Það getur verið sárt að bíta sig í tunguna en til allrar lukku er sárið mjög fljótt að gróa.
Hluti skýringarinnar er sá að aðstæður í munninum uppfylla allar sáragræðslukröfur mjög vel. Sár í munninum helst t.d. stöðugt rakt og það hjálpar til.
Skurfa á hné þornar hins vegar og fyrir bragðið deyja fleiri frumur sem svo þýðir að líkaminn þarf að leggja meira verk í að græða sárið.
Raki flýtir græðslunni, m.a. með því að koma frumunum til að skipta sér hraðar.
Tennurnar eru aðalskúrkurinn
- Hvað:
- Lítil sár á tungu eru algeng. Þau myndast m.a. í íþróttum við tal eða máltíð og stundum jafnvel í svefni.
- Hvernig:
- Sár á tungunni stafa oftast af tönnunum svo sem þegar þú bítur í tunguna um leið og þú tyggur.
- Hvar:
- Tungubroddurinn er í mestri hættu. Sár aftar á tungunni valda þó meiri sársauka vegna stærri tauga.
Rannsóknir sýna að raki lágmarkar þann fjölda frumna sem valda bólgum. Við bætist að hættan á því að bakteríur komist í sárið og valdi bólgum er miklu minni innan í líkamanum en utan á honum.
Á síðari árum hafa vísindamenn uppgötvað ýmis áður óþekkt atriði sem gagnast munninum við að græða sár.
Bandarískir vísindamenn undir forystu líffræðingsins Mariu Morasso sýndu þannig fram á það árið 2018 að gen sem stuðla að sáragræðslu eru stöðugt virk í munninum en annars staðar í líkamanum virkjast þau ekki fyrr en húðin rofnar.
Árið áður höfðu síleskir vísindamenn uppgötvað hvernig vissar amínósýrur, svonefnd histatín sem er að finna í munnvatni, örva húðstofnfrumur til að mynda lag yfir sárbotninn.
Þannig er sárið byggt upp neðan frá, hvort heldur það er í tungu eða kinn og örvefur verður þess vegna sáralítill.