Um það bil fimm prósent fólks upplifa sem börn að ganga í svefni en í langflestum tilvikum hverfur þessi næturstarfsemi alveg af sjálfu sér þegar þau verða fullorðin.
Svefnganga er truflun á svokölluðum hægbylgjusvefni (slow-wave sleep), dýpsta stigi svefns.
Svefngenglar reisa sig upp í rúminu í miðjum, djúpum, draumlausum svefni. Sofandi og ómeðvitaðir geta þeir gengið um og talað í nokkrar mínútur.
Stundum geta svefngenglar framkvæmt flóknar aðgerðir, svo sem að flytja húsgögn, fara í föt og elda og árið 2005 skreið bresk stúlka jafnvel út á krana. Dæmi eru um að svefngenglar hafi keyrt bíl talsverða vegalengd.
Yfirleitt enda svefngenglarnir aftur upp í rúmi og sofa áfram. Þegar þeir vakna næsta dag muna þeir oftast ekki neitt hvað gerðist.
Lítill svefn, óþroskað taugakerfi og kvíði
Á fullorðinsaldri er ganga í svefni oft tengd miklu svefnleysi og óreglulegum svefni. Til að koma í veg fyrir það er ein besta leiðin að sofa vel og mikið.
Sumir vísindamenn hafa tengt svefngöngu hjá börnum við að miðtaugakerfi þeirra er frekar vanþroskað en hjá fullorðnum hefur það verið tengt geðröskunum eins og geðklofa og kvíða.
Að auki benda sumar rannsóknir til þess að þeir sem þjást af mígreni gangi frekar í svefni en aðrir. Þetta eru þó einangraðar rannsóknir sem þarf að taka með fyrirvara, þannig að í raun vita vísindamenn ekki mikið um orsakir svefngöngu.
Svefnganga er ekki hættuleg
Þrátt fyrir að svefngenglar hafi í sumum tilvikum dottið niður stiga eða út um glugga, telja vísindamenn ekki að fyrirbærið sjálft sé hættulegt.
Ástandið þarfnast ekki meðferðar svo lengi sem svefngangan skapi ekki hættu fyrir svefngengilinn né aðra nálægt honum.