Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

Plöntufræ geta legið lengi í jörðu áður en þau byrja að spíra. Hvernig vita þau að nú sé tímabært að spíra?

BIRT: 22/05/2023

LESTÍMI:

2 mínútur

Fræ innihalda lítil plöntufóstur, svokölluð kím sem haldast á fósturstigi allt þar til aðstæður umhverfis þau gefa til kynna að nú sé kominn tími til að þroskast.

 

Hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi er breytilegt frá einni plöntu til annarrar en að öllu jöfnu skiptir vatn sköpum fyrir spírunarferlið. Þá hafa hitastig og birta einnig sitt að segja, því of hátt eða lágt hitastig getur heft spírunina, auk þess sem birta getur heft tilteknar plöntur og dimma aðrar.

 

Kímið er varið af fræskurn sem yfirleitt samanstendur af hörðum vef frá móðurplöntunni. Flest fræ innihalda einnig fræhvítu en um er að ræða blöndu af sterkju, próteinum og fitu.

 

Þegar plöntufræið sogar til sín vökva, brotnar næring fræhvítunnar niður í minni einingar sem kímið nýtir sér til að vaxa.

Raki vekur plöntufóstrið til lífsins

Þegar fræ hefur sogað til sín nægilegt magn vatns brýst plöntukímið út úr dvalarstað sínum á bak við skurnina.

1. Plöntufræ þrútna út

Vökvi kemst inn í plöntufræið sem þrútnar út og virkjar frumuskiptingar í plöntukíminu (hvítt). Prótein umbreyta fræhvítunni (gult) í glúkósa og amínósýrur og kímið byrjar að vaxa.

2. Plöntufóstur brýst út

Þegar kímið hefur stækkað nægilega mikið brýst kímrótin út gegnum skurnina og vex lengra niður í jörðina. Þar myndast lítið rótarnet sem sogar til sín vatn og næringu.

3. Ung planta sprettur upp

Aukið vatnsmagn og næring gera það að verkum að kímstöngullinn vex upp úr yfirborði jarðar. Þegar ljós skín á örsmá kímblöðin stjórnast frekari vöxtur plöntunnar af ljóstillífun.

Endinn sem stingst út úr nýspíruðu fræi er kímrótin sem skiptir sköpum fyrir áframhaldandi spírun plöntunnar, því rótin myndar heilt net af rótaröngum sem gera plöntunni kleift að taka upp meira vatn og næringu úr jörðu.

 

Að þessu loknu vex svo sjálfur kímstöngullinn upp í átt að yfirborðinu. Það ræðst svo af tegund plöntunnar hvort eitt eða tvö kímblöð opnast. Að þessu loknu er örsmá plantan undir það búin að taka við sólarljósi og hrinda af stað ljóstillífun sem gerir henni kleift að halda áfram að vaxa.

BIRT: 22/05/2023

HÖFUNDUR: JONAS GROSEN MELDAL

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock & Lotte Fredslund. © Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.