Árið 1919 hafði löggjafarþing Bandaríkjanna í Washington DC samþykkt 19. stjórnarskrárviðbótina sem veitti konum kosningarétt.
Áður en konur hins vegar fengju leyfi til þátttöku í lýðræðinu þurftu að minnsta kosti 36 af öllum 48 ríkjum Bandaríkjanna í þá daga að staðfesta viðbótina.
Ári síðar höfðu 35 ríki staðfest hana, átta ríki kusu á móti en alls fjögur höfðu frestað þrætueplinu um ókomna tíð. Þetta gerði það að verkum að nú réðust úrslitin af Suðurríkjafylkinu Tennessee.
Allt úði og grúði í fulltrúum hagsmunahópa í höfuðborg fylkisins, Nashville, í ágúst árið 1920 sem reyndu annars vegar að fá fulltrúana til að kjósa með staðfestingunni og hins vegar á móti.
Allir voru á höttunum eftir yngsta stjórnmálamanni fylkisins, hinum 24 ára gamla Harry T. Burn, því atkvæði hans virtist ráða úrslitum.
Kvenréttindafólki til mikillar armæðu mætti hinn ungi Burn til atkvæðagreiðslunnar með rauða rós í hnappagatinu en andstæðingarnir báru einmitt rauð blóm.
Í jakkavasanum var Burn hins vegar með bréf frá móður sinni, þar sem stóð:
„Húrra fyrir kosningarétti konum til handa og láttu engan velkjast í vafa um skoðun þína!“

Inni í þinghúsinu hugsaði Burn lengi um reiðu kjósendurna úr íhaldssama héraðinu hans sem kröfðust þess að hann staðfesti ekki stjórnarskrárviðbótina. En svo fór hann að hugsa um bréfið frá mömmu.
Drengjum ber að hlýða mæðrum sínum
Þegar atkvæði höfðu verið greidd tvisvar var staðan enn 48-48. Að lokum fór fram síðasta atkvæðagreiðslan þar sem stjórnmálamennirnir fylgdu eigin sannfæringu í stað þess að kjósa líkt og flokkslínurnar buðu þeim að gera.
Þegar komið var að Burn að greiða atkvæði munnlega reif hann rauðu rósina úr hnappagatinu og hrópaði „Já“, til marks um að hann væri því fylgjandi að konur fengju kosningarétt.

Móðir Harry T. Burns, Febb, skrifaði einnig í bréfinu að hann ætti að vera góður drengur.
Úrslitin voru ráðin og bandarískar konur fengu kosningarétt.
Eftir atburðinn hafði Burn þetta að segja:
„Ég vissi að það væri ávallt best að fara að ráðum móður sinnar og mamma vildi að ég kysi staðfestingunni í vil“.