Mismunandi blóðflokkar stafa af því að manneskjur eru með ólíkar sameindir á yfirborði rauðu blóðkornanna.
Hjá mannkyni er að finna margvísleg blóðflokkakerfi en eitt af því mikilvægasta sem horft er til, þegar leitað er að heppilegum blóðgjafa er svonefnt ABO-kerfi.
Það eru alls fjórir flokkar í ABO-kerfinu:
- A blóðflokkur
- B blóðflokkur
- O blóðflokkur
- AB blóðflokkur
Sykursameindir ákvarða blóðflokk þinn
Manneskjur sem hafa O blóðflokk eru með kolvetni á yfirborði rauðu blóðkornanna sem nefnast H-mótefnisvakar.
Hjá þeim sem eru með A blóðflokk tengist sykursameind H-mótefnisvakanum og nefnist hún N-acetýl-galaktósamín.
Hjá mönnum með B blóðflokk er það sykursameindin galaktósi sem tengist H-mótefnisvakanum. Manneskjur með AB blóðflokk eru bæði með N-acetýl-galaktósamín og galaktósa sem tengjast H-mótefnisvakanum.
Manneskjur með ólíka blóðflokka hafa mismunandi ensím sem tengja sykursameindir á H-mótefnisvakann.
Stökkbreytingar orsaka mismunandi blóðflokka
A-genið kóðar fyrir ensím sem festir N-acetýl-galaktósamín á H-mótefnisvakann, meðan B-genið kóðar fyrir ensím sem tengir galaktósa.
A-genið er eldra en B-genið myndaðist einhvern tímann út frá A-geninu með tilviljanakenndum stökkbreytingum.
O-genið hefur einnig myndast út frá A-geninu með tilfallandi stökkbreytingum en í því tilviki eru það stökkbreytingar sem hafa eyðilagt genið þannig að það myndar engin ensím.
Stökkbreytingar eiga sér stöðugt stað í erfðaefninu vegna t.d. útfjólublárrar geislunar, kemískra efna eða galla sem koma fram við frumuskiptingu.
Í flestum tilvikum erfast ekki stökkbreytingarnar til næstu kynslóðar, þar sem mörg gen eru lífsnauðsynleg. Því getur frjóvgað egg með skaðlega stökkbreytingu yfirleitt ekki þroskast í heilbrigt barn.
LESTU EINNIG
Blóðflokkur þinn er arfgengur
Allar manneskjur tilheyra einum af þessum fjórum blóðflokkum: A,B,O og AB sem erfast frá foreldrunum.
Blóðflokkarnir A og B eru ríkjandi gagnvart O. Það felur í sér að erfi barn t.d. A frá einu foreldri en O frá hinu, þá fær barnið blóðflokkinn A. En þeirra börn geta áfram fengið A og O. Erfi maður hins vegar A frá öðru foreldri og B frá hinu, þá fær maður blóðflokkinn AB.
Mismunandi blóðflokkar einkennast af mótefnisvökum sínum eða skorti á þeim.
Blóðflokkur þinn veitir þér sérstakan ávinning
Til eru margvísleg gen sem eru ekki beinlínis lífsnauðsynleg en eru samt gagnleg. Hvað varðar slík gen, þá má finna gölluð afbrigði af viðlíka genum hjá mönnum en þau eru afar fátíð.
O blóðflokkurinn sem stafar af gölluðu geni, er samt hreint ekki sjaldgæfur: 56% Íslendinga eru nefnilega með blóðflokk O. Það hlýtur í þessu tilviki að vera kostur að hafa þetta gallaða gen.
Ein möguleg skýring er sú að mótefnin gegn A- og B-formum H-mótefnisvakans sem er að finna í öllum með O blóðflokk, gegni veigameira hlutverki í baráttunni gegn sýkingum af völdum sumra baktería og veitir jafnframt nokkra vernd gegn malaríu.
Fólk sem hefur O blóðflokk er samt viðkvæmara fyrir öðrum bakteríum sem og kóleru. Þess vegna fylgja bæði kostir og gallar hinum virku genum A og B og hinu gallaða geni O blóðflokks. Það er ástæða þess að allir eru þessir blóðflokkar til.
ABO-blóðflokkakerfið er að finna hjá mönnum, simpönsum, górillum, orangútönum og bavíönum. Uppruna þess er að finna hjá sameiginlegum forföður allra þessara dýrategunda en stökkbreytingar hafa valdið ýmsum afbrigðum meðal þeirra.
Hjá mönnum er að finna önnur blóðflokkakerfi og aðrar dýrategundir hafa að sínu leyti allt önnur blóðflokkakerfi. Sem dæmi er mikilvægasta blóðflokkakerfi hjá hundum DEA-1 – dog erythrocyte antigen.