Sumir hafa á orði að vera orðnir þreyttir eftir allt þetta ferska loft en það er reyndar alls ekki svo.
Súrefnisinnihald loftsins er 21% hvort heldur er úti eða inni og við öndum ekki að okkur meira súrefni en við höfum þörf fyrir, þannig að það er ekki loftið sjálft sem veldur þreytunni.
Mun trúlegri skýring á þreytunni er sú að við reynum yfirleitt meira á líkamann þegar við verjum deginum úti en ef við höldum okkur innandyra. Þetta skýrir þó ekki hvers vegna okkur finnst við vera þreytt eftir „allt þetta ferska loft“, ef við höfum t.d. bara legið í sólbaði á ströndinni allan daginn eða eytt deginum sem aðgerðalaus farþegi um borð í seglbáti.
Skýringin er þá öllu fremur sú að þreytan stafi af þeim mikla fjölda skynhrifa sem við verðum fyrir utandyra.
Vindurinn, hitinn, kuldinn, sólskinið, hljóðin og allt það sem fyrir augu ber, dynur í sífellu á skilningarvitunum og veldur þreytu. Þetta er m.a. reynsla meðferðaraðila sem fást við að örva veikburða skynjun fjölfatlaðs fólks.
Slík meðferð fer vissulega ekki fram úti, heldur í sérstökum herbergjum, þar sem hinn fatlaði liggur oft á gutlandi vatnsrúmi og margvísleg hljóð eru spiluð: tónlist, öldugjálfur, sjávarniður eða jafnvel hvalasöngur og mislit lýsing færist yfir veggi og loft.
Þetta hefur mjög örvandi áhrif á hinn fatlaða en strax eftir 15-20 mínútur geta öll þessi skynhrif verið orðin of mikil og þá á fólk til að sofna.