Afbrýðisemi er ávallt óviðeigandi tilfinning. Eigi afbrýðisemi þín ekki við nein rök að styðjast er hætt við að makinn reiðist því að vera ásakaður um eitthvað sem hann hefur ekki gert. Sé afbrýðisemin hins vegar á rökum reist breytir hún að öllum líkindum engu hvað svikulan makann snertir.
Sama hvað er, þá leiðir tilfinningin til sársauka, óhamingju og hefur slæm áhrif á ástarsambandið, svo hvaða gagn gerir afbrýðisemi eiginlega?
Afbrýðisemi er eins konar ástarþríhyrningur
Við skulum byrja á því að slá því föstu hvað hugtakið afbrýðisemi táknar, því það er grundvallarmunur á öfund og afbrýðisemi. Báðar þessar tilfinningar stafa af því að við viljum fá eitthvað sem einhverjir aðrir hafa eða við ímyndum okkur að þeir hafi.
Þó svo að öfund geti hæglega ríkt á milli tveggja einstaklinga krefst afbrýðisemi þess að minnst þrír aðilar eigi þátt að máli. Við öfundum hugsanlega einhvern sem á fallegt hús en afbrýðisemi gerir hins vegar ekki vart við sig nema þá þriðji aðili sé til staðar sem við bæði berjumst um.
Höfundur greinarinnar, Jill Byrnit, er sálfræðingur með BA-próf í líffræði og doktorsgráðu í félagsþroska manna og annarra prímata. Hún er einn fremsti sérfræðingur Norðurlanda í atferli prímata sem hún hefur fylgst með úti í náttúrunni, á prímatastöðvum og í dýragörðum.
Afbrýðisemi er þróunarfræðilega ætlað að leiða af sér aðgerðir sem þjóna tvennum tilgangi: að halda hugsanlegum meðbiðlum frá makanum og tryggja að makinn verði áfram með þér í stað þess að stinga af með hinum.
Fyrir vikið verðum við oft árásargjörn gagnvart öðrum hugsanlegum meðbiðlum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að halda fast í makann eða að fjarlægja meðbiðla.
Margar dýrategundir sem stunda kynjaða æxlun, hegða sér með þessu móti.
Kynlaus æxlun á sér stað án frjóvgunar og er einkar sjaldséð meðal dýra en þekkist hins vegar vel meðal plantna, þar sem einstök fruma getur skipt sér í tvö eins afrit.
Umönnun afkvæma krefst bjargráða
Afbrýðisemistilfinningin er þó ekki einvörðungu viðbragð gegn ógnum. Hún gerir einnig vart við sig þegar við sjáum fyrir okkur sársauka og vanda í framtíðinni.
Óháð því hvort um er að ræða fólk, úlfa eða górillur snýst afbrýðisemi um það að varðveita tengslin við makann. Þetta hljómar í raun rómantískt.
En hvers vegna flögrum við þá ekki bara um frá einum maka til annars, líkt og við á um fiðrildi sem flögra frá einu blómi til annars? Í þróunarfræðilegu samhengi myndi það ganga upp.
LESTU EINNIG
Svarið er að finna í samhenginu á milli afkvæmaumhyggju annars vegar og samfélagsgerðar tegundarinnar hins vegar.
Umönnun afkvæmanna er ekki jafn íþyngjandi hjá öllum dýrategundum og umhyggjan kann að vera svo flókin og mikil að ekki nægi að annar aðilinn annist hana, heldur þurfi fleiri fullorðin dýr til.
Náttúruvalið hefur fyrir vikið séð til þess að ýmsar dýrategundir komi sér upp maka, annað hvort fyrir lífstíð eða árstíðabundið.
Þessi samfélagsgerð þekkist m.a. hjá fuglum en um 90 hundraðshlutar allra fuglategunda halda sig við einn maka. Maðurinn minnir að miklu leyti á fugla, því báðar tegundir sinna barnauppeldi tvö og tvö saman, annað hvort beint eða óbeint, t.d. með aðstoð meðlags. Að þessu leyti erum við ólík öðrum spendýrategundum en aðeins um fimm prósent þeirra aðhyllast einn maka.
Við bregðumst við afbrýðisemi á ólíkan hátt
Ýmislegt virðist benda til þess að afkvæmaumhyggja mannsins hafi verið svo krefjandi lengi að bæði kynin í þróunarsögu mannsins hafi orðið að þróa með sér leið til að aðstoða hvort annað við uppeldið.
Dýr geta einnig orðið afbrýðisöm
Afprýðissemi hjálpar til við að fæla burtu keppinauta og að makinn hugsi ekki um kynferðislegar freistingar. Þetta er mikilvægt í samböndum hjá flestum dýrum, þar sem afbrýðissemi getur komið í veg fyrir að þú sjáir um barn meðbiðils.
Marmósettuapar halda ævilangri tryggð
Smágerðir suðuramerískir marmósettuapar sem nefnast tamarínur og marmósettur, lifa í fjölskylduhópum sem samanstanda af móður, föður og afkvæmum og foreldrarnir halda tryggð við hvort annað alla ævi. Einkvæni foreldranna er styrkt með því móti að foreldrarnir hafa að öllu jöfnu samfarir einu sinni á dag.
Karldúfur liðsinna kvendúfum
Dúfur eiga langflestar einn og sama makann alla ævi og foreldrarnir hjálpast að við hreiðurgerðina, að vernda eggin og fóðra ungana. Feðurnir verða árásargjarnir og missa áhugann á sambandinu við kvenfuglinn ef hún hefur átt í sambandi við annan karl stuttu áður.
Gibbonapar umbera enga keppinauta
Gibbonapar eru náskyldir mönnum og andstætt við aðra apa eignast þeir fastan maka. Þeir umbera enga keppinauta af sama kyni og jafnvel kynþroska afkvæmi þeirra sjálfra fá því aðeins að vera áfram hluti af hjörðinni ef þau eðla sig ekki með öðrum dýrum.
Þar sem konan er það kynið sem frjóvgað verður og frjóvgunin á sér stað í líkama hennar sjálfrar, veit hún ávallt að hún er móðir barnsins.
Faðirinn getur ekki verið jafn viss um rétt faðerni. Mörg DNA-sýni nútímans hafa haft í för með sér grát og gnístran tanna þegar í ljós hefur komið að meintur faðir var alls ekki líffræðilegur faðir barnsins.
Þessi kynjamunur er grundvallarforsenda víða í dýraríkinu en segja má að mennskir feður taki mikla áhættu því þeir þurfa að vera virkir í barnauppeldinu.
Ef þeir gæta sín ekki eiga þeir á hættu að verja mörgum árum í tímafrekt barnauppeldi á afkvæmi annars manns. Þegar það gerist stuðla þeir jafnframt að því að erfðavísar meðbiðilsins berist áfram. Það myndi flokkast sem algert þróunarfræðilegt gjaldþrot.
Konur í fortíðinni stóðu frammi fyrir öðrum vanda. Þær þurftu ekki að óttast að þær af misgáningi tækju að sér uppeldi barna annarrar konu og þeim gat eiginlega bara staðið á sama þótt makinn héldi fram hjá.
Karlar komast í verulegt uppnám við tilhugsunina um að makinn hafi samfarir við annan mann.
Konurnar hljóta á hinn bóginn að hafa óttast að maðurinn tengdist hinni konunni tilfinningaböndum og að hann kynni að yfirgefa fjölskylduna.
Föst sambönd skipta máli
Vísindalegar rannsóknir sýna að ungum mönnum og konum um gjörvallan heim ber saman um að áreiðanleiki sé eitt það mikilvægasta í fari makans þegar kemur að því að velja hann.
En þegar svo sama fólk er spurt hvort það yrði sorgmæddara yfir því að makinn stofnaði til tilfinningalegs sambands við annan aðila eða þá stundaði fjörugt kynlíf með öðrum aðila, þá kemur í ljós greinilegur munur milli kynjanna.
Karlmenn verða algerlega miður sín, bæði í svörum þeirra og lífeðlisfræðilegum mælingum, ef þeir ímynda sér eiginkonuna hafa kynmök við annan mann.
Konur bregðast hins vegar ekki jafn illa við kynlífsímynduninni og því að makinn eigi í mjög nánu tilfinningasambandi við aðra konu.
LESTU EINNIG
Bandarísk rannsókn tók jafnframt með í reikninginn upplýsingar um það hvort viðkomandi hefði verið í föstu ástarsambandi eða aldrei átt maka.
Vísindamennirnir spurðu unga námsmenn hvort þeir tækju því verr að makinn ætti í nánu tilfinningasambandi við annan aðila eða stundaði kynlíf með annarri manneskju.
Þegar konurnar voru spurðar skipti engu máli hvort þær hefðu persónulega reynslu af föstum ástarsamböndum.
Þeim fannst erfiðast að ímynda sér makann tengjast annarri konu nánum tilfinningaböndum.
Þetta átti ekki við um karlmennina. Karlmönnum, hvort heldur þeir höfðu reynslu af föstum ástarsamböndum eður ei, fannst erfiðara að sjá fyrir sér kynferðislegt framhjáhald en tilfinningalegt en í raun var enginn grundvallarmunur á líðan þeirra.
Karlmenn með reynslu af föstum ástarsamböndum komust í miklu meira uppnám við tilhugsunina um að ímyndaður kvenkyns maki væri að stunda ástríðufullt kynlíf með öðrum manni en við átti um karlmenn sem enga reynslu höfðu af föstum ástarsamböndum.
Sennilega hafa föst sambönd haft þau áhrif gegnum þróunarsöguna að menn hafa fengið óbeit á því að konur þeirra hafi kynmök við aðra menn. Þessum hluta rannsóknarinnar hafa vísindamennirnir enn ekki fengið neina skýringu á.