Búddatrú er í dag í fjórða sæti yfir fjölmennustu trúarbrögð heims og telja fylgjendur hennar tæplega hálfan milljarð manna og er boðskapur hennar talinn, bæði af fylgjendum og öðrum, fela í sér umburðarlyndi, víðsýni og mildi gagnvart öllu lífi.
Búddatrú er þó í raun alls ekki með flekklaust mannorð.
Þegar rýnt er í gömlu ritin kemur nefnilega berlega í ljós að víðsýnin tekur engan veginn til allra og að það eru einkum konur og fátæklingar sem eru undanskilin í kenningum Siddharta Gautamas.
Til þess að varpa ljósi á ástæðu þessa skulum við hverfa ein 2.500 ár til baka, til þess tíma þegar allt úði og grúði í sértrúarsöfnuðum og vakningarpredikurum á Indlandi.
Betlimunkar, klæddir hálfgerðum lörfum, flökkuðu frá einum bæ til annars til þess að kunngjöra að þeir með aðstoð hugleiðingar og jóga hefðu fundið sannleikann. Lærisveinarnir söfnuðust saman í skugga trjánna til að fræðast um jóga og hlýða á lærifeðurna segja frá föstu og meinlæti sem væru leiðir til að öðlast fullkomna innsýn og hugarró.
Meðal þessara predikara var Siddharta Gautama, prins nokkur sem sagt var að hefði fundið leiðina að sannleikanum og fullkominni sálarró með því að iðka hugleiðslu.
Siddharta var sannarlega einungis einn margra en hann var hins vegar ekki eins og hinir.
Þegar fram liðu stundir gleymdust aðrir predikarar og orð þeirra á meðan Siddharta og kenningar hans sem farið var að nefna búddatrú, rötuðu á spjöld sögunnar.
„Ég átti þrjár hallir, eina fyrir kaldasta árstímann, aðra fyrir heita tímabilið og þá þriðju fyrir regntímann“.
Úr minningum Búdda.
Prinsi ætlað að sleppa við þjáningar
Ekkert benti til þess að Siddharta væri ætlað að verða andlegur leiðtogi þegar hann kom í heiminn í norðurhluta Indlands um 563 f.Kr.
Öðru nær.
Pilturinn var sonur konungsins á staðnum, Suddhodana og þar með fæddur í heim valda og munaðar.
Spáð var fyrir föður prinsins þegar prinsinn fæddist og styrktist staða hans til muna við það, því spádómurinn hljóðaði á þann veg að prinsinn ætti annað hvort eftir að verða valdamikill þjóðhöfðingi ellegar þá mikill andlegur leiðtogi eða svo sögðu prestarnir konunginum.
Hættan á að frumburður hans yrði andlegur skörungur fór fyrir brjóstið á Suddhodana. Hann óskaði þess heitar en nokkuð annað að Siddharta yrði handhafi konungsvaldsins eftir hans dag og gerði allt sem í hans valdi stóð til að stuðla að veraldlegri hamingju sonarins.
Auk þess að hafa yfir að ráða þjónum sem hlýddu minnstu handarhreyfingum hans, að ganga í dýrustu klæðum sem völ var á og að snæða einungis fyrsta flokks fæðu, hafði prinsinn yfir að ráða alls þremur höllum.
„Ég hafði þrjár hallir til ráðstöfunar, ein var ætluð kaldasta árstímanum, önnur heita tímabilinu og sú þriðja regntímanum. Þá mánuði sem rigndi styttu söngvarar mér stundir, allt konur og ég fór aldrei út úr höllinni“, á Siddharta að hafa sagt, ef marka má gömul rit.
„Ég var dekraður – ofdekraður“, ályktaði hann.

Búdda sjálfur taldi sig hafa verið endurborinn 14 sinnum. Í hvert sinn hefði hann færst skrefinu nær „nirvana“.
Þegar prinsinn fór út fyrir örugga hallarmúrana gekk konungurinn úr skugga um að þjónar hefðu rekið á brott betlara, veikt fólk, gamlingja og aðra þá sem varpað gætu ljósi á skuggahliðar tilverunnar.
Í einni ökuferðinni kom Siddharta engu að síður auga á gamlan, veikburða mann, því næst veikan mann og að lokum lík.
Meðvitundin um dauðann gerði prinsinn dapran: „Þessi sýn gerði það að verkum að lífslöngun mín varð að engu“, útskýrði hann síðar meir.
Hugleiðsla leiddi til sannleikans
Siddharta sem var 39 ára gamall þegar þarna var komið sögu, tók þá ákvörðun að yfirgefa sitt gamla líf og leita sannleikans, líkt og munkarnir sem hann sá á þjóðvegunum.
„Ég skar hár mitt og skegg og þó svo að foreldrar mínir væru því mótfallnir, syrgðu og grétu, klæddist ég mógulum serk og yfirgaf heimili mitt“, á hann að hafa sagt.

Búddatrú skiptist í sex greinar
Um 500 milljón manns, u.þ.b. sjö prósent jarðarbúa, aðhyllast búddatrú. Langflestir þeirra búa í Austurlöndum.
1. Theravada
telst vera elsta og íhaldssamasta trúarhefðin. Fulltrúar hennar eru þeirrar skoðunar að einungis munkar og nunnur geti öðlast það sem búddatrúarmenn kalla frelsun. Rösklega hundrað milljón manns aðhyllast þetta afbrigði trúarinnar.
2. Mahayana
kom fyrst fram á sjónarsviðið um það bil 200 árum fyrir Krist en trúarhefð þessi byggir á ritum sem samanstanda af ræðum Búdda. Andstætt við hinar hefðirnar álíta fulltrúar þeirra að allir geti orðið „bodhisattva“, þ.e. einstaklingar sem séu nægilega uppljómaðir til að öðlast „nirvana“ en sem þess í stað kjósi að verða endurfæddir í því skyni að liðsinna öðrum.
3. Vajrayana
aðskilur sig frá öðrum trúarhefðum að því leyti að þar býðst skjót frelsun með hjálp helgisiða og hugleiðslu undir leiðsögn andlegs leiðtoga eða búddamunks. Fremsti fulltrúi þessarar trúarhefðar er Dalai Lama.
4. Newar –
trúarhefðin er sérstök tegund Búddosma sem newar-ættflokkurinn í Katmandú-dalnum í Nepal leggur stund á. Andstætt við aðrar trúarhefðir sem teljast til búddisma er engar klausturreglur að finna í tengslum við þessi trúarbrögð. Trúfélagið byggir hins vegar á stéttakerfinu á hverjum stað.
5. Azhali
trúarhefðin leit fyrst dagsins ljós á 9. öld meðal „bai“-þjóðflokksins í Yannan-héraði í Kína eftir komu indverskra munka til landsins. Heitið stafar af heitinu sem notað er yfir lærifeður trúarstefnunnar en þeir kallast „azhali“ sem eru mikilvægir þátttakendur í hvers kyns helgisiðum sem stundaðir eru.
6. Dalit
var trúarhefð sem fyrrum dómsmálaráðherra Indlands, Bhimrao Ramji Ambedkar, setti á laggirnar árið 1956. Trúarstefna þessi var af stjórnmálalegum og félagslegum toga umfram það að vera andlegs eðlis en sem dæmi má nefna að áhangendur hennar álíta samfélagslegan jöfnuð vera æðsta ástandið, þ.e. algleymisástand eftir dauðann.
Siddharta var engan veginn eini leitandinn á Indlandi. Samfélaginu var skipt í óhagganlegar erfðastéttir og tilheyrði opinbera prestastéttin þeirri efstu.
Skilin á milli presta og íbúanna í lægri stéttum sköpuðu jarðveg fyrir ógrynnin öll af ólærðum predikurum sem lofuðu bót og betrun gegn öllum heimsins kvillum og á Indlandi á tímum Búdda var að finna urmul af trúarbrögðum, hvert með sínu yfirbragði.
Siddharta reyndi sig fyrst við jóga en gekk síðan til liðs við meinlætamenn sem voru þeirrar skoðunar að fasta leiddi til andlegrar frelsunar.
Fastan var svo ströng að Siddharta, ef marka má orð hans sjálfs, innbyrti einungis sex hrísgrjón á dag. Afneitun matar færði honum hins vegar enga frelsun, heldur gerði hann einungis veikburða, svo veiklaðan að hann hafði næstum látið lífið.
Í örvæntingu sinni hóf hann að hugleiða og sú aðferð bar að lokum ávöxt.
Sex árum eftir að Siddharta hafði yfirgefið fjölskyldu sína og sitt fyrra líferni upplifði hann kraftaverk þar sem hann sat undir fíkjutré einu, rétt fyrir utan Gaya í norðausturhluta Indlands.
Í sæluvímu skildi Búdda á einu augabragði allt sem unnt var að skilja um heiminn og mennina. Hann lýstir því yfir að hann væri nú Búdda, þ.e. hinn uppljómaði.
„Úr því að allt jarðneskt er sjónhverfing, gildir það einnig um dráp“
útskýrir Búdda fyrir Ajatashatru, konungi sem snýr sér til hans til að létta á samviskunni vegna morðs.
Með nýfundnu skynbragði sínu skildi Búdda að allir menn og öll dýr væru föst í eilífu hjóli fæðingar, dauða og endurfæðingar.
Gerðir og hugsanir hrönnuðust upp alla ævi sem eins konar orka sem hann nefndi karma og spegluðust síðan í stöðu hvers og eins að lokinni endurfæðingu.
Góðar og göfugar gerðir leiddu af sér betra líf eftir endurfæðinguna á meðan slæmar gerðir orkuðu öfugt.
Þar sem allar slæmar gerðir og hugsanir eru leiddar af þrá í veraldleg gæði og nautn er mikilvægt að skilja að allt jarðlegt er sjónhverfing ein, ekki veruleiki.
Sá sem þetta skilur mun uppljómaður verða og eftir andlátið komast í það sem nefnt hefur verið „nirvana“ (algleymi) en með því er átt við algleymisástand eftir dauðann sem er paradís búddista og æðsta markmið þeirra.
Næstu árin á eftir boðaði Búdda boðskap sinn, bæði sem andlegur leiðtogi og lærifaðir. Eftir að hann lést, 80 ára gamall, héldu lærisveinar hans áfram að kunngjöra boðskap hans og segja frá verkum hans.
Andstætt við boðskap prestanna voru kenningar Búdda aðgengilegar öllum og allir gátu öðlast frelsun, þ.e. „nirvana“, færu þeir að ráðum hans.
Trúarbrögðin öðluðust fyrir vikið mikla útbreiðslu, fyrst á Indlandi og síðan í öðrum hlutum af Asíu.

Vegurinn að algeymi krefst innsýnar, fyrirgefningar og fórnfýsi.
Paradís krefst sjálfsstjórnar
Til þess að öðlast „nirvana“, öðru nafni algleymi, fá búddistar aðstoð sjálfs meistarans. Búdda lýsir því í átta atriðum á hvern hátt menn geta öðlast stjórn yfir líkama og anda og þar með losað sig undan þjáningum lífsins og fundið leiðina að paradís.
1. Réttur skilningur
Fyrsta atriðið felur í sér skilning á því að lífið felur í sér þjáningu, m.a. sem sjúkdóm og dauða og að búddatrúin feli í sér úrræði. Leiðin til frelsunar er í átta þrepum.
2. Hugsunarháttur
Sá sem er rétthugsandi forðast illan ásetning og einblínir þess í stað á kærleiksríkar hugsanir sem einkennast af samkennd.
3. Talsmáti
Í því skyni að mæla rétt verður búddisti að forðast það að segja ósatt, nota blótsyrði, baktala eða á annan hátt efna til illinda og sundrungar.
4. Hátterni
Að forðast að særa aðra eða á annan hátt að meiða lifandi verur. Meðal þeirra athafna sem forðast skal eru þjófnaður og ótryggð.
5. Líferni
Rétt líferni er ekki fólgið í að græða fé á atvinnu sem valdið getur öðrum skaða. Búddistar skyldu því forðast viðskipti með t.d. vopn, áfengi og fíkniefni.
6. Viðleitni
Felur í sér viðvarandi viðleitni til að víkja ekki frá atriðunum átta.
7. Stjórn meðvitundar
Að vera stöðugt árvökull gagnvart innri og ytri fyrirbærum sem skaddað geta líkama og sál, svo sem eins og óhollri fæðu eða neikvæðum hugsunum.
8. Einbeiting
Rétta einbeitingin felst í æfingu í að hugleiða. Hugleiðsla er mikilvægt skref í áttinni til frelsunar því aðferðin undirbýr hugann í að öðlast uppljómun og þar með má forðast endurfæðingu.
Konur fengu ekki aðgang að paradís
Þó svo að heimspeki Búdda virðist í fljótu bragði byggja á hjartahlýju, fól hún engu að síður einnig í sér miður fagurt álit prestprinsins á fátækum og konum.
Hugmyndin um „karma“ felur það nefnilega í sér að einstaklingurinn beri algera ábyrgð á lífi sínu. Fátæklingurinn sem fæðist á botni samfélagsins, er hvorki ólánsamur né heldur fórnarlamb ytri aðstæðna.
Sá hinn sami þjáist í fátækt sinni fyrir misgjörðir sínar í fyrra lífi. Fyrir bragðið áleit Búdda ekki að hjálpa skyldi fátækum, heldur láta þá þjást.
Það orðspor friðar sem fór af búddistum, var í raun heldur ekki algerlega verðskuldað. Rétt er það að „ahimsa“, virðing gagnvart öllu sem hrærist, er eitt af grunngildum Búddatrúarinnar.
Í frásögn einni sýnir Búdda fylgjendum sínum úrræði sem gerir þeim kleift að hunsa reglu þessa:
Hæðin í gamla borgarhluta Jerúsalem er aðeins um hálfur ferkílómetri en mikilvægi hennar er gríðarlegt. Um aldir hafa gyðingar, múslimar og kristnir barist um Musterishæðina sem er einn helgasti staður allra þriggja trúarbragðanna.
Úr því að allt jarðneskt er sjónhverfing, gildir það sama um dráp, útskýrði Búdda fyrir konunginum Ajatashatru sem hafði leitað til hans til að létta á samvisku sinni eftir að hafa framið morð.
„Þessu mætti líkja við bergmálið af rödd í dalnum. Sá fávísi heldur að um sé að ræða raunverulega rödd en hinn vísi veit að svo er ekki. Þannig er því einnig farið með dráp. Sá fávísi telur að um sé að ræða raunveruleika en hinn vísi veit að sú er ekki raunin“, segir Búdda við konunginn Ajatashatru í því skyni að róa hann.
Búddatrú mætti að sama skapi líkja við kristna trú og múhameðstrú að því leyti að innan hennar hafa einnig rúmast miklir stríðshöfðingjar, svo sem eins og Dutugemunu konungur sem öldina eftir Krists burð lagði undir sig allt Sri Lanka, vopnaður sverði.
Búddatrú stenst heldur ekki skoðun hvað hugmyndir um konur áhrærir. Ef marka má gömul rit gátu konur í raun öðlast uppljómun, líkt og við átti um karlmenn.
Í raun réttri var Búdda ekki sérlega umburðarlyndur. Þegar eldri frænka Búdda, Mahapajapati, bað hann um leyfi til að fá að ganga í klaustur hafnaði hann bón hennar á þeim forsendum að hún væri kona. Hann lét ekki einu sinni undan þegar Mahapajapati þessi, ásamt 500 öðrum konum, öllum krúnurökuðum og fótgangandi, gekk 240 km leið í því skyni að koma til fundar við Búdda.

Helvíti er einnig til í Búddatrú. Hinir ólánsömu eiga á hættu að verða soðnir, brenndir eða étnir af lifandi dýrum.
Markmiðið er að endurfæðast sem karl
Búdda skipti síðar meir um skoðun en skilyrðin fyrir að konur fengju að ganga í klaustur voru skráð í svokallaðar garudhammas-reglur sem enn eru við lýði.
Reglurnar kváðu svo fyrir um, án nokkurs fyrirvara, að nunnur skyldu háðar munkum í öllu tilliti og að konurnar skyldu sem dæmi ávallt lúta skoðunum karla.
Þessi undirlægjustaða nunnanna tengdist því að hluta til að þær voru álitnar vera óhreinar meðan á blæðingum stóð.
Konum sem eru á blæðingum er víða meinaður aðgangur að búddamusterum enn þann dag í dag.
Mestur var þó óttinn við kynferðislegt aðdráttarafl kvenna og getu þeirra til að afvegaleiða karlmenn, eiginleika sem gerði það að verkum að þær gátu ekki komist í algleymisástand eftir dauðann (nirvana).
„Búddaland er fullkomlega hreint. Hér fyrirfinnast engar konur“, stendur í merkasta riti búddista, Tripitaka.
Konunum er þó ekki alls varnað, ef marka má höfund bókarinnar. Þær geta safnað saman góðu karma og endurfæðst fyrir vikið sem karlar og að lokum öðlast það sem indverski prinsinn sóttist eftir: Fullkominn skilning og innri ró.
Lestu meira um sögu Búddismans
H.W. Schumann: The Historical Buddha, Motilal Banarsidass, 2016
Michael Jerryson & Mark Juergensmayer: Buddhist Warfare, Oxford University Press, 2010