Í júlí árið 1959 kom þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, Richard Nixon (1913-1994), í heimsókn til Sovétríkjanna með það fyrir augum að koma í veg fyrir að kalda stríðið færi á verri veg.
Með Nixon sem síðar meir átti eftir að verða forseti, var í för mannmörg viðskiptasendinefnd.
Opnun bandarísku kaupstefnunnar var þó nánast farin út um þúfur þegar hinn skapstóri leiðtogi Sovétríkjanna, Nikita Krústsjov, lenti í rifrildi við Nixon, þar sem þeir virtu fyrir sér bandarískt eldhús, útbúið kæliskáp og eldavél.
Aðstoðarforstjóri Pepsi-verksmiðjunnar, Donald Kendall, reyndi at lægja öldurnar með því að bjóða Krústsjov að bragða á gosdrykk fyrirtækis síns.
Kommúnistaleiðtoginn hreifst af bragðinu og skömmu síðar gerði Pepsi samkomulag við sovésku ríkisstjórnina sem veitti fyrirtækinu PepsiCo einkarétt á að versla við Sovétríkin.
Helsti keppinauturinn, Coca-Cola, fékk ekki leyfi til hins sama fyrr en 26 árum síðar.
Frá vodka yfir í kafbáta
Brátt birtist mynd af Krústsjov, drekkandi Pepsi, í mörgum sovéskum dagblöðum. Myndin kynnti gosdrykkjaframleiðandann svo um munaði og tryggði söluna handan járntjaldsins.
Þar sem sovéska rúblan var einskis virði á Vesturlöndum höfðu Rússarnir vöruskipti á gosdrykknum og Stolichnaya-vodka sem Pepsi-framleiðandinn fékk einkaleyfi fyrir í Bandaríkjunum.
Undir lok 9. áratugarins voru íbúar Sovétríkjanna hins vegar farnir að drekka um einn milljarð af Pepsi-flöskum árlega og Bandaríkjamenn sátu uppi með meira magn af vodka en þeir megnuðu að selja.
Til allrar hamingju áttu Rússarnir aðra söluvöru sem hægt var að nota í vöruskiptum.
Þegar kalda stríðið leið undir lok buðu Sovétmenn Pepsi-framleiðandanum vöruskipti sem fólu í sér að Bandaríkjamennirnir eignuðust 17 kafbáta sem voru komnir af léttasta skeiði, svo og beitiskip, varðskip og tundurspilli. Bandaríkjamennirnir þáðu boðið.
Á árunum eftir 1980 var Pepsi-gosdrykkurinn seldur í eins konar gosdrykkja-/pylsuvögnum í Sovétríkjunum.
Pepsi var fyrir vikið eigandi sjötta öflugasta herskipaflota heims um stundarsakir, allt þar til skipaflotinn sem farinn var að ryðga allverulega, var seldur í brotajárn.
Aðstoðarforstjóri Pepsi-verksmiðjunnar, Donald Kendall, státaði sig af viðskiptunum við helsta öryggisráðgjafa Bandaríkjahers:
„Við afvopnum Rússana hraðar en ykkur tekst!“