13 mest töluðu tungumál heimsins

Hvað er útbreiddasta tungumál heims? Svarið er á listanum hér fyrir neðan.

BIRT: 21/08/2022

LESTÍMI:

4 mínútur

Hversu mörg tungumál eru til í heiminum?

Ethnologue er virt tímarit sem hefur komið út árlega síðan árið 1951 og er gefið út af málvísindasamtökunum SIL international.

 

Í ritinu eru birtar upplýsingar og tölfræði um tungumál og málnotkun um allan heim og samkvæmt tölum frá Ethnologue árið 2021 eru 7.139 tungumál í heiminum.

 

Í Ethnologue þarf tungumál að uppfylla kröfur sem byggjast fyrst og fremst á gagnkvæmum skiljanleika þeirra sem tala málið.

 

Aðeins nokkur þúsund manns tala mörg tungumál en önnur tungumál eru töluð af milljónum um heim allan. Reyndar eru 80 „stór“ tungumál töluð af 80% jarðarbúa en 3.600 lítil tungumál eru töluð af aðeins 0,2%.

 

Vissir þú að til er orð sem tekur 3,5 klukkustundir að segja? Lestu meira í grein okkar um lengsta orð í heimi.

Mörg tungumál munu hverfa

Málfræðingar telja að helmingur allra tungumála verði útdauð eftir 100 ár. Þetta stafar meðal annars af því að eldri kynslóðir sem tala sjaldgæfu málin eru að hverfa og að yngri kynslóðir tala hið ríkjandi tungumál í auknum mæli.

 

Þessi þróun hefur til dæmis sést í Afríku og meðal frumbyggja Norður-Ameríku.

 

Það kemur þó fyrir að hægt er að endurvekja tungumál. Dæmi er hebreska. Tungumálið var aðeins notað við bænahald en í lok 19. aldar var það endurvakið og er talað í dag af um níu milljónum manna.

Hér eru mest töluðu tungumál heimsins

Mest töluðu tungumálin eru:

 • Enska

 

 • Kínverska

 

 • Hindí

 

 • Spænska

 

 • Arabíska

 

 • Bengalska

 

 • Franska

 

 • Rússneska

 

 • Portúgalska

 

 • Úrdú

 

 • Indónesíska

 

 • Þýska

 

 • Japanska

 

Kíktu á tungumálin hér að neðan, þar sem þú getur lesið hversu margir tala tungumálið og hvar þau eru mest töluð. Þú getur einnig lesið um hversu margir hafa þessi tungumál að móðurmáli.

 

1. Enska er mest talaða tungumál heims

Enska er mest talaða tungumál heims með allt að 1.348 milljónir manna sem kunna tungumálið.

 

Aftur á móti er fjöldi fólks sem hefur ensku að móðurmáli aðeins um 379 milljónir.

 

Stærstu enskumælandi löndin eru: Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Bretland.

 

2. Kínverska (mandarín)

Kínverska er elsta ritmál heimsins, um 6.000 ára gamalt. Kínverska samanstendur af mörgum mismunandi mállýskum sem þó eru flokkaðar sem þeirra eigin tungumál.

 

Um 1,4 milljarðar manna búa í Kína en um 70 prósent íbúanna tala mandarín sem er ein af ástæðunum fyrir því að tungumálið er ofarlega á listanum. Í Kína eru einnig til mállýskur eins og kantónska sem er töluð af 60 milljónum og Wu sem er töluð af 81,4 milljónum Kínverja.

 

Um 1.120 milljarðar manna tala mandarín og 918 milljónir hafa mandarín sem móðurmál. Tungumálið er aðallega talað í Kína, Singapúr, Taívan og Malasíu.

Um 1,4 milljarðar manna búa í Kína og flestir tala mandarín.

3. Hindí

Hindí er hið opinbera tungumál Indlands og ekki mikið talað utan þess. Alls er talið að um 600 milljónir manna tali hindí og 341 milljón manns hafi hindí að móðurmáli.

 

Hindí er byggt á Delhi mállýskunni og áður en opinbera tungumálið var staðlað voru nokkrar aðrar mállýskur eins og hindústaní, kraj, kanújí, búndelí, bangarú og avadí.

 

Avadí mállýskan er í dag töluð af aðeins um 4,35 milljónum manna.

 

4. Spænska

Spænska er töluð af 543 milljónum manna og er það fjórða útbreiddasta tungumál heims. Meirihluti þeirra sem tala spænsku, 480 milljónir manna, hafa tungumálið sem móðurmál. Spænska er aðallega töluð á Spáni, í Mexíkó, Mið- og Suður-Ameríku og Bandaríkjunum.

 

5. Arabíska

Eins og kínverska og hindí, samanstendur arabíska af nokkrum mismunandi mállýskum. Almennt er þeim skipt í þrjá hópa:

 

 • Nútíma arabíska

 

 • Klassísk arabíska

 

 • Mállýskurnar

 

Þegar talað er um arabísku er venjulega átt við nútíma arabísku – sem er mest talaða arabíska tungumálið – og tungumálið sem er númer fimm á lista okkar yfir mest töluðu tungumál í heimi.

 

Talið er að 274 milljónir manna tali arabísku og um 200 milljónir manna hafa nútíma arabísku sem móðurmál.

 

Arabíska er aðallega töluð í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og mestum hluta Arabíuskagans.

 

Fimm stærstu tungumál í heiminum eru því: enska, kínverska (mandarín), hindí, spænska og arabíska.

 

6. Bengalska

Bengalska er aðallega töluð í Bangladess og Indlandi. Samkvæmt listanum frá árinu 2021 frá Ethnologue eru 268 milljónir manna sem tala bengölsku og 228 milljónir manna hafa tungumálið sem móðurmál.

 

7. Franska

Í sjöunda sæti finnum við aftur evrópskt tungumál – frönsku. Franska er töluð af 267 milljónum manna um allan heim.

 

Hins vegar hafa aðeins 77,2 milljónir manna frönsku sem móðurmál.

 

Tungumálið er upprunnið í Frakklandi og hefur breiðst út til Kanada, Belgíu og Sviss. Þar er franskan móðurmál ásamt ensku, þýsku eða flæmsku.

 

Hlutar Vestur- og Norður-Afríku hafa einnig frönsku sem móðurmál en þar eru margar fyrrverandi franskar og belgískar nýlendur.

 

8. Rússneska

Rússneska er töluð af 258 milljónum manna í heiminum og 154 milljónir manna hafa rússnesku sem móðurmál. Rússneska er aðallega töluð í Rússlandi, Úkraínu og hlutum Asíu.

Margir eru rússneskumælandi í löndum sem eitt sinn voru hluti af Sovétríkjunum, eins og t.d. í Kasakstan, Kirgistan og Eistlandi.

9. Portúgalska

Tungumál sem margir á Íslandi búast ekki við að sé á lista yfir mest töluðu tungumálin, þar sem Portúgal er eitt af minni löndum Evrópu með tiltölulega fáa íbúa.

 

Skýringin er sú að portúgalska er ekki bara töluð í Portúgal heldur einnig í löndum eins og Brasilíu, Angóla og Mósambík.

 

Portúgalska er töluð af 258 milljónum manna og 221 milljón hefur tungumálið sem móðurmál.

 

10. Úrdú

Úrdú er töluð af 230 milljónum manna, aðallega í Indlandi og Pakistan. 68,6 milljónir manna hafa úrdú að móðurmáli.

 

11. Indónesíska

Indónesíska er töluð af 199 milljónum manna og 43,4 milljónir hafa indónesísku sem móðurmál. Tungumálið er aðallega talað í Indónesíu.

Indónesíska er í 11. sæti yfir útbreiddustu tungumál heims.

12. Þýska

Þýska er töluð af 135 milljónum manna og er opinbert tungumál Þýskalands, Sviss, Austurríkis, Lúxemborgar og Belgíu. Í sumum landanna eru nokkur opinber tungumál, til dæmis í Belgíu og Sviss.

 

76,1 milljón manns hafa þýsku sem móðurmál.

 

13. Japanska

Japanska er töluð af 126 milljónum manna og um það bil jafn margir hafa tungumálið sem móðurmál.

 

Tungumálið er aðallega talað í Japan.

Minnstu töluðu tungumál heims

Nokkuð mörg lítil tungumál eru í yfirvofandi útrýmingarhættu. Hér eru þrjú þeirra.

 

Taushiro – Taushiro er tungumál sem eitt sinn var talað af þúsundum á Amasónsvæðum Perú. Í dag talar aðeins einn maður tungumálið.

 

Tanema – Eins er bara einn eftir sem talar Tanema. Tanema er tungumál sem finnst á Vanikoro á Salómonseyjum. Flestir á eyjunum í dag tala Teanu.

 

Ongota – Ongota tungumálið er notað af örfáum í Eþíópíu. Í könnun frá 2012 kom í ljós að aðeins 12 aldraðir töluðu enn tungumálið í suðvesturhluta landsins.

BIRT: 21/08/2022

HÖFUNDUR: LARS THOMAS

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock,© BartlomiejMagierowski / Shutterstock.com,© AsiaTravel / Shutterstock.com

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is