Sjáaldrið er op sem gegnir því hlutverki að stilla hversu miklu ljósmagni er hleypt inn í gegnum augað og að nethimnunni á bak við það.
Í mjög björtu ljósi lokast sjáaldrið næstum alveg til að koma í veg fyrir að augað skaddist af of miklu ljósi, en í myrkri opnast það eins mikið og hægt er, til að það litla ljós sem greina má, nái alla leið að hinum ljósnæmu frumum nethimnunnar.
Húskötturinn er að uppruna til náttrándýr og ljósopið í augum hans er líkast lóðréttri rifu í laginu.
Þannig virkar það ekki ósvipað og tvö gluggatjöld sem draga má frá eða fyrir með vöðvaafli allt eftir því hversu miklu ljósi á að hleypa inn.
Að degi til eru þessi tjöld næstum alveg dregin fyrir og ljósið kemst aðeins í gegnum þrönga rifu. Í myrkri eru sjáöldur kattarins hins vegar galopin og þá nánast alveg hringlaga í útliti.
Ekki er vitað með vissu hvernig á því stendur að náttdýr skuli hafa rifulaga sjáöldur. Sumir dýrafræðingar telja augu dýranna dyljast betur í myrkrinu en aðrir eru þeirrar skoðunar að sjónin verði skarpari af þessum sökum.
Og nýlega hafa tveir vísindamenn við háskólann í Lundi í Svíþjóð sett fram alveg nýja kenningu um það hvers vegna rifulaga sjáöldur séu náttdýrum heppileg.
Líffræðingarnir tveir rannsökuðu augun í fjölda tegunda dýra og komust að því að næstum öll dýr með rifulaga sjáöldur geta jafnframt fókuserað samtímis á marga punkta.
Í þessum dýrum skiptist augasteinninn – eða “linsa” augans – í allmörg “svæði” sem hvert um sig skynjar ákveðna bylgjulengd ljóss. Þetta veitir dýrunum margfalt betra litaskin í rökkri en gerist hjá öðrum tegundum.
Litaskinsvæðin liggja sem hringur utan um hring út frá miðju augans og þar með hefur rifulaga sjáaldur augljósan tilgang.
Langt og mjótt sjáaldur að degi til hleypir ljósi að öllum litaskynsvæðum en hringlaga sjáaldur sem drægist saman að miðjunni myndi loka hverju litaskynsvæðinu á fætur öðru.
Þannig hafa þessi dýr einnig gott litaskyn í dagsbirtu.