Það er mikilvægt að kortleggja höfin, m.a. vegna siglinga og til að hafa yfirsýn yfir fiskistofna. Til viðbótar hafa sjávarstraumar áhrif á loftslagið þar eð sjávarstraumar gegna meginhlutverki varðandi tilflutning og dreifingu sjávarhita um hnöttinn.
Þess vegna reyna samtökin Seabed 2030 nú að draga saman heildarmynd af hafdjúpunum. Mikið af þessum nýju gögnum eru fengin úr mælingum sem þegar eru gerðar og stjórnvöld margra landa hafa nú gert öllum aðgengilegar. Meiri gögn væri þó hægt að opinbera en víða ríkir ótti við að afhjúpa leyndargögn í umsjá herflotamálastjórna.
„En ríki þurfa ekki að hafa áhyggjur af að birta upplýsingar um höfin. Við þurfum ekki gögn í bestu mögulegu upplausn – miklu minna dugar,“ segir Jamie McMichael-Phillips, yfirmaður samtakanna.
Gráu svæðin á kortinu sýna þekkt dýpi. Rauðu svæðin hafa bæst við síðastliðið ár
Það er japanska Nippon-stofnunin sem fjármagnar Seabed 2030. Samtökin biðja sem flesta að hjálpa til við að kortleggja heimshöfin. Til þess þarf þó að vísu skip og tiltekin rafeindatæki. Lestu meira hér.
Auðmaður í Texas, Victor Vescovo, hefur lagt í púkkið kortlagningu meira en þriggja milljóna ferkílómetra með eigin neðansjávarbáti.
Það er risavaxið verkefni að kortleggja dýpið í öllum heimshöfunum, ekki síst í nánd við pólana. Nú hefur náðst að mæla 23,4% og unnið er að þróun neðansjávardróna sem hægt er að fjarstýra og geti gert mælingar á mun ódýrari hátt en úr hefðbundnum skipum með fullri áhöfn.