Framhjáhaldið er vel þekkt fyrir að eyðileggja parasambönd en hefur jafnframt yfir sér talsverðan dularhjúp.
Hvernig á eiginlega að vera hægt að rannsaka framhjáhald í vísindaskyni, þegar það er einmitt svo nátengt skömm og leynimakki?
Hópur vísindamanna hjá Tilburgháskóla hefur alla vega gert heiðarlega tilraun. Í nýbirtri vísindagrein í tímaritinu Psychological Science greina þeir frá niðurstöðum 12 ára rannsóknar sem náði til 609 þýskra karla og kvenna sem höfðu haldið framhjá og 338 einstaklinga sem orðið höfðu fórnarlömb framhjáhalds.
Þátttakendur voru m.a. spurðir um almenna vellíðan og samband sitt.
Munurinn á viðbrögðum karla og kvenna gagnvart eigin framhjáhaldi kom vísindamönnunum á óvart. Við skulum nota þeirra eigin orð:
„Áhugavert var að greiningar okkar leiddu í ljós að tiltekinn hópur virðist ná góðu jafnvægi og jafnvel betri líðan eftir framhjáhald: Konur sem halda framhjá.“
Getur vakið jákvæðar tilfinningar
Karlmenn virtust þvert á móti glata hluta sjálfsvirðingar sinnar og ánægja þeirra með lífið og tilveruna gat beðið hnekki eftir víxlspor af þessu tagi.
Vísindamennirnir setja fram tilgátu um ástæðu þess að sumar konur geti upplifað jákvæðar tilfinningar í kjölfar framhjáhaldsins – þó alveg án þess að prófa þetta á eigin skinni.
M.a. er bent á eldri rannsókn sem birtist í Journal of Social and Personal Relationships árið 2005 en þar nefndu konur iðulega óánægju í parasambandi sínu sem ástæðu framhjáhaldsins.
Í nýju rannsókninni kemur fram að „ástarævintýri kvenna skapast oft fremur af óánægju með makann. Framhjáhaldið gæti því verið makanum ástæða til að hugsa sinn gang og breyta háttum sínum.“
LESTU EINNIG
Átta ástæður framhjáhalds
Ástæður framhjáhalds geta reyndar verið flóknar. Það varð niðurstaðan í rannsókn frá árinu 2020, þegar bandarískir vísindamenn fengu til rannsóknarinnar 495 einstaklinga hjá stórum bandarískum háskóla og af mismunandi undirsíðum samfélagsmiðilsins Reddit.
Þessir þátttakendur viðurkenndu fyrirfram að hafa haldið framhjá og vísindamennirnir spurðu hinnar einföldu spurningar: Hvers vegna gerðir þú það?
Greiningar á svörunum leiddu í ljós þessar átta lykilástæður framhjáhaldsins: Reiði, sjálfsmynd, skort á ást, áhugaleysi, þörf fyrir tilbreytingu, svik, kynlosta og ástand eða aðstæður.
Hver ástæðan var hafði einnig áhrif á hversu lengi þátttakendur voru ótrúir, hversu djúpt þeir sökktu sér tilfinningalega í framhjáhaldið og hvort föstu sambandi þeirra lauk í kjölfarið.