Vísindamenn eru sólgnir í greindarvísitölur, greindarmælingar, svo og tengslin á milli ýmissa þátta, annars vegar, og greindar, hins vegar, og fyrir vikið hafa verið gerðar mjög margar rannsóknir varðandi greind
Hér er að finna 8 vísindalega sönnuð sérkenni, venjur, eiginleika og atferlisathuganir sem öll má bendla við góðar gáfur.
Gætið þess þó að orsakasamhengið gengur ekki í báðar áttir, en með því er átt við að það nægir ekki að fá sér kött, grennast, drepa eldri systur eða hætta að nota hægri höndina til að öðlast góða greind.
Þar með er það sagt!
1. Þú reykir ekki
Árið 2010 var gerð viðamikil rannsókn í Ísrael sem tók til rösklega 20.000 ungra manna (18-21 árs) þar sem tókst að sanna bein tengsl á milli reykinga, annars vegar, og greindar, hins vegar.
Í þessari viðamiklu rannsókn tókst að sýna fram á að meðalreykingamaður/-kona, sem reykir minnst eina sígarettu á dag, er sjö stigum lægri á greindarprófum en þeir sem ekki reykja.
Meðalgreindarvísitala reykingafólksins nam 94, en þeir sem ekki reyktu voru að meðaltali með greindarvísitöluna 101.
2. Þú dýrkar ketti
Ef þú velur ketti sem gæludýr umfram hunda má búast við að greindarvísitala þín sé hærri en ella.
Þetta kom í ljós í rannsókn sem gerð var við Carroll háskóla í Bandaríkjunum árið 2014, þar sem 600 háskólanemar voru greindarprófaðir og síðan flokkaðir eftir því hvort þeir vildu frekar eiga hund sem gæludýr eða kött.
Stjórnandi rannsóknarinnar, Denise Guastello, útskýrði þetta á þann veg að samhengið milli þess að vera með góða greind og eiga kött gæti mætavel helgast af því hvaða manngerðir velja sér ketti eða hunda:
„Hundaeigendur eru að öllu jöfnu opnari og félagslyndari en þeir sem eru lokaðri persónuleikar og jafnvel viðkvæmari kjósa hugsanlega frekar að verja tímanum heima með bók og kettir gera engar kröfur um að farið sé út að ganga með þá.“
3. Þú ert hávaxin(n)
Því hefur oft verið haldið fram að hávaxið fólk sé með hærri menntun og sé hærra sett í atvinnulífinu og fái betri laun en ella.
Í rannsókn einni sem gerð var við Princeton háskóla í Bandaríkjunum árið 2006, þar sem unnið var úr gögnum frá bæði Englandi og Bandaríkjunum, tókst að sýna fram á tengsl milli líkamshæðar og greindar.
„Strax sem þriggja ára gömul börn, sem menntunarkerfið hefur enn engin áhrif haft á, fá hávaxin börn betri einkunn í vitrænum prófunum en þau lágvaxnari og þetta á við alla barnæskuna“, stóð i niðurstöðunum.
Þess má einnig geta að mjög mikil fylgni virðist vera milli þess að börn séu hávaxin á unga aldri og séu einnig löng þegar þau vaxa úr grasi, sögðu vísindamennirnir.
4. Þú ert elsta systkinið
Elsta barn í systkinahópi reynist oft vera það sem bestum gáfum er gætt.
Þetta er niðurstaða viðamikillar greiningar á gögnum frá Bandaríkjunum, Englandi og Þýskalandi, sem unnin var við háskólana í Leipzig og Mainz.
Unnin var víðfeðm gagnagreining á árinu 2015 sem leiddi í ljós að greindin fer lækkandi frá þeim elsta til hins yngsta í systkinahópi og að mælingarnar voru marktækar.
Á hinn bóginn virtist staðsetningin í systkinahópnum ekki hafa áhrif á það hvernig persónuleiki barnsins þróast, andstætt við það sem áður hafði verið talið.
5. Þú ert örvhent(ur)
Þetta átti eingöngu við um karla en þar voru tengslin mjög svo greinileg!
Sá eiginleiki, að geta hugsað „út fyrir kassann“, en með því er átt við að hafa yfir að ráða skapandi hugsun, sannar í raun ekki að viðkomandi sé gæddur góðum gáfum, heldur er hann vísbending um það, en þetta átti í miklum mæli við um örvhenta karla.
Þetta sýndu rannsóknarniðurstöður við British Columbia háskólann í Kanada.
Þar fundu vísindamenn þegar árið 1995 beina sönnun þess að örvhentir karlar væru betur til þess fallnir að beita skapandi, óhlutbundinni hugsun en ella. Áhrifanna gætti meir því örvhentari sem mennirnir voru, ef þannig má að orði komast.
Rannsóknin leiddi aftur á móti ekkert slíkt í ljós meðal kvenna og enginn munur virtist vera á getunni til að leysa vandamál eða að beita rökréttri hugsun, hvort heldur sem fólk var rétthent eða örvhent og átti það bæði við um karla og konur.
6. Þú hefur lært á hljóðfæri
Árið 2010 gerðu vísindamenn við Rotman rannsóknarstofnunina í Toronto rannsókn sem tók til tengsla á milli tónlistarnáms lítilla barna, annars vegar, og tungumálagreindar þeirra, hins vegar.
Bornir voru saman hópar 4-6 ára barna og hlaut annar hópurinn tónlistarkennslu í mánuð en hinn hópurinn fékk kennslu í myndmennt.
Og niðurstöðurnar voru sláandi.
Alls 90% barnanna sem fengu tónlistarkennslu sýndu marktæka hækkun tungumálagreindar samanborið við myndmenntarhópinn.
7.Þú ert grönn/grannur
Árið 2006 komust vísindamenn við háskólann í Toulouse í Frakklandi að raun um greinilegt samhengi milli líkamsþyngdarstuðuls miðaldra karla og kvenna, annars vegar, og minnis þeirra og tungumálagreindar, hins vegar.
Þátttakendur voru alls 2223 talsins, af báðum kynjum, og voru gerðar tilraunir með að muna orð, bera kennsl á orð, svo og að endurtaka orð sem þátttakendurnir höfðu séð.
Þeir þátttakendur sem voru með háan líkamsþyngdarstuðul voru að melatali 27% slakari en þeir sem grennri voru og niðurstöðurnar gáfu til kynna að þættirnir sem mældir voru versnuðu í takt við hærri stuðul.
Vísindamennirnir sem stjórnuðu rannsóknunum árið 1996 og 2001 staðhæfa þó að engin breyting hafi orðið á gáfnafari þátttakendanna, hvort sem þeir hafi lést eða þyngst á þessu umrædda tímabili!
8. Þú hefur prófað vímuefni
Börn með háa greindarvísitölu eiga síðar á lífsleiðinni mörg hver eftir að prófa vímuefni en þetta á síður við um börn með slakari greind, eða svo gefa afar umdeildar rannsóknarniðurstöður frá Cardiff háskóla til kynna, svo ekki verður um villst.
Rannsóknin frá árinu 2012 náði yfir 6.713 þátttakendur, sem voru greindarmældir sem ellefu ára og aftur þegar þeir voru 42 ára. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við reynslu þeirra af vímuefnum.
Tengslin voru einkar greinileg því í ljós kom að þeir sem höfðu prófað vímuefni voru að meðaltali með 15 stigum hærri greindarvísitölu, hvort heldur sem þeir höfðu prófað eina tegund vímuefna eða fleiri.
Vímuefnin sem um ræddi voru kannabis, kókaín, amfetamín og ofskynjunarsveppir.
Niðurstöðurnar voru einkar greinilegar meðal kvenna og vísindamennirnir halda því fram að bein tengsl séu á milli áhættuhegðunar, annars vegar, og góðrar greinar, hins vegar – einkum meðal kvenna.