Ef tré gætu talað mætti trúlega greina mörg örvæntingaróp í skógum Þýskalands.
Viðamikil rannsókn þýska landbúnaðarráðuneytisins sýnir nefnilega að heilsufar þýsku trjánna er síður en svo upp á það besta.
Nánar tiltekið hafa aðeins 21% trjánna fullvaxnar trjákrónur – atriði sem vísindamennirnir notuðu í rannsókninni til að leggja mat á heilbrigði trjánna. Langstærstur hluti þeirra 10.000 trjáa sem athuguð voru, reyndist hafa goldið tíð þurrka- og hitatímabil dýru verði.
Samkvæmt þessum gögnum landbúnaðarráðuneytisins er ástandið að stórum hluta að rekja til sumarsins 2022 sem víða í landinu var bæði þurrt og heitt.
Jafnvel rigningarmánuðirnir í lok árs 2022 og í ársbyrjun 2023 hafa ekki náð að bæta trjánum vatnsskortinn sem hrjáð hefur Þýskaland síðan 2018 en mörg þurr sumur hafa skilið eftir sig skýr ummerki.
Fjórar trjátegundir sem að samanlögðu mynda um fjórðung allra trjáa í Þýskalandi hafa orðið sérlega illa úti. 40% grenitrjáa eru með skaddaðar trjákrónur. Hið sama gildir um 28% af furutrjám, 45% af beykitrjám og 40% eikartrjánna.