Ef þig langar að vita hversu hávaxið barnið þitt verður á fullorðinsárum er ekki nóg að líta bara á eigin líkamshæð og makans.
Þetta sýnir ný rannsókn þar sem vísindamenn hjá Queenslandháskóla í Ástralíu greindu DNA úr alls 5,4 milljónum fólks og afhjúpuðu alls um 12.000 genabreytur sem hafa áhrif á líkamshæð á fullorðinsaldri.
Vísindamennirnir segja niðurstöðurnar sýna að hægt sé að nota DNA til að spá nákvæmar um líkamshæð en nokkru sinni hefur verið unnt en jafnframt megi uppgötva leynda sjúkdóma mun fyrr en nú.
Vaxtarkúrvan frá barnsaldri fram á fullorðinsár, ásamt því hvaða hlutverki erfðir gegna í samhenginu hefur verið afar erfitt og óljóst viðfangsefni. Oft eru notaðar töflur þar sem stuðst er við líkamshæð móður og föður en niðurstöðurnar verða alltaf matskenndar.
Áströlsku vísindamennirnir ákváðu því að bera saman hæð og DNA úr meira en 280 mismunandi rannsóknum með sérstökum greiningarforritum.
Eftir þetta var hægt að benda á 12.111 genabreytur í grennd við þau gen sem stýra vexti beina.
Vísindamennirnir telja þessar breytur geta skýrt 40% af hæðarmun fólks af evrópskum uppruna. Til viðbótar álíta þeir 20% skýrast af umhverfisþáttum.
Nú vonast þeir til að uppgötvunin verði til þess að læknar geti fundið börn sem ekki vaxa í réttum takti við forskrift genanna og þar með fundið leynda sjúkdóma sem hamla vexti.