Árið 1304 setti enski læknirinn John frá Gaddesden sér markmið: Hann hugðist semja allsherjarrit um læknis- og lyfjafræði sem starfsbræður hans gætu notað sem uppflettirit til að finna viðeigandi lækningameðferð.
Bókina kallaði hann „Rosa medicinae“, því líkt og rósin var álitin vera fremst allra blóma taldi höfundurinn sem ekki beinlínis leið fyrir hógværð, verk sitt vera það fremsta sem nokkur læknir hefði samið.
Brýn þörf var fyrir læknisfræðirit í Englandi á miðöldum því þriðja hvert barn lést á fyrsta aldursári, meðalaldur fólks var einungis 50 ár, auk þess sem faraldrar geisuðu reglulega og drógu hundruð þúsunda til dauða.
Líkt og hefðin bauð vitnaði John frá Gaddesden í ýmsa gríska og rómverska heimspekinga sem ritað höfðu um það rösklega þúsund árum fyrr hvernig þeir teldu líkamann starfa.
Í ritinu „Rosa medicinae“ var enn fremur að finna ýmsar lækningaaðferðir sem höfundurinn hafði frá enskum starfsbræðrum sínum, skottulæknum eða hafði sjálfur reynslu af að beita. John frá Gaddesden mælti t.d. með þessari lækningu gegn timburmönnum:
„Þvoið eistun upp úr salti og ediki“.
Fjölmörg læknisfræðirit frá miðöldum innihalda ráð til að rannsaka neðri svæði líkama sjúklings. Hér myndasyrpa úr frönsku riti.
Konur skyldu hins vegar smyrja blöndunni á brjóst sín. Báðum kynjum ráðlagði hann að snæða kál og sykur þar til þynnkan færi að dvína.
Farið í bað með soðnum ketti
Sjúklingar sem þjáðust af slæmum verkjum í útlimum höfðu hins vegar þörf fyrir svæsnari aðferð:
„Takið tvo unga ketti, skerið upp á þeim kviðinn og fjarlægið innyflin sem þið síðan sjóðið með ýmsum jurtum. Notið síðan vatnið til að baða sjúklinginn í“.
Annar möguleiki var samkvæmt bókinni að „sjóða fitu úr ketti og hundi og fylla síðan vömbina á fláðum, svörtum ketti með fitunni. Þá skyldi steikja köttinn og bera soðið á alla þá staði sem viðkomandi fyndi til í“.