Þjálfið heilann: Málgreind

Mótið tungumálið líkt og listaverk. Eða lærið erlent tugumál jafn vel og móðurmálið. Vísindamenn hafa komist að raun um hvernig tónlist getur bætt málgreindina.

BIRT: 24/10/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Tekst þér að mala andstæðinginn í öllum rökræðum? Eða geturðu lært nýtt tungumál á aðeins örfáum vikum?

 

Nei? Þá er þörf fyrir að þjálfa málgreindina og vísindamenn hafa nú fundið einstaka leið til að hjálpa okkur að ná tökum á orðum.

 

Börn þjálfast í að hlusta á tónlist

Árið 2011 gerðu kanadískir vísindamenn tilraunir með tungumálagetu alls 48 barna á aldrinum fjögurra til sex ára.

 

Börnunum var skipt í tvo hópa og tók hvor hópur þátt í fjögurra vikna löngu þjálfunarferli þar sem þau áttu að leysa ýmiss konar verkefni sem litríkar teiknimyndapersónur kynntu á stórum skjá.

 

Hjá öðrum hópnum fólu kennslustundirnar í sér verkefni sem þjálfuðu sjónræna hæfileika, svo sem það að greina að form og liti og skilja lögun og víddir.

 

Hinn hópurinn hlaut kennslu sem byggðist á tónlist. Börnunum var m.a. ætlað að finna réttan tón, mynda eða greina að tiltekna takta, svo og að syngja.

Hið svonefnda Broca-svæði heilans er ein þeirra heilastöðva sem tengjast bæði máli og tónlist.

Tónlist bætir málið

Niðurstöður rannsóknarinnar voru alveg ótvíræðar. Myndræna þjálfunarferlið bætti engan veginn tungumálagetu barnanna en á hinn bóginn kom í ljós að 90 prósent barnanna í tónlistarhópnum spjöruðu sig umtalsvert betur þegar þau voru prófuð eftir þjálfunina, heldur en þau höfðu gert fyrir.

 

Tónlist og tungumál tengjast

Gagnleg áhrif tónlistarinnar á tungumálafærni kunna að leynast í heilaberkinum.

 

Sá hluti heilans virkjast við tónlistarkennslu og skiptir sköpum fyrir hvernig við vinnum úr því sem við skynjum, m.a. því sem við heyrum.

 

Með því að þjálfa tengingar heilabarkarins verðum við hugsanlega færari um að greina í sundur hljóð og að vinna með orð.

 

Tengslin á milli tónlistar og tungumáls eiga sér sennilega enn dýpri rætur.

 

Margir vísindamenn eru þeirrar skoðunar að tónlist hafi myndast áður en tungumál urðu til og að geta forfeðra okkar til að dansa og syngja hafi orðið kveikjan að fyrstu orðum mannsins.

BIRT: 24/10/2022

HÖFUNDUR: ANDREAS ANDERSEN & CHRISTIAN JUUL

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock, © Database Center for Life Science(DBCLS)

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.