Æðamynstrið á handarbakinu er jafn einstaklingsbundið og fingraförin og því unnt að nota það til að bera kennsl á fólk.
Og nú hafa vísindamenn hjá háskólanum í Nýja Suður-Wales í Ástralíu þróað tæknina sem til þarf. Þeir taka innrauða mynd í háupplausn af æðunum og láta gervigreindartölvu þekkja mynstrið.
Á innrauðri mynd sjást æðar sem skýrt afmarkaðar. Mynstrið er einstaklingsbundið (innfelldar myndir).
Vísindamennirnir prófuðu tæknina í tilraun með því að taka alls 500 myndir af höndum 35 einstaklinga. Tölvan lærði því næst að bera kennsl á hvern og einn á grundvelli myndanna.
Eftir það greindi tölvan nýjar myndir af höndum sömu einstaklinga rétt í 99,8% tilvika.
Kemur í veg fyrir svindl
Nýja aðferðin getur orðið góð viðbót við aðrar kennsluaðferðir, svo sem fingraför eða andlitskennsl.
Fingrafaraskanna er hægt að plata með því að afrita fingrafar af sléttum fleti og sýna skannanum það í stað eigin fingurs. Á svipaðan hátt má gabba andlitskennslaforrit með ljósmynd en andlitskennsl hafa líka þann veikleika að virka mis vel eftir húðlit.
Æðaskanninn er alveg laus við slíka galla. Áströlsku vísindamennirnir segja auðvelt að setja upp slíkan skanna í farsíma og telja hann líka geta gagnast í vöktunarmyndavélum.