Af hverju klæjar mann í sár?

Það virðist órökrétt að finna þörf til að klóra í sár af því að þá er hætta á að þau rifni upp. Hvers vegna klæjar mann í sár?

BIRT: 28/10/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Kláði í sárum er óhjákvæmilegur því heilunarferlið virkjar svokallaðar kláðataugar í ysta lagi húðarinnar.

 

Í húðinni eru fjölmargar gerðir tauga og hver gerð fyrir sig getur verið næm fyrir kulda, hita, sársauka, höggum eða léttum þrýstingi. Kláðataugar nema tiltölulega fíngerð áhrif, svo sem þegar fluga spígsporar á handlegg eða dropi af sítrónusafa fellur á húðina. Við slíka ertingu senda kláðataugarnar heilanum boð um kláðatilfinningu.

 

Meðan sárið er að gróa skipta frumur í sárabörmunum sér og færa sig inn í sárið þar sem þær tengjast öðrum og draga sig saman. Þannig toga þær í sárabarmana til að sárið lokist fyrr. Þegar húðfrumur færa sig virkjast kláðafrumur á svæðinu.

 

Efni virkja kláðann

Kláðataugarnar verða líka fyrir áhrifum af efnum sem losna í sárinu í tengslum við bólguástand í húðinni.

 

Löngunin til að klóra sér kviknar af viðbrögðum í mænunni, þannig að við berum höndina sjálfkrafa að kláðasvæðinu. Þetta eru í rauninni heppileg viðbrögð þar eð kláðinn stöðvast strax og við núum sárið og þannig linast kláðatilfinningin um stund.

 

Ef við klórum sárið upp, eigum við þó á hættu að trufla lækningaferlið, þannig að sárið verður lengur að gróa og skilur fremur eftir sig ör.

Fjögur skref kláðans

1: Kláðataugar í húðinni virkjast af heilunarferlinu sjálfu, t.d. þegar sárabarmarnir dragast saman. Kláðataugar senda boð um kláða.

 

2: Heilinn meðtekur kláðaboðin og viðkomandi fer að klóra sér. Sársaukataugar í sárinu virkjast og tilkynna heilanum um sársauka.

 

3: Heilinn meðtekur sársaukaboðin og heilastúkan reynir að lina sársaukann með því að losa efnið serótónín.

 

4: Hluti serótónínsins berst út í sárið með blóðrásinni. Þar virkjar efnið kláðataugarnar upp á ný og kláðatilfinningin verður ákafari.

 

Kláði við mýbit

Munnvatn mýflugu veldur ofnæmisviðbrögðum í húðinni og stungan veldur þess vegna kláða.

 

Að klóra í mýbit getur stöðvað kláðann um stund vegna þess að virkni sársaukatauga í kring eykst. Þetta stafar af því að sársaukataugarnar hamla boðum frá kláðataugum.

 

Engu að síður klæjar okkur fljótlega aftur vegna efna sem virkja kláðataugarnar á ný.

 

BIRT: 28/10/2022

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.