Eitt sinn fóru pokaúlfar (ýmist nefndir Tasmaníuúlfar eða -tígrar) um í hópum um alla Ástralíu, Tasmaníu og Nýju-Gíneu og veiddu allt frá kengúrum til lítilla nagdýra og fugla.
Fyrir um 5.000 árum lentu þeir í samkeppni við villihunda eða dingóhunda en það sem gerði útslagið var að 1888 hétu yfirvöld verðlaunum fyrir hvern drepinn pokaúlf.
Litið var á þetta rándýr sem meindýr í landbúnaði og því þyrfti að útrýma. Það tókst endanlega þegar síðasti pokaúlfurinn drapst í dýragarði árið 1936.
Nú hafa vísindamenn hjá Stokkhólmsháskóla unnið rannsókn sem þeir vonast til að geti hleypt nýju lífi í hugmyndir um að endurvekja pokaúlfinn og fleiri útdauðar tegundir.
Úr safneintaki af Tasmaníutígri sem vel að merkja hafði staðið við stofuhita á náttúrusögusafninu í Stokkhólmi í 130 ár tókst vísindamönnunum að ná og greina eina af grunnsameindunum í frumum dýrsins.
Það er ekki nóg að geta greint DNA ef einhvern tíma á að vera unnt að endurskapa útdauðar lífverur. Það er líka nauðsynlegt að þekkja röðina í þeim sameindakeðjum sem frumur nota til að mynda prótín eftir DNA-uppskriftinni – hið svonefnda RNA.
Fyrir nokkrum árum gaf Kvikmynda- og hljóðskjalasafn Ástralíu út litaða upptöku af einum af síðustu tasmaníuúlfunum, Benjamin, sem var tekin upp í Beaumaris dýragarðinum árið 1933. Sjáðu myndskeiðið hér:
Í Stokkhólmsrannsókninni tókst að vinna og greina hinar meira en aldargömlu RNA-sameindir úr húð, beinum og hárum dýrsins.
Það mun vera í fyrsta sinn þegar útdautt dýr á í hlut. RNA hefur áður einungis náðst úr lifandi lífverum og reyndar gömlum plöntum.
Ein af ástæðunum er sú að RNA er viðkvæmara en DNA. Vísindamennirnir áttu tæpast von á að sameindirnar gætu haldið sér í svo langan tíma – og alls ekki nema í frysti.
Í myndinni Jurassic Park finna vísindamenn ævafornt erfðaefni úr risaeðlum og tekst að vekja þessar útdauðu skepnur aftur til lífsins. Er það hægt í raunveruleikanum?
Sjálfir segja vísindamennirnir rannsóknina sönnun þess að óteljandi RNA-sameindir gætu leynst í gömlum, uppstoppuðum dýrum og vefjasýnum sem varðveitt eru á söfnum víða um heim.
Og hugsanlega gæti sá dagur runnið upp að í slíkum sýnum verði unnt að greina RNA frá upphaflegum útgáfum af veirum á borð við Covidveiruna SARS-CoV2 til að skilja betur upphaf sjúkdómsfaraldurs.
Rannsóknarniðurstöðurnar hafa verið birtar í vísindatímaritinu Genome Research.
Grunnur
Heiti: Tasmanípokaúlfurinn tilheyrir pokadýrunum eins og nafnið gefur til kynna.
Búsvæði: Dýrið lifði í Ástralíu, Nýju-Gíneu og Tasmaníu.
Stærð: Pokaúlfurinn var um 30 kg og gat orðið allt að 130 cm að lengd og 65 cm á hæð.