinn í að sverta andstæðingana. Í ræðu sem hann hélt í öldungaráðinu lýsti hann einum ræðismannanna á þann veg:

 

„Þessi akfeiti auli, þetta ógeðfellda kjötstykki, þetta húðlata, illa þefjandi lík sem líkt og hálffúinn staur getur varla hangið uppréttur með skilti á maganum sem segir: Ræðismaður!“

Í Pompei úði og grúði af veggjakroti

Ríflega 3.000 áletranir með kosningaáróðri hafa fundist á veggjum í Pompei. Þar má m.a. lesa um Vatia sem bauð sig fram til umsjónarmanns opinberra bygginga. Um hann voru rituð tilgerðarleg níðorð á borð við:

 

  • Ég hvet til að Vatia verði gerður að umsjónarmanni opinberra bygginga. Allar fyllibyttur segja slíkt hið sama“.

 

  • „Vasaþjófarnir mæla með að Vatia hljóti embætti umsjónarmanns opinberra bygginga“.

Ráðlegging 5: “Innheimtu alla greiðana“

Hópur samherja og þakklæti voru lykilorð í rómverskri kosningabaráttu.

 

Greiðar sem frambjóðandinn átti inni hjá öðrum gegndu hlutverki mikilvægrar skiptimyntar sem tryggt gat honum sigur.

 

„Nú er komið að því að aðrir endurgjaldi þér sem frambjóðanda stjórnmálagreiðana ef þeir óska þess að þú gerir þeim greiða framvegis“.

Kosningar voru þaulskipulagðar

Rómverskar kosningar voru flókin fyrirbæri en mikilvægasta hlutverkið var þó að tryggja að þeir efnuðu hefðu mest völd.

 

Í rómverska lýðveldinu voru mikilvægustu kosningarnar þegar kosið var á þjóðþingin comitia centuriata og comitia tributa.

 

Æðstu embættismennirnir á borð við ræðismenn, manntalsmenn og dómgæslumenn voru kjörnir á hermálaþingið (comitia centuriata). Þar var Rómverjunum skipt í fimm stéttir allt eftir eigum og þeim skipt í 193 hundraðsdeildir.

 

Hver hundraðsdeild hafði yfir að ráða einu sameiginlegu atkvæði sem leitt var til lykta með meirihluta innan deildarinnar. Ríkasta stéttin fékk að kjósa fyrst og sá sem var kjörinn þurfti að fá hreinan meirihluta þeirra atkvæða sem greidd höfðu verið á hverjum tíma.

 

Oft höfðu frambjóðendur því verið kjörnir áður en kom að því að frambjóðendur með lægri tekjur hefðu tök á að greiða atkvæði. Auk þess má geta þess að fleiri hundraðsdeildir fólu í sér efnaða heldur en fátæka borgara.

 

Samsetningin á alþýðuþinginu (comitia tributa) var öllu jafnari en þar voru óæðri embættismenn kjörnir.

 

Þar byggðu atkvæðin ekki á eigum, heldur var um að ræða landfræðilega staðsetningu, þar sem öllum rómverskum borgurum var skipt í 35 svonefnd kjördæmi.

 

Iðulega mættu þó fáir kjósendur tilheyrandi kjördæmunum utan Rómar, sökum þess að þeir höfðu hvorki efni né tök á að ferðast til höfuðborgarinnar.

 

Á báðum þessum þingum nutu efnamenn mikilla forréttinda og tryggt var að ef þeir stæðu saman gætu þeir ráðið niðurstöðum kjörsins án þess að fátæklingarnir fengju yfirleitt tækifæri til að kjósa.

 

Þetta var meðvitað gert og Cicero sagði tilganginn með skiptingu íbúanna vera að:

 

„… tryggja að hinir efnameiri réðu yfir atkvæðunum en ekki lágstéttin“.

 

Þeir ríku gátu þó ekki alltaf komið sér saman um hlutina og heimildir sýna að atkvæði lágstéttarinnar gátu ráðið úrslitum.

 

Þó svo að kosningabaráttan snerist aðallega um að afla sér stuðnings ríku forréttindahópanna komu að sama skapi fram tillögur margra frambjóðenda sem féllu í kramið hjá öðrum hópum þjóðfélagsins.

Kosningarnar í lýðveldinu áttu sér einkum stað á Mars-akrinum í Róm.

Hafður hemill á kjósendum í rétt

Kosningar áttu sér stað ár hvert í Róm, yfirleitt í júlí og skyldi dagsetningin kunngjörð einum 17-25 dögum áður en kosningarnar færu fram. Þær hófust við sólarupprás á afgirtu svæði. Svæðið nefndist „ovile“ sem táknaði fjárréttir. Leiðin upp að kjörklefanum var í líki mjórrar brúar, sennilega til að forðast mætti troðning og ringulreið.

Kjörseðillinn var vaxtafla

Upprunalega var kosið munnlega en eftir árið 139 f.Kr. var kjósendum afhent lítil vaxtafla og á hana skrifuðu þeir upphafsstafi frambjóðandans sem þeir kusu.

Niðurstöðunum komið fyrir í kjörkassa

Kjósandinn setti vaxtöfluna með atkvæði sínu í stóran kjörkassa sem komið var fyrir á upphækkuðum palli.

 

Þennan hluta kosninganna er hægt að sjá á rómverskum peningum.

Verðir höfðu hemil á kjósendunum

Svonefndir löggæslumenn höfðu eftirlit með kosningunum sem tryggðu að hver og einn kysi ekki oftar en einu sinni. Verðina valdi embættismaðurinn sem stjórnaði kosningunum, oftar en ekki ræðismaðurinn.

Kosningarnar í lýðveldinu áttu sér einkum stað á Mars-akrinum í Róm.

Hafður hemill á kjósendum í rétt

Kosningar áttu sér stað ár hvert í Róm, yfirleitt í júlí og skyldi dagsetningin kunngjörð einum 17-25 dögum áður en kosningarnar færu fram. Þær hófust við sólarupprás á afgirtu svæði. Svæðið nefndist „ovile“ sem táknaði fjárréttir. Leiðin upp að kjörklefanum var í líki mjórrar brúar, sennilega til að forðast mætti troðning og ringulreið.

Kjörseðillinn var vaxtafla

Upprunalega var kosið munnlega en eftir árið 139 f.Kr. var kjósendum afhent lítil vaxtafla og á hana skrifuðu þeir upphafsstafi frambjóðandans sem þeir kusu.

Niðurstöðunum komið fyrir í kjörkassa

Kjósandinn setti vaxtöfluna með atkvæði sínu í stóran kjörkassa sem komið var fyrir á upphækkuðum palli.

Þennan hluta kosninganna er hægt að sjá á rómverskum peningum.

Verðir höfðu hemil á kjósendunum

Svonefndir löggæslumenn höfðu eftirlit með kosningunum sem tryggðu að hver og einn kysi ekki oftar en einu sinni. Verðina valdi embættismaðurinn sem stjórnaði kosningunum, oftar en ekki ræðismaðurinn.

Rómverskir embættismenn voru umkringdir svokölluðum vandsveinum, þ.e. lögreglumönnum sem þekkja mátti af kylfum gerðum úr gildum stöfum með öxi í miðjunni.

6. ráðlegging: „Yfirgefðu ekki Róm meðan á kosningabaráttunni stendur“

Í riti sínu minnti Quintus bróður sinn á að kosningarnar væru haldnar í Róm og þar var sigurinn jafnframt útkljáður. Ef frambjóðandi gat sagt um andstæðing sinn að hann hefði verið fjarverandi, andlega eða líkamlega, meðan á kosningabaráttunni stóð, gat það riðið þeim síðarnefnda að fullu.

 

„Ekki fara frá Róm. Óhugsandi er að taka sér frí meðan á kosningabaráttu stendur. Haltu þig í borginni, stundaðu umræðufundi og ræddu við kjósendur hvort heldur að degi eða nóttu. Láttu dyrnar að heimili þínu standa opnar allan sólarhringinn“.

 

Einungis með því að vera aðgengilegur, hitta kjósendurna á umræðufundum og opna heimili sitt fyrir þeim, gat frambjóðandi sýnt þá skuldbindingu sem með þurfti til að fara með sigur af hólmi.

 

Bróðirinn Quintus sagði kjósendur hata þann frambjóðanda sem væri of önnum kafinn eða hafði öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa en að hlusta á kjósendur.

 

Quintus minnti bróður sinn jafnframt á að í Róm leyndust margir svikarar og loddarar, einkum meðan á kosningum stóð og fyrir vikið þyrfti hann stöðugt að vera var um sig.

Rómverjar kusu ávallt tvo ræðismenn, til að koma mætti í veg fyrir að einn einstaklingur fengi of mikil völd.

7. ráðlegging: „Fólk verður að muna eftir þér“

Quintus lagði áherslu á það við bróður sinn að kosningabarátta snerist um að vekja athygli á sér, láta í ljós brennandi áhuga og sýna gjafmildi.

 

„Leggðu nöfn og andlit fólks á minnið! Ekkert hefur djúpstæðari áhrif á kjósandann en frambjóðandi sem man hvað hann heitir!”

 

Þegar frambjóðendur hittu kjósendur á almennum umræðufundum í Róm höfðu þeir gjarnan með sér þræl sem hafði því hlutverki að gegna að hvísla laumulega að frambjóðandanum nöfn þeirra sem hann mætti. Með því móti gat hann vakið aðdáun kjósendanna og aukið líkur sínar á kjöri.

 

Við Íslendingar notum stundum útlenda orðið „kandidat“ yfir frambjóðanda en orðið á rætur að rekja til latneska orðsins candidatus sem þýðir „upplitaður“. Orðið vísar í upplituðu skikkjurnar sem frambjóðendur oft klæddust til að hafa áhrif á kjósendur sína.

Embætti veitti ævilöng áhrif

Í rómverska lýðveldinu var nauðsynlegt að uppfylla nokkur skilyrði til að hafa von um pólitísk embætti: Hafa þurfti rómverskan borgararétt, eiga umtalsverðar eignir og hafa gegnt herþjónustu í minnst tíu ár.

Opinberir málaflokkar skiptust á fimm embættismenn sem kölluðust yfirvald en þeir flokkuðust þannig eftir tign:

 

1.   Ræðismenn –

Æðstu stjórnendur lýðveldisins voru ræðismennirnir tveir. Meðal mikilvægustu hlutverka þeirra var að hafa yfirumsjón með rómverska hernum.

 

2. Manntals- og skattstjórar

Tveir slíkir embættismenn sáu um manntal í tengslum við m.a. skatttekjur. Þá höfðu manntals- og skattstjórarnir jafnframt heimild til að reka þingmeðlimi sem þeim hugnaðist ekki.

 

3. Dómgæslumenn –

Átta dómgæslumenn höfðu umsjón með réttarfari og sinntu stjórnun borgarinnar ef báðir ræðismenn voru á vígvellinum. Þeir fengu oft embætti sem héraðsstjórar eftir að embættistímabili þeirra í Róm lauk.

 

4. Byggingaeftirlitsmenn –

Fjórir slíkir störfuðu í Róm en þeir sáu til þess að allt gengi friðsamlega fyrir sig og höfðu jafnframt eftirlit með opinberum byggingum, vegum og kornbirgðum borgarinnar, auk þess að hafa eftirlit með bardögum skylmingaþræla.

 

5. Fjármálastjórar –

Neðstir í metorðastiganum voru svo fjármálastjórarnir en á tímum Ciceros voru þeir alls tuttugu talsins. Þeir höfðu umsjón með fjármunum ríkisins og bókhaldi þess, bæði innanlands og utan. Þegar stríð geisuðu fylgdi fjármálastjóri hvorum ræðismanni og höfðu þeir eftirlit með stríðsrekstrarfénu.

 

6. Öldungaráðið – hinn stöðugi valdhafi í rómversku stjórnmálalífi

Auk kjörinna embættismanna var að sjálfsögðu einnig um að ræða öldungaráðið sem samanstóð af fyrrum embættismönnum.

Allir þjóðkjörnir menn fengu sjálfkrafa sæti í öldungaráðinu um aldur og ævi og þegar Cicero var uppi voru þeir alls 600 talsins.

Ráðið kom reglulega saman í því skyni að rökræða og veita ræðismönnunum ráðleggingar. Í grundvallaratriðum var einungis um að ræða ráðgefandi samkomu sem þó í raun réttri hafði meiri áhrif en nokkurt annað yfirvald í Róm.

Ástæðan var sú að öldungaráðið var gífurlega valdamikið og hafði heimild til að taka ákvarðanir um alla mögulega hluti á sviði innanríkis- og utanríkismála, svo og í efnahags- og trúmálum.

Höfuð rómverskra fjölskyldna réðu að öllu leyti yfir konum og börnum fjölskyldunnar. 

Ráðlegging 8: „Þekktu stuðningsmenn þína”

Spunameistarar fyrirfundust ekki til forna en hins vegar skipti miklu máli að hafa á sínum snærum fólk sem gat látið frambjóðandann virðast vel liðinn og traustvekjandi.

 

Quintus sagði þetta verkefni vera í höndum fjölskyldu, vina og samherja á sviði stjórnmála. Allir skyldu standa saman og lofsama frambjóðandann í hvívetna, bæði í einkalífinu og á opinberum vettvangi.

 

Margir af samherjum Ciceros á sviði stjórnmála voru skjólstæðingar sem hann hafði varið við rómversku dómstólana og sem stóðu í þakkarskuld við hann.

 

„Þökk sé þér hafa skjólstæðingar þínir varðveitt eigur sínar, orðspor sitt og í sumum tilvikum, líf sitt, svo þið frambjóðendur skuluð ekki hika við að krefjast þess að þeir styðji við bakið á ykkur!“

Ráðlegging 9: „Fjölskyldan skiptir sköpum“

Latneska hugtakið „familia“ átti ekki eingöngu við um rómversku kjarnafjölskylduna, heldur allt heimilisfólkið, einnig þrælana. Brýnt var að öll fjölskyldan styddi framboðið, því smávægilegasti orðrómur, jafnvel frá þræli, gat haft verulega slæm áhrif á kosningabaráttuna.

 

„Gleymdu ekki fjölskyldu og þínum nánustu og gættu þess að hafa stuðning þeirra allra, því nánast allur neikvæður orðrómur sem berst til eyrna almennings, á rætur að rekja til fjölskyldu og vina“.

10. ráðlegging: „Ímynd vegur þyngra en raunveruleikinn“

Í leiðbeiningum sínum um hvernig sigra skuli í kosningum leggur Quintus áherslu á að sú mynd sem almenningur fái af frambjóðandanum þurfi ekki að vera í samræmi við veruleikann.

 

„Þú þarft að læra að skjalla og ljúga. Frambjóðandi verður að kunna að laga sig að fólki sem á vegi hans verður og að breyta skoðun sinni og tali eftir þörfum“.

 

Sá sem óskaði eftir kjöri til embættis þurfti að hafa breitt fylgi en það að njóta vinsælda, bæði æðstu manna þjóðfélagsins svo og almennings, var ekki auðvelt verk og krafðist þess oft að farið væri frjálslega með sannleikann.

 

Frambjóðendur með breitt fylgi í samfélaginu virtust vera meira sannfærandi en aðrir og öðluðust fyrir vikið enn meira fylgi.

Cicero hreyfði ekki við andmælum þegar hann var veginn, heldur beraði hnakka sinn til að auðvelda böðlunum verkið.

Cicero sigraði og var myrtur

Með öll þessi hollráð bróður síns í farteskinu var Cicero vel undir kosningabaráttuna búinn árið 64 f.Kr. Mótframbjóðendur hans voru Gaius Antonius Hybrida og Lucius Sergius Catilina sem báðir voru reyndir stjórnmálamenn en þó með eilítið vafasama fortíð.

 

Antonius var mjög svo skuldugur og hafði áður verið rekinn úr öldungaráðinu. Catilina var hins vegar þekktur fyrir að hafa framið blóðskömm með systur sinni og fyrir að táldraga unga drengi.

 

Cicero bar öruggan sigur af hólmi í kosningunum og varð þar með rómverskur ræðismaður. Hann ól með sér háleita drauma um einingu á sviði stjórnmála, samstöðu og styrkingu lýðveldisins en þeir draumar náðu aldrei að rætast.

 

Tímabilið einkenndist af borgarastyrjöld og gífurlegri togstreitu milli yfirstéttarinnar sem fór með völdin og almennings sem aðeins hafði takmarkaðan meðákvörðunarrétt.

 

20 árum síðar fór barátta Ciceros fyrir lýðveldinu endanlega alveg út um þúfur. Marcus Antonius fyrirskipaði að hann skyldi myrtur í borgarastríðunum sem geisuðu í kjölfarið á morðinu á Júlíusi Cesari árið 44 f.Kr. Cicero hafði áður gagnrýnt Marcus Antonius sem áleit sjálfan sig vera arftaka Cesars á sviði stjórnmála.

Lestu meira:

Quintus Tullius Cicero: How to Win an Election: An Ancient Guide for Modern Politicians, Princeton University Press, 2012.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Susanne William Rasmussen & Bue Kindtler-Nielsen

© DEA/G. Dagli Orti/Getty Images,© Look and Learn/Bridgeman Images,Heritage Images/Getty Images,© AKG-Images/Ritzau Scanpix,© Granger/Imageselect,© North Wind Picture Archives/Imageselect,© Shutterstock,© Christophel Fine Art/Getty Images,© Photo 12/Getty Images,© Hulton Archive/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

Lifandi Saga

Uppreisn Castros velti einræðisherranum úr sessi

Lifandi Saga

Ástæðan fyrir falli Tróju

Alheimurinn

Dálítill fróðleikur um eitt helsta afrek mannsandans 

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is